Carl Billich (1911-89)

Carl Billich

Austurríski píanóleikarinn Carl Billich var einn þeirra erlendu tónlistarmanna sem hingað til lands rötuðu á fyrri hluta síðustu aldar. Hann var fluttur í fangabúðir í Bretlandi í síðari heimsstyrjöldinni en kom aftur eftir stríð og bjó hér til æviloka.

Carl Boromeus Josef August Billich fæddist í Vín 1911 og framan af var fátt sem benti til að hann yrði tónlistarmaður, hann lærði á píanó sem barn og hafði lítinn áhuga á því fyrr en á unglingsárum, hann nam einnig nótnaprentun sem var sér iðngrein ef ske kynni að tónlistarflutningurinn einn og sér dygði ekki til að framfleyta honum. Á kreppuárunum var lítið að gera hjá Carli bæði við tónlistina og prentið og þegar honum bauðst ásamt æskuvini sínum Josef Felzmann fiðluleikara og Felix Czerny sellóleikara árið 1933 að fara til Íslands sem „Vínartríó“ til að leika á Hótel Íslandi (sem stóð þar sem Ingólfstorg er í dag), gripu þeir tækifærið og komu hingað til lands um haustið, þá var Carl aðeins tuttugu og tveggja ára gamall.

Segja má að þeir félagar hafi með komu sinni hingað til lands flutt hingað evrópska menningu í formi Vínarvalsa o.fl. en tríó þeirra varð í raun fyrsta kaffihúsahljómsveit sem starfaði hérlendis, þeir léku bæði háklassík og léttari tónlist en Carl þótti jafnvígur á báða bóga. Tríóið hafði einungis verið ráðið hingað til átta mánaða í byrjun en svo vel líkaði þeim hér að þeir voru hér í þrjú ár og eftir sumarfrí 1936 í Kaupmannahöfn komu þeir Felzmann hingað aftur en Czerny sneri til annarra starfa, þá var orðið lítt fýsilegt að fara aftur til Austurríkis en nasisminn var þá óðum að ryðja sér til rúms í Evrópu.

Um þetta leyti hóf hann að starfa víðar en á Hótel Íslandi, hann hóf að starfa með MA-kvartettnum og K.I.B.S. kvartettnum við að útsetja söng auk þess að leika eitthvað með öðrum sveitum, t.d. var hann um skeið með Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar auk þess að stofna eigin sveit en á þessum fyrstu árum sínum hér störfuðu þeir útlendingar eins og þeir félagar í hálfgerðri óþökk FÍH sem taldi þá taka vinnu frá Íslendingunum. Hann kynntist verðandi eiginkonu sinni og þau giftust árið 1939 við upphaf heimsstyrjaldarinnar.

Vorið 1940 hernámu Bretar Ísland og um sumarið var Carl handtekinn eins og flestir Þjóðverjar og Austurríkismenn hér á landi, og fluttur í fangabúðir í Bretlandi. Þar átti hann eftir að dúsa næstu fjögur árin en þegar Bretar og Þjóðverjar gerðu með sér fangaskiptasamning var hann fluttur til Austurríkis. Heimsstyrjöldinni lauk 1945 og að henni lokinni tók nokkur ár að koma samskiptum og samgöngum í samt lag aftur, t.d. var honum ekki leyfilegt að vera í bréfaskriftum við eiginkonu sína (hann hafði þó mátt það í Bretlandi) þannig að þau voru lítið í sambandi í um þriggja ára skeið nema eftir krókaleiðum. Svo fór að kona hans (Þuríður Jónsdóttir) fór sjálf til Austurríkis undir yfirskyni þess að hún væri að fara á heildsölusýningu og þannig gat hún fengið þau skjöl og leyfi sem þyrfti til að hann gæti komið aftur heim til Íslands, það var árið 1947.

Carl ásamt eiginkonu sinni Þuríði Jónsdóttur

Eftir að hann kom aftur til Íslands sótti hann fljótlega um íslenskan ríkisborgararétt sem hann síðan hlaut og var eftir það íslenskur ríkisborgari, hann þurfti þó ekki að taka upp íslenskt nafn en reglur þ.a.l. komu til sögunnar stuttu síðar. Carl hafði aðeins fengist við tónlistariðkun í fangabúðunum, fangarnir stofnuðu m.a. hljómsveit og fluttu óperu þannig að hann var ekki alveg kominn úr æfingu í tónlistarflutningi. Hann hóf fljótlega eftir endurkomuna til Íslands að leika með Hljómsveit Björns R. Einarssonar en síðan stofnaði hann eigin sveit sem lék m.a. á Hótel Borg, þegar hann hætti á Borginni færði hann sig yfir á veitingastaðinn Naustið þar sem hann stofnaði sveit (sem gjarnan gekk undir nafninu Naust-tríóið) en sú sveit starfaði í sextán ár en einnig lék hann dinnertónlist á Naustinu.

