Hljómsveit Carls Billich (1937-40 / 1947-57)

Hljómsveit Carls Billich á Hótel Íslandi

Hljómsveitir Carls Billich voru margar en segja má að tvær þeirra hafi haft hvað lengstan starfsaldur, aðrar sveitir í hans nafni virðast flestar vera settar saman fyrir verkefni eins og tónleika og leiksýningar, jafnvel fyrir stöku plötuupptökur en hljómsveitir í nafni Carls léku inn á fjölmargar hljómplötur á sjötta áratugnum.

Austurríski píanóleikarinn Carl Billich kom hingað fyrst til lands haustið 1933 til að leika í litlu tríói ásamt löndum sínum á Hótel Íslandi, sem stóð þar sem Ingólfstorg er í dag. Aldrei stóð til að Carl yrði hér til langframa en hann ílengdist þó hér á landi enda fannst honum ekki fýsilegur kostur að fara aftur til heimkynna sinna þar sem nasisminn var að breiðast út. Það var því úr að hann starfrækti hljómsveit á Hótel Íslandi í eigin nafni og starfaði sú sveit líklega á árunum 1937 (jafnvel fyrr) til 1940 en þá um sumarið var hann handtekinn af Bretum sem höfðu hernumið landið um vorið, og var hann fluttur til Bretlands þar sem hann var fangi öll stríðsárin. Fjöldi hljóðfæraleikara kom við sögu þessarar fyrstu hljómsveitar Carls, árið 1937 voru Óskar Cortes fiðlu- og saxófónleikari og Josef Felzmann fiðluleikari með Carli en sá síðarnefndi var æskufélagi hans og hafði komið með honum til Íslands 1933 – ekki liggur fyrir hvort fleiri eða hverjir skipuðu sveitina þá með þeim en á næstu árum léku hljóðfæraleikarar eins og Sveinn Ólafsson saxófónleikari, Þorvaldur Steingrímsson fiðluleikari, Helmut Siddicher básúnuleikari, Esra Pétursson fiðlu- og saxófónleikari (og söngvari), Jóhannes Eggertsson trommuleikari, Skafti Sigþórsson fiðluleikari, Adolf Theódórsson saxófónleikari, Rudi Kamphausen trompetleikari, Bjarni Guðjónsson [?], Jakob Einarsson fiðlu- og saxófónleikari og Karl Matthíasson [?] með henni. Það sýnir að heilmikil hreyfing hefur verið á skipan sveitarinnar en starfandi hljómsveitir á landinu voru á þessum tíma afar fáar. Eins og vænta mátti var sveitin lögð niður þegar Carl var fluttur nauðugur úr landi og þegar hann kom hingað á nýjan leik hafði Hótel Ísland brunnið til kaldra kola (1944).

Hljómsveit Carls Billich 1939

Carl Billich kom aftur til Íslands að loknu stríði í febrúar 1947 og tók þá fljótlega að láta að sér kveða á nýjan leik í tónlistinni, hann var kominn með nýja hljómsveit rúmlega mánuði síðar sem ráðin var sem húshljómsveit á Hótel Borg. Meðlimir þeirrara sveitar voru auk hans þeir Höskuldur Þórhallsson trompetleikari, Jóhannes Eggertsson trommuleikari, Þórir Jónsson fiðlu- og saxófónleikari, Vilhjálmur Guðjónsson klarinettu- og saxófónleikari og Sveinn Ólafsson saxófónleikari. Þannig mun sveitin hafa verið skipuð um hríð en árið 1948 urðu einhverjar mannabreytingar á henni, t.d. mun Ólafur Gaukur Þórhallsson gítarleikari hafa leikið með henni um hríð sem og Kristján Kristjánsson klarinettu- og saxófónleikari – sem hætti svo til að starfrækja eigin sveit KK-sextettinn.

Sveitin lék mestmegnis á Hótel Borg en einnig í kabarettsýningum í Austurbæjarbíói en þess má geta að oft voru beinar útsendingar í Útvarpinu frá Borginni. Hún starfaði áfram við tiltölulega litlar breytingar á mannskapnum, haustið 1949 voru t.a.m. í henni Sveinn, Jóhannes, Höskuldur, Axel Kristjánsson bassaleikari (sem þá var að leysa Einar B. Waage af um hríð) og Gunnar Egilson klarinettu- og saxófónleikari en einnig lék básúnuleikarinn Björn R. Einarsson stundum með sveitinni á Borginni þegar hann var ekki að leika með eigin sveit. Undir lok ársins urðu þó þær breytingar að Höskuldur varð að hætta vegna veikinda og um svipað leyti tók Josef Felzmann við af Axeli, Haukur Morthens kom töluvert fram með sveitinni á þessum tíma.

Framan af árinu 1950 lék sveitin áfram á Hótel Borg en virðist síðan hætta störfum, næstu tvö árin fer því minna fyrir Carli en hljómsveitir í nafni hans virðast þó vera starfandi í tengslum við stærri tónleika og uppákomur eins og haldnar voru í Austurbæjarbíói þar sem margar hljómsveitir komu til að skemmta. Engar upplýsingar er þó að finna um hverjir skipuðu sveit Carls þá og það sama er að segja um hljómsveit í hans nafni sem lék í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll á einni uppákomu árið 1952, Ólafur Gaukur gítarleikari og Einar B. Waage bassaleikari virðast þó hafa starfað með þeirri útgáfu sveitarinnar. Það sama ár lék hljómsveit Carls inn á tvær (78 snúninga) plötur með Alfreð Clausen söngvara sem komu út á vegum Íslenzkra tóna og nutu mikilla vinsælda en þær innihéldu lög eins og Manstu gamla daga, Gling gló og Æskuminning. Sveit Carls var þar skipuð Ólafi Gaukur, Einari, Josef Felzmann fiðluleikara, Braga Hlíðberg og Carli.

