Afmælisbörn 25. júlí 2022

Páll Ragnar Pálsson

Í dag eru afmælisbörnin fjögur í Glatkistunni:

Þorsteinn Konráð Ólafsson raftónlistarmaður, sem gengur undir nafninu Prins Valium í tónlistarsköpun sinni er fjörutíu og sjö ára gamall í dag. Prins Valium hefur komið við sögu á mörgum safnplötum í rafgeiranum sem og splitplötum en hann hefur einnig gefið út plötur sjálfur síðan 2006. Hann var einnig í hljómsveitinni Semen, sem ekki fór hátt.

Páll Ragnar Pálsson gítarleikari og tónskáld er fjörutíu og fimm ára gamall í dag. Páll vakti fyrst athygli með hljómsveitinni Maus sem sigraði Músíktilraunir vorið 1994, sveitin fór á heilmikið flug í kjölfarið og gaf út nokkrar plötur. Hann hafði lært bæði á gítar og píanó, en nam einnig raftónlist, tónfræði og tónlistarsögur áður hann lauk tónsmíðanámi. Páll hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun fyrir tónlist sína síðustu árin.

Annar gítarleikari, Stefnir Gunnarsson á einnig afmæli á þessum degi en hann er þrjátíu og sex ára gamall í dag. Stefnir hefur leikið á gítar og sungið í hljómsveitum eins og Lada Sport og Big Kahuna en einnig fengist eitthvað við upptökuvinnslu.

Og þá er hér að síðustu nefndur Hrólfur Sæmundsson baritón söngvari sem er fjörutíu og níu ára gamall í dag. Hrólfur sem hefur sungið fjölda óperuhlutverka nam hér heima og í Bandaríkjunum og hefur sungið inn á nokkrar plötur ennfremur, hann stofnaði Sumaróperu Reykjavíkur (síðar Óperu Reykjavíkur) og var í sönghópnum Rinascente en á yngri árum lék hann einnig á bassa með nokkrum hljómsveitum s.s. Pain killers, Það veit andskotinn, Il Nuovo Baldur og Stingandi strá.

Vissir þú að Jón Jónsson er tvíburi?