Ég er á förum

Ég er á förum
(Lag / texti: erlent lag / Valdimar Hólm Hallstað)

Ég kem til ykkar, vinir, ég klökkur er í dag.
með kveðjuorð og fyrirbæn á vörum.
Í hinsta sinni skulum við kátir kveða lag
og kveðjast svo því nú er ég á förum.

Nú kveð ég allt og alla sem ég unnað hefi hér,
og allt sem hinir liðnu dagar geyma.
Alla, sem að liðsinni vildu veita mér,
og vonunum sem fæddust hérna heima.

Ég kveð þig síðast allra, litla leiksystirin mín,
við löngum höfum saman náð að gleðjast.
Í hinsta sinni, vinna, ég horfi í augu þín.
Það er heilög stund er góðir vinir kveðjast.

Við eigum ekki samleið, það veistu vina mín,
því vegir mínir liggja um sortans hallir.
Í heiðum sölum vorsins eru heilög sporin þín
og helgir eru draumar þínir allir.

Og því er ég að kveðja og þakka fyrir allt?
Ég þrái aðeins friðinn til að gleyma.
Á hugarlöndum mínum er klökugt bæði og kalt
og hvergi á þar geisli nokkur heima.

Ég kyssi gullna lokka og krýp við fætur þér
en kveðjuorðin deyja mér á vörum.
Viltu ekki í bænum þínum biðja fyrir mér
og blessa mig því nú er ég á förum?

Og loksins þegar stjörnurnar lýsa bláan geim,
ég legg af stað og þakka horfnu árin.
Ég lít til baka, vina, og horfi til þín heim
í hinsta sinn og brosi í gegnum tárin.

[engar upplýsingar um útgáfu]