Basil fursti (1978-80)

Basil fursti

Basil fursti var nokkuð þekkt ballhljómsveit á síðari hluta áttunda áratugar síðustu aldar en hún skartaði þá m.a. söngvaranum Eiríki Haukssyni sem þá var að stíga sín fyrstu spor í tónlistarbransanum.

Það voru þeir bræður Andri Örn Clausen söngvari og gítarleikari og Michael Clausen gítarleikari, Jón Karl Ólafsson hljómborðsleikari (síðar athafnamaður), Erlingur Kristmundsson trommuleikari og Birgir Ottósson bassaleikari sem stofnuðu Basil fursta en Eiríkur Hauksson söngvari bættist síðan í hópinn vorið 1979.

Basil fursti lék víða tónlist sína á böllum, í fyrstu mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu en síðar einnig á landsbyggðinni, sveitin lék t.a.m. á Rauðhettu-hátíðinni í Þjórsárdal sumarið 1978 og ári síðar fóru þeir félagar sveitaballarúntinn ásamt hljómsveitinni Íslenskri kjötsúpu.

Sveitin hætti störfum snemma árs 1980 en birtist aftur á sjónarsviðinu áratugum síðar, fyrst 2011 og aftur árið 2014 en þá var Snorri Örn Clausen (sonur Michaels) kominn í sveitina í stað Andra Arnar sem lést árið 2002.