Heimir Sindrason (1941-)

Heimir Sindrason

Tannlæknirinn og tónlistarmaðurinn Heimir Sindrason varð landsþekktur á menntaskólaárum sínum fyrir vísna- og þjóðlagasöng og hljóðfæraslátt ásamt félaga sínum Jónasi Tómassyni en sneri sér svo að öðrum málum, hann birtist svo á nýjan leik í tónlistinni mörgum árum síðar með sólóefni.

Heimir fæddist á aðfangadag árið 1944 í Reykjavík og hefur búið og starfað á höfuðborgarsvæðinu mest alla tíð. Hann hafði lítið fengist við tónlist í barnæsku en þegar hann dvaldist sem skiptinemi vestur í Bandaríkjunum fékk hann að prófa sig áfram með saxófón og komst þar í skólahljómsveit, þegar hann kom aftur heim til Íslands lék hann um hríð með Alto kvintettnum sem saxófónleikari en lengri varð reyndar hljómsveitarferill hans ekki – Alto varð síðar að Roof tops.

Á menntaskólaárum sínum komst Heimir í kynni við Jónas Tómasson og saman tóku þeir til við að skemmta við töluverðar vinsældar með söng og gítarspili undir nafninu Heimir og Jónas en Heimir nam þá lítillega af Jónasi á gítarinn, fleiri komu reyndar einnig við sögu en um það leyti sem þeir félagar luku stúdentsprófi hættu þeir störfum. Tveimur árum síðar eða 1969 kom svo út breiðskífa með þeim sem hljóðrituð hafði verið 1967 þar sem þeir fluttu eigin lög að nokkru leyti við ljóð Tómasar Guðmundssonar, Davíðs Stefánssonar og fleiri, undir titilinum Fyrir sunnan Fríkirkjuna. Eitt laga Heimis, Hótel jörð (við ljóð Tómasar) naut mikilla vinsælda og er löngu orðið sígilt í meðförum þeirra sem og annarra sem flutt hafa lagið. Önnur plata leit dagsins ljós ári síðar (1970) en hún bar nafnið HJVP og hafði einnig m.a. að geyma lög þeirra Heimis og Jónasar en þeir voru þá löngu hættir að starfa saman enda höfðu þeir þá báðir verið erlendis í námi, Heimir í tannlæknanámi í Skotlandi.

Heimir kom aftur heim til Íslands og lauk námi sínu hér árið 1973, opnaði eigin tannlæknastofu og sinnti tónlistinni ekki neitt næstu áratugina nema að hann samdi einhver lög í frístundum sínum. Það var ekki fyrr en árið 1993 þegar Almenna bókafélagið stóð fyrir endurútgáfu á ljóðabókinni Fagra veröld eftir Tómas Guðmundsson að Heimir lét til sín taka en hann tók þá þátt í samkeppni um lag við samnefnt ljóð Tómasar, sem hann svo sigraði. Það varð til þess að alls voru þrjú lög eftir hann á plötunni sem bar nafnið Fagra veröld en Egill Ólafsson og Guðrún Gunnarsdóttir sáu um sönginn á plötunni. Þar með má segja að síðari hluti tónlistarferils hans hefjist.

Heimir Sindrason

Á næstu árum áttu lög eftir Heimi eftir að birtast á fjölmörgum plötum annarra tónlistarmanna, bæði þekkt lög eins og Hótel jörð en einnig ný lög eftir hann, hér má nefna plötur með Edvin Kaaber, Jónasi Þóri Þórissyni, Ragnheiði Ólafsdóttur og Þórarni Hjartarsyni, Hermigervli, Tjarnarkvartettnum o.fl. Það var svo árið 1998 að sólóplata kom út í nafni Heimis sjálfs, það var platan Sól í eldi sem hafði að geyma fjórtán frumsamin lög við ljóð ýmissa þjóðþekktra skálda en flest þeirra voru þó eftir Ara Harðarson – fimm talsins og varð Ari eins konar hirðskáld Heimis í kjölfarið. Sól í eldi hlaut ágæta dóma í DV, Degi og Morgunblaðinu. Þess má geta að á plötunni syngur hin ellefu ára gamla Klara Ósk Elíasdóttir en hún átti nokkrum árum síðar eftir að verða ein Nylon-systra.

Tíu árum síðar (2008) stóð til að önnur plata Heimis myndi líta dagsins ljós en útgáfu þeirrar plötu var frestað vegna bankakreppunnar sem skall á um haustið, í upphafi árs höfðu reyndar tvö lög af plötunni komist í undankeppni Eurovision keppninnar en þau höfðu þar verið sett í þriggja mínútna útgáfur eins og reglur keppninnar gera ráð fyrir. Lögin tvö – bæði við texta Ara Harðarsonar, voru sungin af Unni Birnu Björnsdóttur (Cobwebs) og Edgari Smára Atlasyni (The kiss we never kissed) og komst síðarnefnda lagið inn í úrslitakvöldið en hafði þar reyndar ekki erindi sem erfiði. Lögin voru í lengri útgáfum á plötunni sem bar titilinn Ást og tregi, og kom út 2009. Sú plata hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Lög Heimis, einkum Hótel jörð, hafa vitanlega komið út á fjölmörgum safnplötum í gegnum tíðina en einnig hafa lög hans verið flutt á tónleikum víðs vegar um landið og af hinu og þessu listafólki. Þá hefur einnig verið flutt tónlistardagskrá með lögum eftir hann í Seltjarnarneskirkju.

Efni á plötum