Afmælisbörn 24. júlí 2022

Elín Ósk Óskarsdóttir

Afmælisbörn Glatkistunnar eru að þessu sinni tvö talsins:

Rangæingurinn Elín Ósk Óskarsdóttir söngkona er sextíu og eins árs gömul í dag. Hún nam fyrst píanóleik og söng í heimabyggð en síðan í Reykjavík, á Ítalíu og Bretlandseyjum, hún starfaði um tíma á Ítalíu en mestmegnis hér heima þar sem hún hefur t.a.m. sungið ýmis óperuhlutverk. Söng Elínar er að finna á fjölmörgum plötum en nokkrar þeirra hafa komið út undir hennar nafni.

Einar Vigfússon sellóleikari (fæddur 1927) átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést 1973. Einar var einn af íslenskum frumkvöðlum í sellóleik, var t.d. fyrsti sellóleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands og konsertmeistari um tíma. Hann starfaði einnig við kennslu og var fyrsti leiðbeinandi fjölmargra síðari tíma sellóleikara. Einar starfaði að félagsmálum tónlistarmanna, var í stjórn bæði FÍT og FÍH.

Vissir þú að Jakob Frímann Magnússon og Bubbi Morthens túruðu eitt sinn saman um landið?