Afmælisbörn 9. maí 2022

Hilmar Örn Agnarsson

Í dag eru afmælisbörn dagsins sex talsins:

Páll Pampichler Pálsson tónskáld og tónlistarfrömuður er níutíu og fjögurra ára gamall í dag, hann er upphaflega Austurríkismaður sem hingað kom seint á fimmta áratugnum, stýrði lúðrasveitum, kórum og hljómsveitum á borð við Lúðrasveit Reykjavíkur, Karlakór Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Íslands, auk þess að vera einn stofnenda Kammersveitar Reykjavíkur.

Þá er Ingólfur Hjálmar Ragnarsson Geirdal fimmtíu og fjögurra ára í dag. Ingólfur, sem í daglegu tali er kallaður Ingó Geirdal er gítarleikari Dimmu sem hann hefur starfrækt í á annan áratug en hann var líka í hljómsveitinni Stripshow sem margir muna eftir og náði nokkrum vinsældum í Asíu hér fyrrum. Ingó hefur leikið með fleiri sveitum svo sem Götusmiðum og Quarashi en hann hefur einnig fengist við hljóðupptökur.

Smári Guðmundsson oftast kenndur við hljómsveitina Klassart frá Sandgerði, er fjörutíu og þriggja ára gamall í dag. Smári hefur þó leikið á gítar með fjölda annarra hljómsveita í gegnum tíðina og má hér nefna sveitir eins og Nerði, Sjálfsumglöðu riddarana, Lifun, Fluguna, Grammið og Tommy gun preachers en hann hefur einnig starfað undir nafninu Apótekarinn og gefið út plötu undir því nafni.

Hilmar Örn Agnarsson organisti og Þeysari á sextíu og tveggja ára afmæli á þessum degi. Hann vakti fyrst athygli í pönksenunni sem reið yfir landann um og upp úr 1980, þá með hljómsveitinni Þey. Fellibylurinn Þórarinn og Rauð vík eru einnig meðal sveita sem Hilmar lék með á árum áður en síðar fluttist hann austur fyrir fjall þar sem hann starfaði sem organisti í Skálholti, hann hefur einnig stofnað og stýrt kórum af margvíslegu tagi í seinni tíð s.s. Kammerkór Suðurlands og Söngfjelaginu.

Ívar Schram (Immo / Imagery) rappari er þrjátíu og sjö ára gamall í dag, hann gaf út plötuna Barcelona árið 2012 en hann hefur einnig starfað með rapptengdum sveitum eins og Original melody.

Theódór Einarsson dægurlaga- og textahöfundur frá Akranesi (fæddur 1908) átti líka afmæli á þessum degi en hann lést 1999. Hann samdi lög eins og Angelía og Kata rokkar, sem allir þekkja. Theódór var ennfremur í hljómsveitinni Kátum strákum sem starfaði á fjórða áratug síðustu aldar á Skaganum.

Vissir þú að Lousie Ólafsdóttir var organisti í Ölfusinu í sextíu og þrjú ár?