Naust-tríóið (1957-62)

Naust tríóið

Naust-tríóið

Naust-tríóið var húsband veitingastaðarins Naustsins við Vesturgötu í kringum 1960.

Tríóið var skipað erlendum tónlistarmönnum sem höfðu flust hingað á mismunandi tímapunkti en allir höfðu þeir starfað hér um árabil og áttu eftir að gera það áfram enda miklir fagmenn á sínu sviði sem höfðu heilmikil áhrif á íslenskt tónlistarlíf.

Meðlimir Naust-tríósins voru Carl Billich píanóleikari, Jan Morávek fiðluleikari og Pétur Urbancic kontrabassaleikari. Þeir félagar voru allir störfum hlaðnir annars staðar í reykvísku tónlistarlífi en höfðu þennan fasta punkt saman.

Naust-tríóið hóf að leika á Naustinu 1957 (veitingastaðurinn opnaði haustið 1954) og starfaði þar að minnsta kosti til 1962.