Hljómsveit Árna Ísleifssonar (1945-97)

Hljómsveit Árna Ísleifssonar

Það sem hér er kallað Hljómsveit Árna Ísleifssonar (Hljómsveit Árna Ísleifs) er í raun fjölmargar og ólíkar hljómsveitir sem starfræktar voru með mismunandi mannskap og á mismunandi tímum í nafni Árna, saga þeirra spannar tímabil sem nær yfir ríflega hálfa öld.

Fyrsta sveit Árna virðist hafa verið stofnuð árið 1945 en hún starfaði á Hótel Birninum í Hafnarfirði á árunum 1945 til 49 en einnig víðar s.s. í Tjarnarlundi, samkomuhúsi við Kirkjustræti sem brann árið 1947 fáeinum mánuðum eftir að það var reist, og í Mjólkurstöðinni við Laugaveg. Meðlimir þessarar sveitar framan af voru auk Árna sem lék á píanó þeir Björn Guðjónsson trompetleikari, Helgi Ingimundarson alt saxófónleikari og Þorsteinn Eiríksson (Steini krúpa) trommuleikari. Síðar voru þeir Árni og Þorsteinn trymbill í sveitinni ásamt Jóni Sigurðssyni bassaleikara, Pétri Jónssyni tenór saxófónleikara og Þorkeli Jóhannessyni trompetleikara.  Ekki er getið um söngvara í sveitinni nema að fyrir liggur að Haukur Morthens og Hjördís Ström sungu með henni í Mjólkurstöðinni.

Næsta hljómsveit Árna Ísleifs var starfrækt í Vestmannaeyjum um fjögurra mánaða skeið á fyrri hluta ársins 1951 en þangað var hann fenginn um að koma til að sjá um tónlistarflutning í Sjálfstæðishúsinu, sem þá stóð í samkeppni við Alþýðuhúsið í Eyjum um hylli samkomugesta en mikil djassvakning var í Vestmannaeyjum um þetta leyti. Með Árna í þessari hljómsveit voru Guðni S. Guðnason harmonikkuleikari og Bragi Einarsson klarinettu- og saxófónleikari sem komu með Árna úr Reykjavík en einnig tveir Vestmannaeyingar, Páll Steingrímsson gítarleikari og Sigurður Þórarinsson trommuleikari. Þessi sveit hætti störfum um vorið.

Hljómsveit Árna Ísleifssonar 1955

Þriðja sveit Árna Ísleifs er sú langlífasta og þekktasta af þeim öllum en hún starfaði víða á skemmtistöðum borgarinnar á árunum 1953 til 1961. Þessi hljómsveit Árna kom fram á sjónarsviðið síðla sumars 1953 þar sem hún lék í Gúttó (Góðtemplarahúsinu) við Tjörnina. Ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina þarna í upphafi eða hversu stór hún var en vorið 1954 þegar hún hafði verið ráðin sem húshljómsveit á Röðli (gamla) var hún fimm manna með söngvara, Árni Ísleifs á píanó og víbrafón, Kristján Hjálmarsson klarinettu- og alt saxófónleikari, Bragi Hlíðberg harmonikkuleikari og Ragnar Bjarnason trommuleikari. Fjölmargir söngvarar komu fram með hljómsveitinni á Röðli og hér má nefna Hauk Morthens, Sigrúnu Jónsdóttur og Ingibjörgu Þorbergs en einnig voru erlendir skemmtikraftar fluttir til landsins gagngert til að skemmta á skemmtistaðnun og annaðist hljómsveit Árna þá undirleik hjá þeim. Þegar Ragnar þreytti frumraun sína sem söngvari með þessari sveit og hóf að syngja með henni var annar trommuleikari fenginn í það hlutverk en ekki liggur fyrir hver það var. Ein tveggja laga 78 snúninga plata kom út með Ragnari og Sigrúnu árið 1955 þar sem hljómsveit Árna lék undir, jafnframt komu út plötur með söngkonunum Ingibjörgu Smith og Steinunni Bjarnadóttur (Steinku Bjarna) sem sungu við undirleik sveitarinnar.

