Grafík (1981-)

Grafík 1982

Hljómsveitin Grafík frá Ísafirði er líklega þekktasta hljómsveit Vestfjarða en sveitin gaf út fimm ólíkar plötur sem allar fengu prýðilega dóma, hún ól jafnframt af sér tvo af þekktustu söngvurum íslenskrar poppsögu og tveir meðlimir hennar í viðbót hafa sent frá sér fjölda sólóplatna.

Stofnun sveitarinnar átti sér nokkurn aðdraganda en flestir meðlimir hennar höfðu spilað saman í sveitum eins og Ýr og Danshljómsveit Vestfjarða nokkrum árum fyrr. Ísfirðingarnir Rafn Jónsson trommuleikari, Örn Jónsson bassaleikari, Vilberg Viggósson hljómborðsleikari og Rúnar Þórisson gítarleikari (sem reyndar var Hafnfirðingur en tengdasonur Ísafjarðar) höfðu byrjað að vinna frumsamið efni um jólin 1980 uppi á lofti í félagsheimili Hnífsdælinga en Rafn sem bjó í Svíþjóð á þeim tíma og var í jólaleyfi á heimaslóðum, átti átta rása TEAC upptökutæki sem þeir félagar notuðu við upptökurnar, þess má geta að um var að ræða sömu græjur og Þursaflokkurinn hafði notað við upptökur á plötunni Þursaflokkurinn á hljómleikum. Það var svo um vorið 1981 þegar Rafn var alkominn heim frá Svíþjóð að þeir héldu áfram þar sem frá var horfið við upptökurnar og miðast stofnun sveitarinnar við það en þá fékk hún nafn sitt, Grafík. Ólafur Guðmundsson söngvari gekk til liðs við þá félaga en hann hafði þá verið söngvari í hljómsveit Baldurs Geirmundssonar, BG-flokknum á Ísafirði.

Grafík og Ómar Óskarsson

Fimmenningarnir sáu að þeir höfðu prýðisgott efni í höndum sem mestmegnis var samið af Rúnari, eins konar nýbylgjurokk í anda The Cure, Comsat angels o.fl. en fáar eða engar hljómsveitir voru á þeirri línu hérlendis. Þeir ákváðu að gefa efnið sjálfir út undir eigin útgáfumerki, Graf, og kom platan út um haustið og vakti mikla athygli fyrir gott sánd og það að sveitin skyldi sjálf annast alla þætti útgáfunnar, upptökur, umslagshönnun, útgáfu og dreifingu. Platan sem var átta laga hlaut titilinn Út í kuldann eftir einu laganna, hún fékk ágæta dóma í Þjóðviljanum og Poppbók Jens Guð og þokkalega í Dagblaðinu og seldist upplagið, um tólf hundruð eintök upp. Hluti upplagsins fór reyndar í dreifingu til Bandaríkjanna og Skandinavíu en dómur, afar jákvæður mun hafa birst um plötuna vestanhafs. Lagið Videó fékk töluverða athygli hér heima og skapaði sveitinni nokkrar vinsældir en á þeim tíma var ennþá aðeins ein útvarpsrás í landinu og því ekki um mikla útvarpsspilun að ræða af hálfu hennar, fréttir bárust af því að lagið hefði verið eitthvað spilað í útvarpi í Svíþjóð. Reyndar var Grafík ekki starfandi um það leyti sem platan kom út þar sem meðlimir sveitarinnar voru tvístraðir annars vegar fyrir vestan, hins vegar á höfuðborgarsvæðinu í námi. Félagarnir komu þó saman um jólin 1981 og léku þá á dansleikjum fyrir vestan en sveitin gerði út frá Ísafirði lengi vel.

Reyndar má segja að Grafík hafi ekki farið almennilega af stað eftir útgáfu fyrstu plötunnar fyrr en í júní 1982, þá hafði Ólafur söngvari sagt skilið við sveitina. Sveitin lék nokkuð á dansleikjum um sumarið og hélt síðan tónleika síðsumars, einnig á höfuðborgarsvæðinu. Um það leyti höfðu þeir Grafíkur-liðar stofnað félag utan um reksturinn og fjárfest í sextán rása stúdíómixer, og í kjölfarið byrjað að vinna nýja plötu en hún var hljóðrituð í heimahúsi á Ísafirði.

