Helgi Pétursson [2] (1962-)

Helgi Pétursson

Tónlistarmaðurinn Helgi Pétursson var töluvert áberandi í tónlistarsenunni á tíunda áratug liðinnar aldar en hann vakti þá athygli sem organisti, hljómborðsleikari nýbylgjusveita og tónskáld.

Helgi Sigurgeir Pétursson (f. 1962) er fæddur og uppalinn á Húsavík. Hann lærði á orgel og síðan einnig á píanó hjá Steingrími Sigfússyni og Sigríði Schiöth á Húsavík en fór svo suður til Reykjavíkur í nám í orgelleik og tónsmíðum, einnig fór hann síðar utan til Reading í Bretlandi til framhaldsnáms og nam þar raftónlist.

Á námsárum sínum í Reykjavík lék Helgi á hljómborð með hljómsveitum sem heyra undir nýbylgju en það voru sveitir eins og Haugur og Dá en einnig starfaði hann með hljómsveitinni Með nöktum þótt ekki væri hann meðlimur sveitarinnar, hann kom við sögu þeirrar sveitar á upptökum sem komu út á safnplötunni SATT 3 (1983). Helgi nam orgelleik hjá Marteini H. Friðrikssyni (Martin Hunger) Dómkirkjuorganista og lék hann stundum á tónleikum í Dómkirkjunni auk þess sem hann leysti Martein af um tíma, einnig kom hann töluvert fram sem orgelleikari á tónleikum víða um höfuðborgarsvæðið. Á þessum árum var hann farinn að gera tilraunir með raftónlist, hann var sjálfur að forrita og hannaði m.a. tónheyrniforrit – Tónvís, sem hann síðan þróaði en það virðist ekki hafa náð mikill útbreiðslu. Hann samdi þá einnig nokkuð af elektrónískum tónverkum og var nokkuð virkur í litlum hópi slíkra tónskálda, og lék á nokkrum tónleikum með öðrum raftónlistarmönnum þar sem hann flutti eigin verk. Hann fór einnig ásamt fleiri ungum tónskáldum til Helsinki (árið 1985) þar sem hann flutti eigin tónlist á norrænni tónlistarhátíð.

Helgi var á námsárum sínum með annan fótinn fyrir norðan á heimaslóðum, þar var hann farinn að kenna tónlist og árið 1990 var hann alfarinn aftur til Húsavíkur þar sem hann gerðist tónlistarkennari við tónlistarskólann og organisti við Húsavíkurkirkju. Samhliða þeim störfum starfaði hann með rokksveitinni Birtan hinumegin, sem var ekki beinlínis í anda þeirrar tónlistar sem hann lék sem organisti. Hann vann einnig tónlist fyrir Leikfélag Húsavíkur og stjórnaði um skeið djasssönghópnum NA 12, auk þess sem hann var að koma nokkuð fram fyrir norðan sem undirleikari. Hann hélt áfram að vinna við raftónlistina, samdi nokkuð af þess konar tónlist og í samstarfi við Caput-hópinn og voru verk eftir hann m.a. flutt á tónleikum Caput, þeirra á meðal má nefna tónverkin Maximus Fidus og Samninga umleitanir en síðarnefnda verkið var samið fyrir tölvu og klarinettu.

Helgi hafði um þetta leyti gifst kórstjórnandanum Nataliu Chow og fluttu þau suður árið 1996 og starfaði hann um tíma m.a. sem undirleikari kórs Hafnarfjarðarkirkju auk þess að vinna við eigin tónsmíðar – m.a. kom hann fram á Art 2000, fyrstu raftónlistarhátíðinni á Íslandi árið 2000. Smám saman virðist sem Helgi hafi snúið sér í auknum mæli að forritun og tónlistin hafi þá orðið að víkja en fáar heimildir er að finna um tónlist hans og -feril eftir aldamót.