Afmælisbörn 8. maí 2024

Lizzie Þórarinsson

Sjö tónlistartengd afmælisbörn eru í gagnagrunni Glatkistunnar að þessu sinni:

Ari Jónsson söngvari og trommuleikari er sjötíu og fjögurra ára gamall í dag. Auk þess að hafa gefið út sólóplötur og sungið á plötum ýmissa annarra listamanna, hefur Ari sungið og leikið með fjölmörgum hljómsveitum á borð við Roof tops, Ómum, Altó, Borgís, Pónik, Sheriff, Ríó tríó, Cabarett og Hljómsveit Stefáns P.

Bergur Jón Þórðarson (Bergur Thorberg) er sjötíu og þriggja ára gamall í dag en hann var hér áður fyrr m.a. í hljómsveitum eins og Tíglum, Landreisutríóinu og O‘hara. Hann gaf út sólóplötuna Metsöluplata sem kom út 1989, á henni var að finna frumsamið efni. Bergur hefur einnig starfað við myndlist og eru myndir hans, málaðar með kaffi, vel þekktar.

Valgeir Skagfjörð er sextíu og átta ára gamall á þessum degi. Valgeir er laga- og textahöfundur, auk þess að hafa sungið og leikið á hljómborð í hljómsveitum eins og Haukum, Óla Fink, Tíbrá, Cabarett og Hafrót. Valgeir hefur sem tónskáld verið tíður gestur í undankeppnum Eurovision keppninnar, Söngvakeppni Sjónvarpsins.

Hjaltdælingurinn Jens Kr. Guð (eða Jens Kristján Guðmundsson) er einnig sextíu og átta ára á þessum degi en hann er þekktur poppfræðingur, hefur bæði haldið úti tónlistartengdri bloggsíðu og ritað um tónlist í gegnum tíðina í blöð og tímarit eins og Þjóðviljann og Æskuna svo fáein séu hér nefnd, hann skrifaði ennfremur bókina Poppbókin – í fyrsta sæti, sem kom út 1983. Jens var í hljómsveitinni Frostmark hér áður og sjálfsagt fleiri sveitum, og er einnig kunnur fyrir teikningar og skrautskrift.

Ellen (Rósalind) Kristjánsdóttir söngkona er sextíu og fimm ára gömul í dag. Ellen hefur, auk þess að hafa gefið út sex sólóplötur, sungið á plötum margra annarra tónlistarmanna. Hún hefur einnig starfað með bróður sínum KK og sungið gríðarlega mörg vinsæl lög með hljómsveitum eins og Ljósunum í bænum, Borgardætrum, Tívolí, Mannakornum, Póker og Kombóinu sem dæmi séu tekin.

Kórstjórnandinn og listmálarinn Jón Ingi Sigurmundsson er enn eitt afmælisbarn dagsins en hann á stórafmæli – er níræður í dag. Jón Ingi stjórnaði lengi vel tveimur kórum á Selfossi sem m.a. gáfu út plötur, þetta voru Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands og Kór/Stúlknakór Gagnfræðaskóla Selfoss. Þá hefur hann einnig samið tónlist.

Og að síðustu er hér nefnd Lizzie Þórarinsson sópransöngkona og bóndakona í Suður-Þingeyjasýslu (f. 1875) sem hefði átt afmæli á þessum degi en hún var fyrst kvenna til að syngja á plötu hérlendis. Lizzie var skosk en fluttist til Íslands þegar hún kynntist verðandi eiginmanni sínum. Hún lést 1962.

Vissir þú að Gus Gus varð til í kringum framleiðslu á kvikmynd sem bar heitið Pleasure?