Grafík

Ekkert spurðist til sveitarinnar fyrr en um vorið 1983, þá höfðu þær breytingar orðið á sveitinni að nýr söngvari var genginn til liðs við hana, Ómar Óskarsson (Ramó) en hann hafði áður verið í hljómsveitum eins og Fresh og Pelican. Ómar staldraði ekki lengi við í Grafík en söng fáein lög á nýju plötunni sem nú kom út undir nafninu Sýn. Þessi plata þótti öllu tormeltari en fyrri platan, þótti allt að því framúrstefnuleg og var um helmingur laga hennar instrumental, Sýn fékk þó ágæta dóma í tímaritinu Samúel, Poppbók Jens Guð, DV og Morgunblaðinu og þokkalega í Helgarpóstinum og Þjóðviljanum. Hins vegar seldist hún afar illa, líklega í aðeins þrjú hundruð eintökum. Sveitin hélt útgáfutónleika á Hótel Borg og nú voru allir meðlimir hennar komnir suður á höfuðborgarsvæðið og ekkert því til fyrirstöðu að sveitin starfaði á ársgrundvelli. Fleiri breytingar á skipan hennar voru þó framundan, fyrir lá að Vilberg hljómborðsleikari myndi hætta í sveitinni þar sem hann var á leið í klassískt píanónám en einnig bættist nýr söngvari í hópinn og það átti eftir að breyta miklu fyrir sveitina enda hafði söngurinn þótt helsti gallinn í plötuumsögnunum. Nýi söngvarinn hét Helgi Björnsson, Ísfirðingur eins og hinir og hafði þá um vorið útskrifast sem leikari og var að skapa sér nafn í leiklistinni, hann hafði þá til að mynda leikið í kvikmyndinni Atómstöðinni, sveitin hafði þá að geyma auk Helga þá Rúnar, Rafn og Örn. Grafík lét fara lítið fyrir sér á meðan þeir félagar unnu að nýju efni en spilaði eitthvað fyrir vestan síðsumars 1983, þeir höfðu hug á að senda frá sér sex laga plötu fyrir jólin en af því varð ekki og þeir biðu með útgáfu næstu plötu fram á næsta ár, sem var líklega skynsamleg ákvörðun. Helgi kom í fyrsta sinn fram með sveitinni á höfuðborgarsvæðinu í desember þegar þeir léku í Safarí og þótti blaðamönnum þá strax kveða við nýjan tón hjá sveitinni og einkum var sviðsframkoma nýja söngvarans rómuð en hingað til hafði sveitin þótt fremur róleg og stíf á sviði og m.a.s. hafði Ómar fyrri söngvari sveitarinnar jafnvel staðið í skugga á sviðinu, svo feiminn hafði hann verið.

Segja má að með tilkomu Helga í Grafík hafði hún orðið það sem hún þurfti til vinsælda hvað tónlistina sjálfa áhrærði en einnig má segja að sveitina hafi skort samböndin fram að þessu enda höfðu þeir sjálfir annast öll útgáfu- og dreifingarmál. Sveitin hélt áfram vinnu sinni við plötuna sem þeir ráðgerðu að gefa út síðar um árið 1984 og tóku þeir upp þá nýbreytni að þeir sömdu efnið í sameiningu en auk þess kom Helgi nokkuð sterkur inn sem textahöfundur. Það var þó ekki texti Helga sem virtist ætla að verða smellur þeirra félaga heldur var það Vilborg Halldórsdóttir kærasta Helga sem samdi texta sem þeir félagar spunnu lag við í æfingahúsnæði sveitarinnar við Höfðatún. Þegar sveitin prufukeyrði lagið á dansleik í Sjallanum á Ísafirði (þar sem þeir léku sem húshljómsveit um sex vikna skeið um sumarið 1984) sló það í gegn og ljóst þótti að það yrði að vera á plötunni. Lagið hét Húsið og ég (Mér finnst rigningin góð) og fjallaði um „græna húsið“ á Ísafirði sem þau Helgi og Vilborg höfðu leigt og búið í veturinn 1977-78, og reyndar höfðu tengdaforeldrar Rúnars einnig búið þar um skeið. Húsið hafði lengi á árum áður hýst hippa og gekk því stundum undir nafninu „Græna byltingin“, það var síðar rifið. Sveitin spilaði nokkuð fyrir vestan um sumarið samhliða því sem þeir sömdu efni á plötuna en að mörgu leyti var þetta erfitt þar sem Helgi var stöðugt á ferðinni milli Ísafjarðar og Reykjavíkur vegna starfa sinna í leiklistinni. Hjörtur Howser hljómborðsleikari lék með þeim í upptökunum og átti hann síðar eftir að starfa mikið með sveitinni þótt ekki yrði hann fullgildur meðlimur strax. Platan var síðan tekin upp í Hljóðrita við bestu aðstæður og þar með má segja að Grafík hafi lagt upptökugræjunum sínum. Tónlistin var nú orðin töluvert aðgengilegri og poppaðri þótt sveitin héldi sínum nýbylgjueinkennum t.d. í gítar og trommum. Síðasta lagið sem þeir tóku upp varð síðan til í hljóðverinu en það varð upphafslag skífunnar og hét Þúsund sinnum segðu já. En Grafík stóð í fleiri upptökum en fyrir plötuna, það var fyrir útvarpsleikritið Betlaraóperuna eftir Hrafn Gunnlaugsson en þær upptökur drógust á langinn og tóku mun meiri tíma en ætlað var. Reyndar töfðust upptökurnar það lengi að frumflutningur frestaðist fram á árið 1985 en þá var um að ræða tímamótaverk því um var að ræða fyrsta útvarpsleikritið hér á landi flutt í stereo.

