Hreinn Halldórsson (1949-)

Hreinn Halldórsson

Hreinn Halldórsson eða Strandamaðurinn sterki eins og hann var yfirleitt kallaður var fyrst og fremst þekktur frjálsíþróttamaður, varð Evrópumeistari í kúluvarpi innanhúss árið 1977, átti Íslandsmet í greininni til fjölda ára og var þrívegis kjörinn Íþróttamaður ársins svo fáein dæmi séu nefnd um afrek hans – en hann átti sér aðra hlið sem hann ræktaði eftir að íþróttaferlinum lauk, hann lék á harmonikku, samdi lög og texta og var öflugur í félagsstarfi harmonikkuleikara austur á Héraði.

Hreinn Halldórsson (f. 1949) var fæddur á Hólmavík og ólst upp á Ströndum en þegar hann hóf keppni í íþróttum bjó hann á höfuðborgarsvæðinu, þar til íþróttaferli hans lauk vegna meiðsla árið 1982. Um það leyti flutti hann austur á Egilsstaði en eiginkona hans var ættuð af svæðinu.

Hreinn hafði fyrst kynnst harmonikkunni um fermingu vestur á Ströndum en þegar hann hafði flutt austur á Hérað var fyrst tími til að sinna því áhugamáli af einhverri festu og fljótlega var hann áberandi í öflugu félagsstarfi harmonikkuunnenda á svæðinu og lék á nikkuna við ýmis tækifæri – hann átti þátt í að stofna Harmoníkufélag Héraðsbúa árið 1984 og var í fyrstu stjórn félagsins, síðar átti hann eftir að sinna formennsku í því og var mikil driffjöður í starfsemi þess um árabil.

Sem formaður félagsins átti hann stóran þátt í því að fá finnska harmonikkuleikarann Tatu Kantomaa til landsins um miðjan tíunda áratuginn en sá átti eftir að starfa á svæðinu um hríð, Hreinn fór m.a. ásamt Finnanum í tónleikaferð um landið sumarið 1995, lék sjálfur á fjölmörgum uppákomum innan félagsins og utan, kom að plötuútgáfu í nafni félagsins og starfaði einnig fyrir harmonikkuhreyfinguna á landsvísu – t.d. í landsmótsnefnd og síðar sem formaður landsmótsnefndar. Þá var hann um nokkurra ára skeið ritstjóri Harmonikublaðsins.

Hreinn hefur jafnframt félagsstörfum sínum samið bæði lög og texta, tekið þátt í lagakeppnum innan harmonikkusamfélagsins og utan og unnið þar til verðlauna, m.a. með lagið (og textann) Bærinn okkar sem sigraði lagakeppni sem haldin var í tengslum við 50 ára afmælishátíð Egilsstaða árið 1997. Það lag kom út á samnefndri plötu sem hljómsveitin XD3 gaf út í tengslum við keppnina, fleiri lög Hreins hafa komið út á plötum og hér má t.d. nefna að þrjú lög eftir hann voru á plötu Tatu Kantomaa – Á tauginni, sem gefin var út með lögum eftir harmonikkuleikara á Héraði.

Hreinn hefur haldið tónleika og flutt eigið efni á þeim, og þegar hann varð sjötugur (2019) var blásið til tónlistarveislu á Egilsstöðum þar sem fjöldi tónlistarfólks flutti lög hans og texta. Hann hefur oftsinnis komið fram með hinum og þessum hljómsveitum eystra, hér má nefna Tríó Valgeirs og Austurland að Glettingi. Þá hefur hann einnig leikið t.a.m. undir hjá þjóðdansaflokknum Fiðrildunum og hjá útileikhúsinu Hér fyrir austan, á þrettándagleði, við messuhald og þannig mætti áfram telja. Hreinn hefur töluvert minnkað við sig spilamennskuna síðustu árin en er þó líklega enn að koma stöku sinnum fram með harmonikkuna.

Þess má geta að Hreinn hefur eins og fyrir íþróttaafrek sín, verið heiðraður fyrir tónlistarframlag sitt og störf í þágu harmonikkusamfélagsins – og reyndar hefur hann einnig unnið til viðurkenninga fyrir ljóðagerð þannig að Strandamanninum sterka er margt til lista lagt.