
Tígulkvartettinn
Söngkvartettinn Tígulkvartettinn starfaði á fyrri hluta sjötta áratugarins og gaf þá út nokkrar plötur.
Meðlimir kvartettsins voru Guðmundur H. Jónsson, Hákon Oddgeirsson, Brynjólfur Ingólfsson og Gísli Símonarson, en Jan Morávek stjórnaði honum.
Það var fyrst árið 1952 sem Tígulkvartettinn lét að sér kveða en þá kom út tveggja laga splitplata með kvartettnum og Soffíu Karlsdóttur, Soffía söng þar sínar þekktu Bílavísur en framlag kvartettsins var Réttarsamba, öllu minna þekkt en hefur þó komið út síðan í útgáfum Andreu Gylfadótttur og Lummanna.
1953 kom síðan út tveggja laga plata með Tígulkvartettnum (Ég mætti þér / Hittumst heil) undir merkjum Íslenzkra tóna (reyndar eins og allar plötur kvartettsins) við undirleik hljómsveitar undir stjórn Jan Morávek. Ár leið þar til önnur tveggja laga plata kom út (Ég bið að heilsa / Sólsetursljóð) en í það skiptið sá Morávek einn um undirleik á píanó. 1955 kom síðan út plata þar sem fyrri hliðin hafði að geyma lag með Sigurði Ólafssyni (Ástarvísa hestamannsins) en seinni hliðin lagið Sveinki síkáti (Sveinkadans) með Tígulkvartettnum.
1959, nokkrum árum eftir að Tígulkvartettinn hætti störfum, kom út fimm laga 45 snúninga plata (sem þá voru nýlega komnar til sögunnar) með tveimur lögum kvartettsins en einnig lögum með Sigurði Ólafssyni og Karlakórnum Vísi.
Í seinni tíð hafa nokkur lög Tígulkvartettsins komið út á safnplötum, þar má nefna Aftur til fortíðar 50-60 I (1990), Strákarnir okkar (1994), Þrjátíu vinsæl lög frá 1950-60 (1977), Stóra bílakassettan VI (1980), Svona var það 1953 (2005, Söngvasjóður (1993) og Íslenzkir tónar: 70 ára afmælisútgáfa (2017).