Afmælisbörn 8. maí 2022

Lizzie Þórarinsson

Sjö tónlistartengd afmælisbörn eru í gagnagrunni Glatkistunnar að þessu sinni:

Ari Jónsson söngvari og trommuleikari er sjötíu og tveggja ára gamall í dag. Auk þess að hafa gefið út sólóplötur og sungið á plötum ýmissa annarra listamanna, hefur Ari sungið og leikið með fjölmörgum hljómsveitum á borð við Roof tops, Ómum, Altó, Borgís, Pónik, Sheriff, Ríó tríó, Cabarett og Hljómsveit Stefáns P.

Bergur Jón Þórðarson (Bergur Thorberg) er sjötíu og eins árs gamall í dag en hann var hér áður fyrr m.a. í hljómsveitum eins og Tíglum, Landreisutríóinu og O‘hara. Hann gaf út sólóplötuna Metsöluplata sem kom út 1989, á henni var að finna frumsamið efni. Bergur hefur einnig starfað við myndlist og eru myndir hans, málaðar með kaffi, vel þekktar.

Valgeir Skagfjörð er sextíu og sex ára gamall á þessum degi. Valgeir er laga- og textahöfundur, auk þess að hafa sungið og leikið á hljómborð í hljómsveitum eins og Haukum, Óla Fink, Tíbrá, Cabarett og Hafrót. Valgeir hefur sem tónskáld verið tíður gestur í undankeppnum Eurovision keppninnar, Söngvakeppni Sjónvarpsins.

Hjaltdælingurinn Jens Kr. Guð (eða Jens Kristján Guðmundsson) er einnig sextíu og sex ára á þessum degi en hann er þekktur poppfræðingur, hefur bæði haldið úti tónlistartengdri bloggsíðu og ritað um tónlist í gegnum tíðina í blöð og tímarit eins og Þjóðviljann og Æskuna svo fáein séu hér nefnd, hann skrifaði ennfremur bókina Poppbókin – í fyrsta sæti, sem kom út 1983. Jens var í hljómsveitinni Frostmark hér áður og sjálfsagt fleiri sveitum, og er einnig kunnur fyrir drátthægni og skrautskrift.

Ellen (Rósalind) Kristjánsdóttir söngkona er sextíu og þriggja ára gömul í dag. Ellen hefur, auk þess að hafa gefið út sex sólóplötur, sungið á plötum margra annarra tónlistarmanna. Hún hefur einnig starfað með bróður sínum KK og sungið gríðarlega mörg vinsæl lög með hljómsveitum eins og Ljósunum í bænum, Borgardætrum, Tívolí, Mannakornum, Póker og Kombóinu sem dæmi séu tekin.

Kórstjórnandinn og listmálarinn Jón Ingi Sigurmundsson er enn eitt afmælisbarn dagsins en hann er áttatíu og átta ára gamall. Jón Ingi stjórnaði lengi vel tveimur kórum á Selfossi sem m.a. gáfu út plötur, þetta voru Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands og Kór/Stúlknakór Gagnfræðaskóla Selfoss. Þá hefur hann einnig samið tónlist.

Lizzie Þórarinsson sópransöngkona og bóndakona í Suður-Þingeyjasýslu (f. 1875) hefði átt afmæli á þessum degi en hún var fyrst kvenna til að syngja á plötu hérlendis. Lizzie var skosk en fluttist til Íslands þegar hún kynntist verðandi eiginmanni sínum. Hún lést 1962.

Vissir þú að Björgvin Halldórsson söng bakrödd á plötu með Risaeðlunni?