Sumarást
(Lag / texti: Magnús Bjarni Helgason / Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir)
Þegar lóan kemur svífandi um sæinn,
þegar sunnanþeyrinn strýkur mér um kinn
vaknar þrá mín heit, og blíða, frjálsa blæinn
læt ég bera kveðju heim í fjörðinn þinn.
Því ég veit að yfir fjöllin blærinn flýgur
og í faðmi sínum ber hann ennþá vor,
svo að upp úr jörðu ilmur bráðum stígur
það er ilmur lífs er þiðna vetrar spor.
Þegar fríið hefst ég ferðum til þín hraða,
yfir fjöll og heiðar svíf á skammri stund,
því að minningarnar lokka mig og laða
á hinn lengi þráða góðra vina fund.
Er ég hitti þig á ný
þá er hvergi á lofti ský
og ég horfi sæll í björtu augun þín.
Ég á „sjensinn“ sveifla mér
og þar svíf í dans með þér,
þú ert sumarást og hjartans vina mín.
Þegar fríi lýkur brátt ég hverf til baka,
en í brjósti mínu lifir von um það
að þú ótal nætur viljir með mér vaka
kæra vina mín, á þessum sama stað.
[m.a. á plötunni Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar ásamt fjölda góðra gesta – 44 íslensk alþýðu dans- og dægurlög]














































