Hljómsveit Péturs Bernburg (1933-40 / 1946)

Hljómsveit Péturs Bernburg

Pétur Vilhelm Bernburg starfrækti hljómsveit í eigin nafni um nokkurra ára skeið – Hljómsveit Péturs Bernburg (stundum Hljómsveit Pjeturs Bernburg) en sveitin gekk einnig um tíma undir nafninu Sumarhljómsveitin er hún lék á skemmtunum og útidansleikjum að Eiði við Gufunes en það var vinsæll samkomustaður sem Heimdellingar komu á fót á fjórða áratugnum.

Hljómsveit Péturs kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1933 og virðist þá hafa starfað nokkuð samfleytt næstu árin, ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina með honum en heimild frá árinu 1935 greinir frá tríói þar sem þeir leika Pétur, Guðni [?] og Stefán [?] – það er þó ekki víst að þetta hafi verið hin eiginlega hljómsveit Péturs.

Pétur er ýmist sagður hafa leikið á fiðlu eða trommur en frekari staðfestingar er ekki að finna um það. Hugsanlega starfaði Gunnar Kristjánsson harmonikkuleikari með hljómsveit Péturs á einhverjum tímapunkti en á mynd þeirri sem fylgir hér er hann annar frá hægri, að öllum líkindum er hér um að ræða hljómsveit Péturs.

Sumrin 1936 og 37 fór hljómsveit Péturs víða um Reykjavík og nágrannabyggðalögin undir nafninu Sumarhljómsveitin (eða Sumarhljómsveit) og lék sveitin þá t.d. í K.R. húsinu, í Hellisgerði í Hafnarfirði, Borgarnesi, Akranesi og áðurnefndu Eiði við Gufunes á vegum Heimdalls. Sveitin lék einnig um verslunarmannahelgina 1936 í Valhöll á Þingvöllum en þá var útihátíð á vegum Verslunarmanna haldin þar, þar var um að ræða fimm manna sveit en sumarið 1937 var sveitin fjögurra manna.

Hljómsveit Péturs starfaði til ársins 1940 og lék á Eiði öll sumrin fram að því en þó ekki undir Sumarhljómsveitar-nafninu, árið 1938 eru Pétur, Tage Möller, Stefán Lyngdal og Jón Ólafsson sagðir hafa leikið fyrir sjúklinga á Vífilsstöðum en ekki er staðfest hvort þar var á ferð sveit Péturs.

Árið 1946 kom hljómsveit í nafni Péturs aftur fram á sjónarsviðið er hún lék að minnsta kosti tvívegis í Alþýðuhúsinu í Keflavík, engar upplýsingar er að finna um meðlima- og hljóðfæraskipan þeirrar sveitar aðrar en að hún var fjögurra manna.