Húsið og ég

Platan, Get ég tekið cjéns kom loks út í desember 1984 og hlaut strax frábærar viðtökur. Hún var gefin út af útgáfufyrirtækinu GRAF eins og fyrri plöturnar en líklega var reynsluleysi þeirra til þess að platan fékk ekki eins góða dreifingu og hún hefði ella fengið, miðað við vinsældirnar hefði hún átt að seljast í stórum upplögum en af því varð ekki, upplagið var líklega ekki nema um þrjú þúsund eintök og þegar það var uppselt voru ekki gerð fleiri og því er platan nokkuð sjaldséð á vinylforminu, hún var þó gefin út á geislaplötu árið 1988 af útgáfufyrirtækinu Takti (og endurútgefin af R&R músík 2004). En áðurnefnt Húsið og ég (Mér finnst rigningin góð), Þúsund sinnum segðu já og 16 nutu öll feikimikilla vinsælda, reyndar var það þannig að öll lögin þrjú voru samtímis á topp tuttugu vinsældalista Rásar 2 en einnig fékk titilllagið Get ég tekið cjéns heilmikla spilun. Hin lögin þrjú hafa hins vegar öll lifað góðu lífi til dagsins í dag og hafa verið á dansleikja- og tónleikaprógrammi SSSól (og fleiri sveita) síðan. Platan hlaut jafnframt frábæra dóma í Helgarpóstinum og Morgunblaðinu, og ágæta í Þjóðviljanum, og var á meðal platna ársins að mati flestra sem rituðu um tónlist á þeim tíma. Þess má geta að sveitin komst í fréttir tengt myndatökum á plötuumslaginu en þær fóru fram um miðja nótt á umferðargötu, ökumaður sjúkrabíls sem átti leið hjá tilkynnti til lögreglu að menn á svæðinu (meðlimir sveitarinnar) hefðu falast eftir sjúklingi bílsins í myndatökurnar, lögreglan kom því á svæðið og stöðvaði þær.

Grafík fylgdi velgengni plötunnar heilmikið eftir með spilamennsku í formi dansleikja og tónleika, þær breytingar urðu um áramótin 1984-85 að Örn bassaleikari yfirgaf sveitina og framan af ári lék Haraldur Þorsteinsson með sveitinni í hans stað, Styrmir Sigurðsson hljómborðsleikari lék einnig með henni sem og á stundum Einar Bragi Bragason saxófónleikari og Abdou Dhour ásláttarleikari. Helgi þótti sérlega líflegur sviðsmaður og reynsla hans og menntun úr leikhúsinu skilaði sér vel til áhorfenda, einkum þar sem hann (og sveitin öll) var stundum máluð í anda nýrómantíkurinnar á sviðinu en sveitin hafði fram að því þótt fremur líflaus á sviði eins og nefnt er hér að framan. Þar sem sveitin var nú orðin ein af vinsælustu hljómsveitum landsins fóru þeir félagar sem fulltrúar Íslands á Norrokk ´85, norræna rokktónlistarhátíð í Kaupmannahöfn um sumarið og svo í hringferð um Ísland í kjölfarið á því. Þeir Rafn, Rúnar, Helgi og Jakob Magnússon bassaleikari sem þá hafði tekið við af Haraldi, skipuðu sveitina og svo bættist Vilberg fyrrum hljómborðsleikari í hópinn í ágúst en hann spilaði stundum með þeim á sumrin. Sveitin lék einnig á stórtónleikum í Laugardalshöllinni á 17. júní og var gerður sjónvarpsþáttur um þá tónleika og sýndur í Ríkissjónvarpinu um haustið.