Í febrúar 1955 færði hljómsveit Árna Ísleifs sig yfir í Þjóðleikhúskjallarann og þar lék hún um tíma og einnig í Breiðfirðingabúð síðar en sveitin varð e.t.v. upp frá því þekktust fyrir að leika undir söng ungra og efnilegra söngvara á skemmtunum í Austurbæjarbíói en slíkar uppákomur nutu mikilla vinsælda um og eftir miðjan sjötta áratuginn þegar rokkið var að hefja innreið sína hérlendis sem annars staðar. Í tengslum við slíkar skemmtanir komu svo út fjórar smáskífur (45 snúninga) árið 1959 og 60 á vegum Stjörnuhljómplatna Tage Ammendrup, sem höfðu að geyma söng nokkurra krakka og unglinga sem með réttu mætti kalla barnastjörnur þess tíma en sveit Árna lék undir söng þeirra. Þarna voru á ferð SAS tríóið svokallaða sem m.a. hafði að geyma hinn 17 ára gamla Stefán Jónsson (síðar kenndan við Lúdó sextett), Gerður Benediktsdóttir sem söng Æ, ó aumingja ég, og svo stöllurnar Anna Sigga (Sigríður Anna Þorgrímsdóttir) og Soffía (dóttir Árna) sem sungu stórsmellina Snjókarlinn, Komdu niður, Órabelgur og Sumar er í sveit, en Árni samdi flest laganna. Ekki liggur alveg fyrir hverjir skipuðu sveit Árna á plötunum en Rútur Hannesson harmonikkuleikari var meðal meðlima hennar um það leyti, og reyndar hafði Örvar Kristjánsson einnig eitthvað leikið með sveitinni – einnig á harmonikku, aðrir voru þó líklega Vilhjálmur Guðjónsson saxófón- og klarinettuleikari, Reynir Sigurðsson víbrafónleikari og Þorsteinn Eiríksson trommari. Enn einn harmonikkuleikarinn, Guðni S. Guðnason (sem verið hafði í Vestmannaeyjasveit Árna) tók svo við af Rúti árið 1960. Kolbrún Hjartardóttir var söngvari sveitarinnar um tíma en einnig komu söngkonur eins og Sigrún Ragnarsdóttir og Margrét Örnólfsdóttir (systir Öddu Örnólfs dægurlagasöngkonu) fram með sveitinni, og þá er vert að geta ungrar og efnilegrar söngkonu sem söng með hljómsveitinni um tíma – hún hét Sigríður Ella Magnúsdóttir og átti seinna meira eftir að verða þekkt óperusöngkona. Þessi útgáfa Árna Ísleifs starfaði fram í mars 1961 en hætti þá störfum.

Hljómsveit Árna Ísleifs 1976

Nokkur ár liðu uns næsta Hljómsveit Árna Ísleifs tók til starfa, það var árið 1975 en þá hafði Árni reyndar starfrækt dixielandhljómsveit um tíma (sem fær sér umfjöllun), þessi sveit var hins vegar hefðbundin danshljómsveit eins og fyrri sveitir Árna en hún starfaði á Hótel Borg og síðan á Hótel Sögu, fyrst í Átthagasal og svo einnig í Súlnasal. Auk Árna voru í þessari sveit Gunnar Ormslev saxófónleikari, Guðmundur Steingrímsson trommuleikari, Edwin Kaaber bassaleikari (frekar en gítarleikari) og líklega einnig Þórarinn Óskarsson básúnuleikari. Linda Walker var söngkona sveitarinnar en einnig söng systir hennar, Janis Carol eitthvað með sveitinni, þessi sveit starfaði til haustsins 1976 en þá flutti Árni austur á Egilsstaði þar sem hann bjó og starfaði sem tónlistarkennari eftir það.

Árni starfrækti hljómsveitir fyrir austan, Slagbrandur og Náttfari voru meðal þeirra en þar voru einnig sveitir í hans nafni, bæði djasssveitir sem störfuðu mestmegnis í kringum Djasshátíð Egilsstaða (frá 1988) og almenn danshljómsveit sem lék á dansleikjum eystra. Djasssveitir Árna voru eins og gengur skipaðar mismunandi mannskap hverju sinni en þær léku einnig á höfuðborgarsvæðinu stöku sinnum. Danshljómsveit Árna lék hins vegar eins og áður segir á almennum dansleikjum á Egilsstöðum og nærsveitum, og fór jafnvel til Svíþjóðar til að leika á þorrablóti – sú sveit var ásamt Árna skipuð Sigurði Péturssyni, Jóhanni Midfjörd og Garðari Harðarsyni og hafði einnig gengið undir nafninu Snekkjubandið. Ekki liggja fyrir upplýsingar um annað tónlistarfólk sem starfaði með Hljómsveit Árna Ísleifs fyrir austan en sveit í hans nafni starfaði þar líklega til 1997.

Efni á plötum