Hljómsveitir Carls léku inn á fjölda platna sem komu út á sjötta áratugnum og sjálfur var hann eftirsóttur í slík verkefni, plötur með Alfreð Clausen, Ingibjörgu Þorbergs, Sigurði Ólafssyni, Jakobi Hafstein, Öddu Örnólfs og Ólafi Briem, Maríu Markan og Sigurveigu Hjaltested voru meðal þeirra sem hljómsveit hans og hann sjálfur léku á, og mörg laganna nutu vinsælda á þeim tíma.

Carl var nú orðinn all þekktur fyrir störf sín, hann hafði æft og gert útsetningar fyrir hinn vinsæla MA-kvartett fyrir stríð og nú bættust í hópinn sams konar verkefni (og einnig stundum undirleikur) fyrir Leikbræður, Smárakvartettinn og Kling klang kvintettinn og segja má að hann hafi á sinn hátt mótað slíkan kvartettsöng hér á landi með útsetningum sínum, síðan þá hafa söngkvartettar eins og Álftagerðisbræður og Vallagerðisbræður haldið þeirri hefð á lofti, og jafnframt notað útsetningar Carls. Félagar úr Leikbræðrum sáu um að koma mörgum þessara útsetninga á prent eftir andlát Carls undir titlinum Söngvasafnið Söngbræðralög. Þess má geta í þessu samhengi að Þorkell Helgi Sigfússon ritaði BA-ritgerð sína við LHÍ 2013 um þetta starf Carls undir titlinum Carl Billich og áhrif hans á íslenska karlakvartetta.

Carl Billich var ráðinn til Þjóðleikhússins og þar gegndi hann margvíslegum hlutverkum og verkefnum, fyrsta verk hans þar var tónlistarstjórn í Kardemommubænum árið 1959 og sú tónlist kom síðan út á plötu sem og tónlistin úr sama leikriti síðar hjá SG-hljómplötum, og úr Dýrunum í Hálsaskógi sem eru fyrir löngu orðin sígild. Og fjölmargar plötur áttu eftir að koma út tengt leikhúsinu og leikritum þar sem hann kom við sögu næstu árin og áratugina ýmist sem undirleikari eða hljómsveitar- og tónlistarstjóri, s.s. Litla Ljót, Deleríum búbónis, Gegnum holt og hæðir og Ferðin til Limbó. Alls kom hann að um fjörutíu slíkum leikritum, óperum og söngleikjum í Þjóðleikhúsinu, í fleiri hundruð sýningum. Carl var reyndar ekki fastráðinn til Þjóðleikhússins fyrr en 1964 og þar starfaði hann til 1981 sem kór- og hljómsveitarstjóri, hann annaðist þar t.d. undirleik á æfingum fyrir óperusýningar, stjórnaði Þjóðleikhúskórnum ásamt því að leika undir með honum á tónleikum og plötum, og skrifaði útsetningar fyrir óperur og leiksýningar. Carl starfaði um tíma einnig við Ríkisútvarpið, gegndi þar svipuðu hlutverkum og í Þjóðleikhúsinu við að stjórna hljómsveitum og kórum auk þess að útsetja, þá annaðist hann einnig dagskrárgerð um tíma hjá stofnuninni.

Carl Billich við píanóið

Carl var lengi undirleikari hjá Karlakórnum Fóstbræðrum (í um tuttugu ár) og starfaði reyndar mikið sem undirleikari, hann starfaði t.d. með Elsu Sigfúss, Gitte Pyskov, Mariu Lagarde o.fl. við tónleikahald þegar þær komu hingað til lands, og lék þá jafnvel með þeim á plötum. Hann fór líka í lengri tónleikaferðir erlendis eins og með Fóstbræðrum.

Hann stundaði píanókennslu um árabil, sinnti þá bæði einkakennslu á heimili sínu auk þess að starfa við tónlistarskóla FÍH, og meðal þekktra píanónemenda hans má nefna Carl Möller, Gunnar Björnsson og Jakob Frímann Magnússon. Sjálfur samdi hann tónlist og liggja eftir hann nokkur lög á plötum, þekktast þeirra er líklega lagið Óli lokbrá.

Sem undirleikari (og session-spilari) lék hann inn á fjölda annarra platna á sjöunda og áttunda áratugnum og jafnvel lengur, nefna má t.d. plötur með Barnakór Hlíðaskóla, Keflavíkurkvartettnum, Magnúsi Guðmundssyni & Ásgeiri Hallssyni, Gísla Rúnari Jónssyni, Guðmundu Elíasdóttur og Vilhjálmi Vilhjálmssyni svo nokkur dæmi séu hér nefnd.

Carl var heiðraður með ýmsum hætti fyrir störf sín hér á landi, hann hlaut t.a.m. fálkaorðuna og var einnig heiðraður af Þjóðleikhúsnu fyrir framlag sitt til söngleikja- og óperuflutnings. Hann fékk einnig „Das goldens Ehrenzeichen“ sem er austurrískt heiðursmerki, auk finnskrar orðu fyrir tónlistarframlag sitt. Fyrr er nefnd hér að ofan BA-ritgerð um störf hans en einnig kom út viðtalsbók e. Sigurð Pálsson, Norður í svalann (1982) þar sem hann var einn viðmælenda af erlendu bergi brotnir sem hingað höfðu flust.

Carl Billich lést haustið 1989, sjötíu og átta ára gamall.