Gunnar Kristjánsson (1911-65)

Gunnar Kristjánsson

Gunnar Kristjánsson harmonikkuleikari lék á dansleikjum um árabil bæði einn og með hljómsveitum, hann starfrækti jafnframt hljómsveitir í eigin nafni við nokkrar vinsældir.

Gunnar fæddist haustið 1911 við Kolgrafarfjörð á Snæfellsnesi en fluttist svo til Grundarfjarðar þar sem hann bjó til tvítugs en þá fór hann suður til Reykjavíkur í Samvinnuskólann og starfaði síðar við verslun og heildsölu.

Hann hafði alla tíð áhuga á tónlist og hóf ungur að leika á harmonikku við ýmis tækifæri í heimabyggð á yngri árum og þegar hann kom til Reykjavíkur átti hann eftir að halda áfram spilamennsku með ýmsum hljómsveitum, bæði sem störfuðu í hans nafni s.s. G.K. tríó og Hljómsveit Gunnars Kristjánssonar, og öðrum sveitum.

Heimildir eru fyrir því að Gunnar hafi starfað með hljómsveit í Reykjavík á fjórða áratugnum, sú sveit lék fyrir dansi m.a. á skemmtun verslunarmanna á Eyði við Geldinganes í landi Gufuness en slíkar skemmtanir voru þar margsinnis haldnar yfir sumartímann á vegum sjálfstæðimanna á árunum 1936-40. Á myndinni hér að neðan má sjá hljómsveit sem lék á slíkri skemmtun en ekki finnast neinar frekari upplýsingar um hana, hér gæti þó verið um að ræða hljómsveit Péturs Bernburg sem starfrækt var um svipað leyti og lék við slík tækifæri. Frekari upplýsingar óskast um þessa sveit.

Fyrsta nafngreinda hljómsveitin sem vitað er að Gunnar starfaði með var reyndar á Siglufirði í síldarævintýrinu þar sumarið 1941, hún bar nafnið Black boys og lék á Hótel Hvanneyri þar í bænum. Í Reykjavík starfrækti Gunnar svo Hljómsveit Gunnars Kristjánssonar en sú sveit virðist hafa verið starfandi u.þ.b. á árunum 1942 til 44. Af heimildum að dæma var þessi hljómsveit allt að sex manna sveit.

Hljómsveit á Eyði við Geldinganes – Gunnar er annar frá hægri

Það mun hafa verið í Góðtemplarahúsinu við Tjörnina (líklega sumarið 1943) á samkomu prentara þar sem sveit Gunnars var að leika að Haukur Morthens tróð upp í fyrsta sinn, tvær stúlkur höfðu manað hann í að taka lagið með sveitinni en hann var ekki til í það fyrr en þær fullvissuðu hann um að hann yrði ekki einn á sviðinu, og það varð úr að Haukur söng í fyrsta sinn opinberlega á dansleik ásamt Alfreð Clausen en þeir áttu eftir að syngja töluvert saman á næstu árum. Það má því segja að hljómsveit Gunnars hafi nokkurt vægi í íslenskri tónlistarsögu.

G.K. tríó var svo önnur sveit sem Gunnar starfrækti nokkru síðar, á sjötta áratugnum – að öllum líkindum á árunum 1951-55 en sú sveit virðist einnig stundum hafa verið kölluð Hljómsveit Gunnars Kristjánssonar. Sveitir Gunnars léku bæði í samkomuhúsum Reykjavíkur en einnig töluvert vestur á Snæfellsnesi á æskuslóðum Gunnars, s.s. á Búðum, Vegamótum og Dalsmynni.

Að öðru leyti liggur ekki mikið fyrir af heimildum um Gunnar Kristjánsson harmonikkuleikara og hljómsveitir hans, og hugsanlega eiga frekari upplýsingar eftir að birtast um ævi hans og tónlistarferil. Hann vann einnig nokkuð að félagsmálum og var t.a.m. hvatamaður að stofnun Ungmennafélags Grundfirðinga og kom einnig að stofnun Átthagafélags Snæfellinga svo dæmi séu nefnd.

Gunnar varð ekki langlífur, hann lést langt fyrir aldur fram vorið 1965 á fimmtugasta og fjórða aldursári.