Páll Pampichler Pálsson (1928-2023)

Páll Pampichler 1949

Paul Pampichler 1949

Páll Pampichler Pálsson var einn af þeim erlendu tónlistarmönnum sem hingað kom á fyrri hluta síðustu aldar og sett mark sitt á íslenskt tónlistarlíf, margir þeirra settust hér að og var Páll einn þeirra.

Páll fæddist 1928 í austurrísku borginni Graz, hann var skírður Paul Pampichler en hlaut löngu síðar íslenskan ríkisborgararétt (1958) og tók þá upp nafnið Páll P. Pálsson, hann hélt þó alltaf upprunalega nafni sínu þrátt fyrir að það samrýmdist ekki íslenskum nafnalögum þess tíma.

Páll var af tónlistarfólki kominn og var faðir hans t.d. tónskáld, þess má geta að þau Páll og Manuela Wiesler flautuleikari (1955-2007) sem hér bjó um árabil, voru náskyld. Hann hóf tónlistarnám snemma, lærði á blokkflautu og píanó þegar hann var átta ára gamall en var farinn að semja tónlist fyrr, hann samdi t.a.m. polka sem hann spilaði á svörtu nóturnar á píanói þegar hann var einungis sex  ára gamall. Níu ára var Páll farinn að læra á trompet en það varð síðan hans aðal hljóðfæri, hann var síðan kominn í sinfóníuhljómsveit aðeins sautján ára.

Einn af kennurum Páls á þessum yngri árum var dr. Franz Mixa en hann hafði frumkvæði að því að fá Pál til Íslands. Það var 1949 og var hann einungis tuttugu og eins árs gamall, ráðinn til eins árs til að taka við Lúðrasveit Reykjavíkur sem þá stóð á tímamótum en Albert Klahn var þá að hætta með hana. Páll gekk þá einnig til liðs við Útvarpshljómsveitina en sú sveit starfaði aðeins til 1950 (hafði þá verið starfandi í um fimm ár) og sameinaðist þá nýstofnaðri Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Árið sem Páll réði sig til starfa hér á landi varð að fleiri árum, hann tók þátt í stofnun og uppbyggingu Sinfóníuhljómsveitar Íslands, var trompetleikari í sveitinni til 1959 en fór þá til framhaldsnáms í Hamborg í Þýskalandi, þar lærði hann m.a. hljómsveitastjórnun en það hafði verið draumur hans að starfa við það eftir að hafa stýrt sveitinni í fyrsta skipti 1956. Sá draumur átti eftir að rætast og hann varð fastráðinn stjórnandi hennar í yfir tuttugu ár, um tíma hafði enginn stjórnað sveitinni jafn oft og hann. Páll fór með sinfóníuhljómsveitinni í hljómleikaferðir erlendis, t.d. í hennar fyrstu utanlandsför – til Færeyja 1975 en einnig til heimalands hans, Austurríkis.

Páll Pampichler1

Páll P. Pálsson

Samhliða stjórnun Lúðrasveitar Reykjavíkur (sem hann stjórnaði í um aldarfjórðung) og starfi sínu með Sinfóníuhljómsveit Íslands, sinnti Páll tónlistarkennslu við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann stjórnaði ennfremur Karlakór Reykjavíkur í ríflega aldarfjórðung og fór með hann oft í söngferðalög til útlanda, Drengjalúðrasveit Vesturbæjar stjórnaði hann í um tuttugu ár og kom að ýmsum verkefnum öðrum við hin og þessi tækifæri, æfði og stýrði t.a.m. Kammersveit Akureyrar og Blásarasveit Tónlistarskólans á Akureyri í tímabundnum verkefnum, svo dæmi séu tekin.

