
Hrólfur Jónsson
Hrólfur Jónsson hefur víða komið við í atvinnulífinu, hann var lengi slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins áður en hann tók við starfi sviðstjóra framkvæmdasviðs við Reykjavíkurborg og síðar var hann skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar hjá borginni – þá hefur hann komið að félags- og íþróttastarfi og var t.d. landsliðsþjálfari í badminton um tíma. En Hrólfur hefur einnig fengist við tónlist, hann hefur starfað með hljómsveitum og gefið út plötur einn og í samstarfi við aðra.
Hrólfur er fæddur (1955) og uppalinn í Reykjavík, hann lærði lítillega á gítar á yngri árum sínum og var einnig virkur í skátastarfi þar sem hann lék á gítar og söng. Á fullorðins aldri kom hann eitthvað fram með gítar í félagi við aðra en var kominn á fertugs aldur þegar hann starfaði fyrst í hljómsveit, það var Eldbandið svokallaða sem starfrækt var um nokkurra ára skeið á tíunda áratugnum innan slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Einnig var hann um tíma í Borgarbandinu – hljómsveit borgarstarfsmanna.
Hrólfur hefur á þessari öld starfað með Tríói Tryggva Pálssonar en sú sveit hefur sent frá sér tvær plötu (Á Kóngsbakka – 2009 og Tríó Tryggva Pálssonar II – 2016), þar hefur Hrólfur samið megnið af lögunum og einhverja texta einnig. Og árið 2010 gaf hann út sína fyrstu sólóplötu, hún ber titilinn Tímaglasið og inniheldur ellefu lög og texta sem flest eru samin af Hrólfi. Hrólfur annaðist sjálfur sönginn á plötunni en um hljóðfæraleik sáu Jón Ólafsson og Stefán Már Magnússon. Þegar platan kom út sumarið 2010 hélt Hrólfur tónleika á heimili sínu í miðbænum á Menningarnótt og þá sá hljómsveitin Swords of Chaos um undirleikinn en Ragnar Jón Hrólfsson sonur Hrólfs var trommuleikari þeirrar sveitar – einnig voru útgáfutónleikar í tilefni af útgáfu plötunnar haldnir í Tjarnarbíói.
Þeir feðgar Hrólfur og Ragnar hafa einnig gefið út plötu saman í samstarfi, hún var tíu laga og leit dagsins ljós árið 2013 undir heitinu Á okkar vegum og á henni skiptu þeir með sér laga- og textasmíðum en fengu sér til fulltingis tónlistarmennina Jakob Frímann Magnússon, Þorgeir Guðmundsson og Guðmund Pétursson.
Þegar Hrólfur hætti að vinna sneri hann sér að tónlist í auknum mæli og hefur starfrækt hljómsveit sem ber nafnið 13 tungl, sú sveit hefur hljóðritað efni sem hefur reyndar ekki komið út en hins vegar haldið tónleika í Hörpu. Hrólfur virðist því síður en svo hættur að gera tónlist.














































