Hallgrímur Helgason [1] (1914-94)

Hallgrímur Helgason á yngri árum

Dr. Hallgrímur Helgason er með merkari mönnum íslenskrar tónlistarsögu en hann var fyrstur Íslendinga til að bera doktorstitil í tónvísindum, hann var jafnframt tónskáld, tónlistarmaður og framámaður í félagsmálum tónlistarmanna.

Hallgrímur Helgason fæddist á Eyrarbakka haustið 1914 en ólst að einhverju leyti upp á Mýrunum, hann var þó kominn til Reykjavíkur þegar hann hóf að læra á fiðlu átta ára gamall hjá Þórarni Guðmundssyni fiðluleikara, og síðar á píanó hjá Kristrúnu Hallgrímsson og Önnu Pjeturs. Hallgrímur þótti það efnilegur hljóðfæraleikari að aðeins tólf ára gamall var hann farinn að leika á fiðlu í Hljómsveit Reykjavíkur og þess má geta að á menntaskólaárum hans lék hann á fiðlu í útvarpssal.

Að loknu stúdentsprófi hleypti Hallgrímur heimdraganum og fór til Kaupmannahafnar í tónlistarnám, þar var hann í eitt ár áður en hann hélt til Leipzig í Þýskalandi þar sem hann var við framhaldsnám næstu árin þar sem hann lauk námi í fiðlu- og píanóleik, tónsmíðum og kennslufræðum. Í Þýskalandi kom hann töluvert fram á tónleikum og var jafnframt framarlega í félagsstarfi hljóðfæraleikara við skólann.

Hallgrímur var á námsárum sínum farinn að semja tónlist, á því skeiði samdi hann t.a.m. fyrstu íslensku píanósónötuna en hún var gefin út á nótum í Þýskalandi en var reyndar ekki leikin á tónleikum hér heima á Íslandi fyrr en löngu síðar. Hann var jafnframt um það leyti farinn að endurútsetja íslensk þjóðlög en hann varð þekktur fyrir þá vinnu og fór í ferðir á sumrin um landsbyggðina til safna þjóðlögum, líkt og Bjarni Þorsteinsson á Siglufirði hafði gert (og aðrir síðar einnig).

Hallgrímur kom heim til Íslands þegar stríð skall á í Evrópu árið 1939 og hér bjó hann og starfaði öll styrjaldarárin – hann nýtti tímann vel hér heima, kenndi söng og tónlist og flutti m.a. inn fjörutíu blokkflautur frá Ameríku til kennslu en slíkar flautur voru þá nýlunda í tónlistarkennslu hérlendis. Hann stjórnaði kórum eins og kór stúdenta við Háskólann, kór nema við Menntaskólann í Reykjavík, Kennaraskólakórnum og fleiri kórum, og vann einnig að útgáfu fjölda nótnabóka og kennsluefnis fyrir ýmis hljóðfæri, bæði með frumsaminni tónlist og eftir aðra. Þá hélt hann fyrirlestra um tónlist, flutti einnig erindi um efnið í útvarpssal og stýrði tímaritinu Tónlistinni auk þess að rita tónlistargagnrýni í Alþýðublaðið.

Hallgrímur hóf um þetta leyti einnig að sinna félagsmálum tónlistarmanna á stríðsárunum, hann var um tíma formaður hljómsveitar FÍH og var í stjórn félagsins einnig, hann var í stjórn Tónskáldafélagsins, var meðal stofnenda FÍT og STEFs (og var hugmyndasmiðurinn að skammstöfun samtakanna) og var formaður söngmálaráðs Sambands blandaðra kóra svo dæmi séu nefnd.

Hallgrímur árið 1940

Hallgrímur nýtti styrjaldarárin vel til að semja tónlist og voru áðurnefndar útsetningar fyrir þjóðlög áberandi í þeim efnum, þá samdi hann einnig sönglög fyrir einsöngvara, karlakóra og blandaða kóra, kammerverk, mótettur, sálmalög, orgelverk, einleiksverk fyrir ýmis hljóðfæri og þannig mætti áfram telja. Í þessu samhengi má geta að Hallgrímur varð fyrstur til að semja sönglag við ljóð Steins Steinarr en þeir þekktust ágætlega. Hallgrímur sagði sjálfur einhvern tímann í viðtali að hann væri undir nokkrum áhrifum þjóðlaga sem tónskáld og bera mörg tónverka hans þess nokkur merki.