Verkefni Páls voru ærin og hefur sérstaklega verið talað um hversu annasamur þjóðhátíðardagurinn 1974 var fyrir honum, þá var hérlendis haldið upp á 1100 ára afmæli byggðar í landinu og stjórnaði Páll fjögur hundruð manna karlakór, þrjú hundruð manna lúðrasveit og Sinfóníuhljómsveit Íslands frammi fyrir íslensku þjóðinni og öðrum gestum á lýðveldishátíð sem haldin var á Þingvöllum, þurfti hann að skipta nokkuð oft um föt þann daginn, hver uppákoma þurfti sinn búning.

Stjórnandahlutverk Páls voru ekki eingöngu einskorðuð við ofangreinda kóra og hljómsveitir hérlendis heldur stýrði hann einnig og hélt utan um tónlist á sýningum og tónleikum í Þjóðleikhúsinu og Íslensku óperunni, þeirra á meðal mætti nefna La traviata, Galdra-Loft, Kátu ekkjuna, Sígaunabaróninn o.fl.

Páll sinnti þannig ýmsum verkefnum erlendis, stjórnaði hljómsveitum t.d. á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu og þá lagði hann ætíð á það áherslu að hafa tónverk eftir íslenska höfunda á efnisskrám.

Páll hefur þannig einnig sinnt ýmsum verkefnum erlendis, stjórnað hljómsveitum t.d. á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu og þá hefur hann lagt á það áherslu að hafa tónverk eftir íslenska höfunda á efnisskrám.

Páll var ennfremur einn af stofnendum Kammersveitar Reykjavíkur 1974, kom einnig að tónlistarhópnum Musica Nova sem tónskáld en hann hafði alltaf samið tónlist þótt ekki væri það í neinum mæli fyrr en hann beinlínis lagði önnur verkefni til hliðar til að gefa tónskáldinu í sér meira vægi um og eftir 1980, árið 1993 hóf hann að sinna tónsmíðunum eingöngu, auk útsetninga. Hann dvaldi til skiptis ýmist hér á Íslandi og í Austurríki frá og með þeim tíma.

Páll Pampichler 1990

Páll Pampichler 1990

Verk eftir Pál var fyrst flutt opinberlega árið 1974 en fjölbreytni einkenndi umframt allt tónsmíðar hans, kammerverk, hljómsveitar- og einleiksverk, kórverk, lúðrasveitaverk og jafnvel sönglög liggja eftir hann og mörg hver hafa komið út á plötum, bæði hér heima og erlendis.

Kammersveit Reykjavíkur og Íslensk tónverkamiðstöð gáfu út plötuna Páll Pampichler Pálsson: Chamber works Kristallar / Crystals árið 1994 og tveimur árum síðar kom út platan Páll Pampicher Pálsson: Verleih mir Flügel / Ljáðu mér vængi á vegum Lotus records í Austurríki en fyrir síðarnefnda verkið var hann tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 1993.

Páll stýrði aukinheldur Karlakór Reykjavíkur á ógrynni platna í gegnum tíðina, þær hafa að geyma t.a.m. verk eftir Árna Thorsteinsson, Emil Thoroddsen, Björgvin Guðmundsson, Sigvalda Kaldalón auk margra annarra. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur einnig sent frá sér margar plötur þar sem Páll stýrði sveitinni í verkum eftir Karl O. Runólfsson, Skúla Halldórsson, Áskel Másson, Hauk Tómasson, Atla Heimi Sveinsson og fleiri. Þá má einnig nefna tvær plötur með Lúðrasveit Reykjavíkur en aðrar plötur sem Páll Pampichler kemur við sögu á skipta annars tugum.

Þá hlaut Páll ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín og framlag til íslenskrar tónlistar, hann hlaut t.d. riddarakross fyrir  störf sín, og Tónvakann – heiðursverðlaun Ríkisútvarpsins en hann var einnig í þrívegis heiðraður í heimalandi sínu Austurríki af stjórnvöldum þar í landi, fyrir kynningu á austurrískri menningu.

Páll lést í Austurríki í febrúar 2023 en hann var þá á nítugasta og fimmta aldursári.

Efni á plötum