Afmælisbörn 23. júlí 2022

Jóhan Þórisson

Þrjú afmælisbörn tengd íslenskri tónlistarsögu eru á skrá Glatkistunnar í dag:

Jóhann (Jón) Þórisson er sextíu og sex ára gamall á þessum degi. Jóhann lék á bassa í nokkrum hljómsveitum á áttunda áratug liðinnar aldar og má nefna sveitir eins og Dögg, Fjörefni, Helþró, Dínamít og Paradís en hann mun hafa haft stuttan stans í þeirri síðast töldu. Jóhann er bróðir Rúnars Þórissonar.

Anton Már Gylfason gítarleikari er fimmtíu og tveggja ára gamall í dag en hann starfaði hér á árum áður með hljómsveitum eins og Lipstick lovers og Woodoo, og lék á plötum fyrrnefndu sveitarinnar. Hann hefur þó lítið fengist opinberlega við tónlist síðustu árin.

Carl Billich (1911-89) átti einnig afmæli á þessum degi. Hann var austurrískur píanóleikari sem kom hingað til lands árið 1933, hann var tekinn höndum af Bretum við hernámið en látinn laus eftir stríð, fékk íslenskan ríkisborgararétt og bjó hér til æviloka. Carl starfrækti hljómsveitir í eigin nafni og lék með mörgum sveitum, stjórnaði kórum og vann að eflingu íslensks tónlistarlíf. Hann hlaut fyrir það hina íslensku fálkaorðu.

Vissir þú að Lýður Sigtryggsson frá Akureyri varð eitt sinn Norðurlandameistari í harmonikkuleik?