Grafík 1985

Hjörtur Howser hljómborðsleikari hafði spilað með sveitinni í Kaupmannahafnarferðinni en hann var líka með í upptökum á nýrri plötu sem Grafík hafði byrjað að vinna að um vorið, Grafík var á þeim tíma í raun bara tríó þeirra Rúnars, Rafns og Helga og voru þeir Hjörtur, Styrmir, Haraldur og Jakob aðeins gestaspilarar með sveitinni í upptökunum, og á sviði. Platan kom síðan út í október 1985 undir nafninu Stansað, dansað, öskrað en að þessu sinni var utanaðkomandi aðili, útgáfu- og upptökufyrirtækið Mjöt sem stóð að útgáfunni. Platan var átta laga og þótt hún nyti ekki alveg jafn mikilla vinsælda og Get ég tekið cjéns, voru lög eins og Já, ég get það, Himnalag og Tangó mjög vinsæl og fengu ágæta spilun í útvarpi. Gert var myndband við síðast nefnda lagið og hlaut það síðar verðlaun á samnorrænni myndbandaverðlaunahátíð í Svíþjóð. Nýja platan hlaut jafnframt frábæra dóma í tímaritinu Smelli, ágæta í NT, Helgarpóstinum og DV, og þokkalega í Morgunblaðinu. Þarna höfðu reyndar einnig verið uppi plön um að gefa út tveggja laga smáskífu í Bretlandi en ekki liggur fyrir hvað kom í veg fyrir það.

Grafík spilaði mikið um veturinn 1985-86 og fylgdi því vinsældum platnanna tveggja eftir en einnig kom sveitin fram í sjónvarpþættinum Rokkarnir geta ekki þagnað sem naut vinsælda um þær mundir, þegar leið á vorið fór Grafík hins vegar í pásu en þá voru nokkrar hræringar í henni. Þeir Rúnar og Rafn voru einir eftir af upprunalegu útgáfu sveitarinnar og voru ekki alveg sáttir við hvernig tónlistin og sveitin hafði þróast þrátt fyrir auknar vinsældir hennar, en tónlistin var nú orðin öllu poppaðri og léttari en hún hafði verið upphaflega, þá þótti þeim söngvarinn Helgi orðinn helst til fyrirferðamikill og svo fór að söngvarinn hætti þarna um vorið, hvort sem það var vegna þess að hann var rekinn eða hætti sjálfur, Jakob bassaleikari hætti um svipað leyti en tvímenningarnir Helgi og Jakob áttu síðar eftir að poppa upp í Síðan skein sól (síðar SSSól) sem stofnuð var tæplega ári síðar, og átti eftir að verða ein stærsta ballsveit Íslandssögunnar. Grafík stóð því uppi söngvaralaus um tíma og prófaði sig áfram með nokkra slíka næstu mánuðina, það var þó ekki svo að sveitin hætti alveg um tíma, hún lék t.d. á stórtónleikum í Laugardalshöll um miðjan júní ásamt nokkrum stórum erlendum böndum s.s. Madness, Fine young cannibals, Simply Red og Lloyd Cole and the Commotions, og nokkrum íslenskum einnig, þar lék sveitin einnig undir söng Bjarna Tryggvasonar en þeir félagar höfðu einmitt verið meðal hljóðfæraleikara á nýútgefinni plötu hans. Síðsumars lék Grafík á Hótel Borg og kynnti þar nýtt efni sem fyrirhugað var að yrði á næstu plötu sveitarinnar svo ljóst var að hún var síður en svo að hætta störfum, hins vegar var Rafn trommari (og Haraldur bassaleikari) kominn á fullt með Bítlavinafélaginu sem þarna hafði eiginlega óvart farið af stað um vorið, og því kann það að hafa haft áhrif á hversu lítið sveitin lék um sumarið, Grafík lék þó á tveimur dansleikjum á heimaslóðum fyrir vestan og þá lék Vilberg hljómborðsleikari með þeim. Heimildir herma einnig að sveitin hafi farið í stutta tónleikaferð um Norðurlöndin um haustið en fátt liggur fyrir um þá ferð.

