Engin spurning
(Lag / texti: Hafsteinn Þráinsson og Una Torfadóttir / Una Torfadóttir)
Ég ætlaði bara að kíkja,
lofaði að stoppa stutt
því ég er svo vön að taka
skynsamlegar ákvarðanir
og passa að verða ekki of full.
Þú varst með hár niður að herðum,
nýbúinn að klippa það stutt
og beint fyrir framan mig
helltirðu óvart bjórnum niður
og ég bauðst til að þurrka hann upp.
Og það var þá og þar
sem ég fattaði að ég hafði labbað
inn á alveg réttan stað.
Engin spurning, rétt svar
og hljómsveitin byrjaði að spila
alveg fullkomlega viðeigandi lag
en ég man ekkert hvað það var.
Við dönsum með bros út að eyrum
þangað til ljósin eru kveikt.
Þú þarft ekki að spyrja hvort ég
vilji koma með þér héðan.
Þú þarft ekki að segja neitt.
Leiðumst með hendur í sama vasa.
Við löbbum alveg jafn hratt.
Fólk er svo gjarnt á að segja
eitthvað annað en það meinar.
En þú segir alltaf satt.
Og það var þá og þar
sem við föttuðum að skipin okkar
stefndu á nákvæmlega sama stað.
Engin spurning, rétt svar.
Kvöldsólin hún skein á okkur tvö ein.
Í kringum okkur ómaði þetta lag
en ég man ekkert hvað það var.
Ég ætlaði bara að kíkja,
lofaði að stoppa stutt
en Guði sé lof að þú
helltir bjórnum óvart niður
og ég bauðst til að þurrka hann upp.
Því það var þá og þar
sem ég fattaði að ég hafði haldið
að lífið væri flóknara en það var.
Engin spurning, rétt svar.
Fundum stund, fundum stað, fundum hvort annað.
Eitt fullkomlega viðeigandi lag
en ég man ekkert hvað það var.
Ég man ekkert hvað það var.
[af plötunni Una Torfa – Sundurlaus samtöl]














































