Söngfélag Þorlákshafnar [3] (1960-)

Söngfélag Þorlákshafnar

Söngfélag Þorlákshafnar (stundum kallað Samkór Þorlákshafnar) er með eldri starfandi blönduðum kórum á landinu en það hefur starfað samfellt frá árinu 1960, aldrei hefur þó komið út plata með kórnum.

Það var Ingimundur Guðjónsson (faðir Jónasar Ingimundarsonar píanóleikara) sem hafði frumkvæðið að stofnun Söngfélags Þorlákshafnar haustið 1960 en Þorlákshöfn var á þeim tíma nýbyggt að mestu leyti og stækkaði hratt, Ingimundur var organisti við Strandarkirkju í Selvogi og Hjallakirkju í Ölfusi og er ekki ólíklegt að hið nýja söngfélag hafi sungið við messuhald í þeim kirkjum en engin kirkja var þá komin í Þorlákshöfn, Ingimundur var hins vegar hvatamaður að byggingu Þorlákskirkju sem var svo tekin í gagnið á fyrri hluta níunda áratugarins og varð Söngfélag Þorlákshafnar kirkjukór þeirrar kirkju uns sérstakur kirkjukór var þar stofnaður 2004, vegna þess var kórinn stundum kallaður Kirkjukór Þorlákshafnar. Síðan 2004 hefur Söngfélag Þorlákshafnar því ekki sungið við kirkjulegar athafnir í Þorlákskirkju nema eitthvað sérstakt hafi staðið til.

Fyrstu árin var æfingahúsnæði fyrir kórinn af skornum skammti enda var hvorki kirkja, safnaðarheimili né félagsheimili í Þorlákshöfn í þorpinu unga. Ingimundur fékk hins vegar inni í mötuneyti útgerðarfélagsins Meitilsins sem Þorlákshöfn byggðist utan um, og mun orgel organistans hafa verið borið þangað á æfingar frá heimili hans. Söngstarfið gekk vel og hróður söngfélagsins sem venjulega hefur innihaldið um 20-30 kórmeðlimi, barst víða um héruð enda söng kórinn töluvert opinberlega strax á fyrstu áratugum þess, auk þess að syngja á tónleikum og við messuhald annaðist kórinn einnig ásamt kvenfélaginu í Þorlákshöfn utanumhald um þorrablótið í þorpinu um árabil.

Söngfélag Þorlákshafnar 1976

Ingimundar var stjórnandi kórsins til dauðadags en hann lést síðla árs 1982. Við starfi hans tók ungur organisti sem þá var öllu þekktari fyrir tónlist af allt öðru tagi en það var Hilmar Örn Agnarsson sem þá var bassa- og hljómborðsleikari í nýbylgjusveitinni Þey. Hilmar Örn hélt áfram á sömu braut og Ingimundur og undir hans stjórn fór kórinn m.a. í söngferðalag til Noregs en haustið 1986 þegar Hilmar Örn hélt erlendis til framhaldsnáms tók Ari Agnarsson við keflinu og stjórnaði kórnum í nokkur ár þar til Karl J. Sighvatsson (Trúbrot, Flowers o.fl.) tók við söngstjórninni. Hans naut þó ekki lengi við því daginn eftir tónleika með kórnum vorið 1991 lést hann af slysförum. Hákon Leifsson stjórnaði söngfélaginu tímabundið eftir það en árið 1992 tók Bretinn Robert A. Darling við söngstjórninni og organistastarfinu en hann hafði þá um árabil verið starfandi í Hveragerði. Darling stjórnaði Söngfélagi Þorlákshafnar allt til ársins 2002 og svo aftur frá 2004 til 2014 en í millitíðinni gegndi Julian Isaacs starfinu. Örlygur Benediktsson hefur hins vegar verið stjórnandi kórsins frá árinu 2014.

Þó svo að Söngfélag Þorlákshafnar hafi aldrei sent frá sér plötu þrátt fyrir blómlegt söngstarf í yfir sextíu ár hafa fjögur lög komið út með kórnum á plötu, því árið 1998 kom út eins konar safnplata með sýnishornum af tónlistarlífinu í Þorlákshöfn undir stjórn stjórn og handleiðslu Robert A. Darling en þar er einnig að finna lög með skólalúðrasveit, skólakór og lúðrasveit sem starfandi eru í Þorlákshöfn. Platan ber titilinn Kórar og lúðrasveitir í Þorlákshöfn.

Efni á plötum