Namm (1990-96)

Namm 1991

Namm

Hljómsveitin Namm frá Akureyri var áberandi í skemmtanalífinu norðan heiða en sveitin var hreinræktuð ballhljómsveit.

Hljómsveitin var stofnuð 1990 og framan af voru meðlimir hennar Viðar Garðarsson bassaleikari (Drykkir innbyrðis o.fl.), Karl Petersen trommuleikari (Opus, Na nú na o.fl.), Hlynur Guðmundsson gítarleikari (Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar o.fl.), Sigfús Arnþórsson hljómborðsleikari (Möðruvallamunkarnir o.fl.) og Júlíus Guðmundsson söngvari (Pass, Gallerí o.fl.), sá síðast taldi kom lítillega við sögu undankeppni Eurovision og Landslagsins á sínum tíma.

Sigfús hljómborðsleikari hætti í Namm sumarið 1992 og hans sæti tók Ingólfur Jóhannsson (Dansbandið o.fl.), ekki er kunnugt um frekari mannabreytingar í sveitinni.

Namm lék langmest á heimavelli á Akureyri og nærsveitum en kom suður til ballspilamennsku í örfá skipti, eitt sinn varð sveitin svo fræg að spila á þorrablóti Íslendinga í Svíþjóð.

1991 átti Namm lag á safnplötunni Úr ýmsum áttum og tveimur árum síðar á safnplötunni Lagasafnið 3, þótt meðlimir sveitarinnar hefðu á stefnuskrá sinni að gefa út plötu varð aldrei úr þeim fyrirætlunum.

Árið 1995 fór minna fyrir sveitinni en árin á undan og líklega var hún hætt störfum um vorið 1996 en hún hafði þá starfað um sex ára skeið.