Andrea Gylfa komin til sögunnar

Sem fyrr segir prófuðu Grafíkur-liðar nokkra nýja söngvara næstu mánuðina, ekki liggja fyrir upplýsingar um þá alla en meðal þeirra sem heimildir nefna eru Jóhannes Eiðsson og Aðalheiður Borgþórsdóttir (Alla Borgþórs). Það var hins vegar þáverandi dagskrárgerðarmaður, Kolbrún Halldórsdóttir sem benti þeim félögum á óþekkta en efnilega söngkonu, Andreu Gylfadóttur frá Akranesi en hún var þá að ljúka söngnámi en hafði einnig lagt stund á sellóleik. Andrea féll strax inn í hópinn og í desember 1986 kom Grafík fram í fyrsta skiptið með hana sem söngkonu á tónleikum í Tónabæ, og þá þreytti einnig frumraun sína með bandinu bassaleikarinn Baldvin Sigurðsson sem þá hafði m.a. spilað með Bara-flokknum frá Akureyri. Andrea vakti strax mikla athygli fyrir söng sinn og þótti lyfta sveitinni enn frekar með kraftmiklum og óperuskotnum söngstíl sínum.

Árið 1987 gekk í garð og Grafík hóf að vinna að næstu plötu en hún var unnin í Hljóðrita í Hafnarfirði og var sú fyrsta sem var unnin hérlendis með digital-tækni. Samhliða því spilaði sveitin heilmikið á tónleikum næstu mánuðina og var þá að leika mikið af nýju efni enda passaði sumt af því sem Helgi hafði sungið með sveitinni illa með Andreu við míkrafóninn. Þess má geta að sveitin lék m.a. á tónleikum við Útvarpshúsið um sumarið en ísraelski dúettinn Datner og Kushnir (sem hafði slegið í gegn með laginu Shir ha´batlanim (Hoopa hoole) í Eurovision um vorið) tók lagið með sveitinni. Platan var tilbúin til útgáfu um vorið en ákveðið var að bíða til haustsins enda voru um þetta leyti margar plötur að koma út með svokölluðu gleðipoppi sem vitað var að myndi njóta vinsælda. Grafík hafði því fremur hægt um sig um sumarið en platan kom loks út um haustið eins og ráðgert var og fékk titilinn Leyndarmál en hafði á vinnslustiginu gengið undir nöfnum einsog Á steinsteyptum skóm og Komdu og kysstu mig. Það voru Steinar sem gáfu plötuna út og það var í fyrsta skipti sem stórt útgáfufyrirtæki kom að útgáfu plötu með sveitinni. Eins og títt var á þessum tíma kom Leyndarmál út á vínylplötu-, kassettu- og geisladiskaformi en hún var níu laga og lög eins og Presley, Prinsessan og Kysstu mig náðu öll vinsældum, Leyndarmál hlaut aukinheldur frábæra dóma í Morgunblaðinu og DV en hún seldist miklu betur heldur en fyrri plötur sveitarinnar höfðu gert, í um átta þúsund eintökum en því má sjálfsagt aðallega þakka öflugu dreifingakerfi Steina.

Grafík 1987

Um svipað leyti og platan kom út spilaði Grafík ásamt bandarísku sveitinni Cock Robin sem hélt tónleika í Reiðhöllinni en fljótlega eftir áramótin 1987-88 fór sveitin í pásu þar sem menn voru önnum kafnir í öðrum verkefnum, s.s. Rafn með Bítlavinafélaginu og síðan Sálinni hans Jóns míns og Rúnar hugði þá á klassískt gítarnám, Andrea poppaði hins vegar upp í tríóinu Todmobile og sló endanlega í gegn með þeirria sveit og óhikað má því halda því fram að Grafík hafi alið af sér tvö af stærstu nöfnum íslenskrar poppsögu en Helgi Björnsson var þá sömuleiðis einnig að slá í gegn með Síðan skein sól (SSSól). Bæði Rafn og Rúnar áttu þá eftir að senda frá sér sólóplötur sem og Andrea og Helgi en öll fjögur hljóta að teljast stór nöfn í tónlistarsögunni á Íslandi.