Carl og félagar á Hótel Borg

Næsta ár komu aftur út tvær plötur með sveit Carls en á þeim sungu annars vegar Alfreð og Ingibjörg Þorbergs og hins vegar Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested, sveitin var þar skipuð sama mannskap að hluta til en þá hafði Trausti Thorberg bæst í hópinn, það sama ár (1953) hóf sveit í nafni Carls að leika í Góðtemplarahúsinu og má reikna með að hún hafi að einhverju eða mestu leyti verið með sömu mönnum en heimildir eru einnig um að Erwin Koeppen kontrabassaleikari hafi leikið með henni. Sveitin lék jafnframt töluvert úti á landsbyggðinni um sumarið s.s. í Hlégarði í Mosfellssveit og að Jaðri þar sem góðtemplarar höfðu samkomuhús. Alfreð og Ingibjörg sungu töluvert með sveitinni um þetta leyti sem og Sigurður og einnig Sólveig Thorarensen og fleiri.

Segja má að árið 1954 hafi verið metár hjá hljómsveitinni hvað varðar plötuupptökur en sveitin lék þá inn á fjölda platna með söngvurum eins og Öddu Örnólfs, Ólafi Briem, Sigurveigu Hjaltested og Sigfúsi Halldórssyni auk framangreindra söngvara en sveitin lék jafnframt áfram í Gúttó bæði á almennum dansleikjum sem og í danslagakeppni SKT sem þar var haldin. Þá lék hún einnig á sex tónleikum sem söngkonan Josephine Baker hélt hér á landi og lék Skapti Ólafsson trommuleikari með sveitinni þar, að öðru leyti er ekki að finna neinar upplýsingar um meðlimi sveitarinnar og allur gangur er á því hvort upplýsingar um meðlimi hennar fylgdu plötuútgáfunni enda er ekkert víst að skipan sveita Carls sé þar hin sama og lék á dansleikjum eða tónleikum.

Um haustið 1954 var sveitin enn komin í Gúttó og um sama leyti tók til starfa tríó undir stjórn Carls sem átti eftir að starfa á veitingahúsinu Naustinu við Vesturgötu næstu sextán árin undir nafninu Naust-tríó – það er þó önnur saga.

Hljómsveit Carls Billich 1948

Fleiri plötur komu út með sveitinni á næstum tveimur til þremur árum en þar var að einhverju leyti um að ræða endurútgáfur, sveitin lék hins vegar áfram í Gúttó yfir vetrartímann (og lék þá einnig í danslagakeppnum SKT) og úti á landsbyggðinni á sumrin eins og þá var töluvert að aukast enda var danshljómsveitum stöðugt að fjölga, en hljómsveit Carls Billich hin fyrsta (sem hafði starfað á Hótel Íslandi fyrir stríð) hafði nánast verið einráð á markaðnum. Hljómsveitin hætti að líkindum störfum vorið 1957 en svo er eins og hún hafi verið endurvakin í fáein skipti næsta árið til að leika í Gúttó. Fjölmargir söngvarar komu við sögu sveitarinnar síðustu árin sem hún starfaði og hér eru nefnd Haukur Morthens, Svava Þorbjarnardóttir, Hallbjörn Hjartarson, Sigurður Ólafsson, Hafdís Jóelsdóttir og Adda Örnólfs, engar upplýsingar er hins vegar að finna um skipan sveitarinnar síðustu árin sem hún starfaði. Tríó Carls Billich, Naust-tríóið starfaði þó sem fyrr segir áfram eða allt til 1970.

Þó svo að hin eiginlega Hljómsveit Carl Billich starfaði ekki lengur átti Carl þó eftir að stjórna og starfrækja fjölmargar hljómsveitir næstu árin en í hönd fór tímabil þar sem hann stjórnaði fjölmörgum hljómsveitum hjá Þjóðleikhúsinu á leiksýningum, hér má nefna sýningar eins og Deleríum búbónis, Túskildingsóperuna, Dýrin í Hálsaskógi, Kardemommubæinn, Ferðin til Limbó, Skugga-Svein, Galdrakarlinn í Oz, Mjallhvíti og dvergana sjö og Bangsímon. Jafnframt komu út plötur með tónlistinni úr þeim leikritum í einhverjum tilvikum. Einnig mun hann í nokkur skipti hafa sett á fót hljómsveitir fyrir stök verkefni s.s. sjónvarpsþætti og þess háttar.

Hér að ofan hefur verið stiklað á stóru um hljómsveit/ir Carls Billich en upplýsingar um meðlimaskipan sveita hans eru þó alls ekki tæmandi, t.d. finnast upplýsingar um að hljóðfæraleikarar eins og Magnús Ingimargsson (sem gítarleikari), Gunnar Reynir Sveinsson trommuleikari, Ásgeir Sverrisson harmonikkuleikari og Sigurgeir Björgvinsson harmonikkuleikari hafi leikið með sveitum í hans nafni, ekki liggur þó fyrir hvenær.

Efni á plötum