Tíglar [4] (1983-2008)

Tíglar

Hljómsveitin Tíglar (Tíglarnir) var langlíf sveit sem spilaði einkum gömlu dansana og lék um árabil á danshúsum í Reykjavík við fastráðningu, líftími hennar var líklega frá 1983 og fram á þessa öld, jafnvel til 2008 eða lengur en hin síðari ár starfaði hún fremur stopult.

Meðlimaskipan Tígla var eitthvað á reiki enda starfa langlífar sveitir sjaldan án mannabreytinga. Þekktir meðlimir hennar eru Sigurgeir Björgvinsson harmonikkuleikari, Birgir Ottósson bassaleikari og söngvari, Eggert Kristinsson trommuleikari (Hljómar o.fl.), Sigfús Arnþórsson hljómborðsleikari og Jón Karl Ólafsson hljómborðsleikari og söngvari, en einnig hafa gestasöngvarar komið margoft með henni. Þeirra á meðal má nefna Örnu Þorsteinsdóttur og Hjördísi Geirsdóttur. Yfirleitt voru þrír eða fjórir í Tíglum í senn.