Segja má að frá og með áramótunum 1987-88 hafi Grafík hætt að starfa samfleytt, sveitin var þó alls ekki hætt en spilaði mjög lítið næstu árin, eitthvað lítillega um sumarið 1988 en svo ekkert fyrr en um verslunaramannahelgina 1990 þegar hún var meðal sveita sem komu fram á útihátíð í Húnaveri. Ekkert liggur fyrir um hverjir skipuðu Grafík í þau skipti.

Ekkert heyrðist svo til sveitarinnar fyrr en 1992 en þá bárust þær fréttir að hún hygði á útgáfu safnplötu sem jafnframt hefði að geyma fjögur ný lög sem sveitin hafði þá unnið að síðustu árin, þrjú þeirra voru sungin af Andreu en eitt af Helga en platan sem hét Sí og æ var gefin út í minningu Ólafs Guðmundssonar fyrsta söngvara sveitarinnar sem þá var látinn. Grafík gaf sjálf plötuna út sem fékk góða dóma í Vikunni og þokkalega í Pressunni. Sveitin spilaði ekkert opinberlega í tengslum við þessa útgáfu og lagðist nú í híði um langan tíma þótt aldrei væri talað um að hún væri hætt störfum.

Það var þó ekki fyrr en aldamótaárið 2000 sem þeir Rafn, Rúnar og Helgi fóru að hittast reglulega til að semja og vinna nýtt efni með sveitinni en um það leyti var Rafn orðinn veikur af MND sjúkdómnum. Grafík kom síðan saman sumarið 2004 til þess að fagna tuttugu ára afmæli Get ég tekið cjéns en sveitin var þá skipuð Rúnari gítarleikara, Hirti á hljómborð og Haraldi á bassa en sonur Rafn, Egill Rafnsson tók sæti föður síns á trommurnar, Helgi og Andrea sungu. Rafn lést af veikindum sínum um sama leyti og urðu afmælistónleikarnir að minningartónleikum um hann en þeir voru bæði haldnir á Ísafirði og í Reykjavík. Annar sonur Rafns, Ragnar Zolberg kom fram einnig á tónleikunum sem voru fjölsóttir.

Grafík 2018

Nú leið skemmra milli þess sem sveitin kom fram ár og birtist Grafík aftur vorið 2005 með dansleik á NASA við Austurvöll en þá hafði sveitin ekki leikið á balli síðan um áramótin 1987-88, sveitin lék nokkuð í kjölfarið um sumarið og m.a. á Þjóðhátíð í Eyjum og á Ísafirði en einnig kom hún fram á heiðurstónleikum fyrir Hörð Torfa en þeir tónleikar voru síðar gefnir út á plötu. Sveitin starfaði eitthvað framan af ári 2006 en síðan liðu þrjú ár uns hún birtist aftur, frá og með 2009 hefur Grafík hins vegar komið nokkuð reglulega fram, nánast árlega en Egill hefur þá verið trommuleikari hennar, m.a. hefur sveitin komið fram á Menningarnótt í Reykjavík og Aldrei fór ég suður fyrir vestan.

Árið 2011 var gefin út þreföld plata með Grafík, hún hafði annars vegar að geyma tvöfalda safnplötu með þrjátíu lögum, þar af tveimur nýjum (Beljur-geimverur / Bláir fuglar, sem bæði urðu nokkuð vinsæl) og hins vegar dvd-disk með heimildamyndinni Stansað, dansað, öskrað sem að nokkru leyti var gerð í kringum tónleikana sumarið 2004. Myndin var frumsýnd á Ísafirði en platan sem hét einfaldlega 1981-2011, fékk frábæra dóma í Fréttablaðinu og ágæta í Fréttatímanum, hún var gefin út af Senu.

Eins og gefur að skilja hafa fjölmörg laga Grafíkur komið út á safnplötum í gegnum tíðina, og þá einnig safnplötum tengdum Helga Björns og Andreu Gylfa enda er hljómsveitin hluti af farsælum ferli þeirra beggja. Aðrir hafa ennfremur tekið lög Grafíkur og gert að sínum, hér má nefna Himnalagið sem hljómsveitin Urmull frá Ísafirði sendi frá sér og Þúsund sinnum segðu já með Togga og Ourlives, og auðvitað hafa þau Helgi og Andrea flutt lög sveitarinnar á sólótónleikum sínum einnig.

Efni á plötum