Eftir styrjaldarárin hélt Hallgrímur aftur utan og nam nú við tónlistarháskólann í Zurich í Sviss þar sem hann lauk mastersnámi í tónlistarfræðum árið 1949 og síðan doktorsnámi 1955, fyrstur Íslendinga til að ljúka doktorsnámi í tónvísindum en ritgerðin fjallaði um byggingu og framsagnarhátt hins sögulega þjóðlags á Íslandi og forsögu þess. Verkið var ritað á þýsku en kom ekki út á íslensku fyrr en árið 1978. Á námsárunum í Sviss stjórnaði hann hljómsveit við skólann og fór einnig víða með fyrirlestra, m.a. árið 1956 í sextíu borgum Evrópu. Þá voru lög hans og aðrar tónsmíðar fluttar víða um lönd á tónleikum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Þegar Hallgrímur kom aftur heim til Íslands átti hann eftir að gegna margvíslegum störfum, hann var t.a.m. skipaður fulltrúi í tónlistardeild Ríkissjónvarpsins og starfaði lengi við það, hann endurvakti Stúdentakórinn og stjórnaði einnig Alþýðukórnum og Þjóðleikhúskórnum svo dæmi séu nefnd, hélt áfram að sinna félagsmálum tónlistarmanna t.d. sem framkvæmdastjóri Tónskáldafélagsins og spilaði einnig nokkuð bæði á fiðlu og píanó á tónleikum, t.d. með Sinfóníuhljómsveit Íslands um skeið. Fyrir vikið hafði hann orðið mun minni tíma fyrir tónskáldið í sér en áður og sinnti því þ.a.l. mun minna. Þá má geta þess að hann stofnaði ásamt tónskáldunum Jóni Þórarinssyni og Páli Ísólfssyni tónverkaútgáfuna Musica Islandica (1962) sem sérhæfði sig í útgáfu nótnahefta.

Um nokkurra ára skeið á síðari hluta sjöunda áratugarins og fyrri hluta þess áttunda gegndi Hallgrímur stöðu prófessors við háskóla í Kanada, þar sem hann m.a. stjórnaði Regina Folksong Choir í nokkur ár, og svo einnig sem gestaprófessor í Þýskalandi en þegar hann fluttist aftur heima árið 1974 flutti hann ásamt eiginkonu sinni austur á Selfoss og bjó þar í um fimmtán ár. Hann var þá skipaður dósent í sálma- og messusöngfræði og tónflutningi við guðfræðideild Háskóla Íslands og kenndi þar í tíu ár en starfaði á þeim tíma einnig sem tónlistarkennari á Selfossi og stjórnaði um tíma Samkór Selfoss.

Dr. Hallgrímur Helgason

Hallgrímur sneri sér aftur nokkuð að tónsmíðum á eldri árum og hafði í vinnslu hljómsveitarverk sem ekki liggur fyrir hvort hann kláraði, þá var hann einnig að undirbúa útgáfu greina- og ritgerðasafns eftir sig en mikill fjöldi greina um tónlist liggur eftir hann. Hallgrímur hafði ritað og þýtt fjölda bóka um tónlist, bæði kennslubækur um tónfræði og sögu tónlistarinnar, áður hefur doktorsritgerð hans verið nefnd en hér eru einnig nefndar bækurnar Íslands lag: þættir sex tónlistarfrömuða (1973), Tónskáld og tónmenntir (1993), Saga tónlistarinnar í frumdráttum (1946) og Almenn tónfræði (1944), auk bóka eins og alfræðibækurnar Tónmenntir (A-K / L-Ö) o.fl. Þá ritaði hann jafnframt bókarkaflann Tónmenntasaga, sem kom út í ritröðinni Saga Íslands (2. bindi) (1975).

Dr. Hallgrímur Helgason lést haustið 1994 fáeinum vikum fyrir áttræðis afmælið eftir skammvinn veikindi en hann hafði verið fullur starfsþreks lengi vel. Hann hafði verið fremstur meðal fræðimanna um íslenska tónlist og sem fyrr segir fyrstur Íslendinga til að hljóta prófessoranafnbót í tónvísindum, hann hafði því fengið fjölmargar viðurkenningar og verðlaun fyrir störf sín í þágu tónlistarinnar og hér má nefna hin þýsku Henrik-Steffens verðlaun, viðurkenningu tómenntasjóðs þjóðkirkjunnar og riddarakross svo aðeins séu nefnd fáein dæmi, þá hlaut hann ýmsar styrkveitingar til rannsókna og ritstarfa á ferli sínum.

Um 70 tónverk munu hafa komið út eftir Hallgrím á nótum og í nótnaheftum en tónsmíðar hans voru mun fleiri en það. Tónlist Hallgríms hefur komið út á plötum í gegnum tíðina þótt ekki hafi komið út nein heildarútgáfa á verkum hans, stök sönglög og verk hafa t.a.m. komið út á plötum í flutningi Kórs Langholtskirkju, Kristins Arnar Kristinssonar píanóleikara, Tónlistarfélagskórsins, Guðnýjar Guðmundsdóttur fiðluleikara, Einars Kristjánssonar, Rutar Ingólfsdóttur fiðluleikara, Páls Kr. Pálssonar orgelleikara, Elísabetar F. Eiríksdóttur, Voces Thules, Karlakórsins Þrasta, Guðmundu Elíasdóttur og Sigurlaugar Rósinkranz svo dæmi séu tekin en á plötu þeirrar síðast töldu var Hallgrímur höfundur sjö sönglaga. Hallgrímur hélt sjálfur utan um útgáfu plötu og útsetti lög Ingunnar Bjarnadóttur sem hafði búið í Hveragerði en sú plata bar heitið Amma raular í rökkrinu og kom út árið 1975, hann hafði einnig haldið utan um útgáfu á plötunni Íslenzk rímnalög sem kom út 1965. Meðal þekktustu sönglaga Hallgríms má nefna lög eins og Ég að öllum háska hlæ, Íslands hrafnistu menn og Siglum á sæinn en hér má einnig nefna önnur verk eins og kantötuna Sandy bar, hljómsveitaverkin Snorra Sturluson, Helgistef og Sinfóníu svo fáein dæmi séu nefnd.

Efni á plötum