Afmælisbörn 9. maí 2017

Páll Pampichler Pálsson

Í dag eru afmælisbörn dagsins fjögur talsins:

Páll Pampichler Pálsson tónskáld og tónlistarfrömuður er áttatíu og níu ára gamall, hann var upphaflega Austurríkismaður sem hingað kom seint á fimmta áratugnum, stýrði lúðrasveitum, kórum og hljómsveitum á borð við Lúðrasveit Reykjavíkur, Karlakór Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Íslands, auk þess að vera einn stofnenda Kammersveitar Reykjavíkur.

Hilmar Örn Agnarsson organisti og pönkari er fimmtíu og sjö ára á þessum degi. Hann vakti fyrst athygli í pönksenunni sem reið yfir landann um og upp úr 1980, þá með hljómsveitinni Þey. Fellibylurinn Þórarinn og Rauð vík eru einnig meðal sveita sem Hilmar lék með á árum áður en síðar fluttist hann austur fyrir fjall þar sem hann starfaði sem organisti í Skálholti, hann hefur einnig stofnað og stýrt kórum af margvíslegu tagi í seinni tíð s.s. Kammerkór Suðurlands og Söngfjelaginu.

Ívar Schram (Immo / Imagery) rappari er þrjátíu og tveggja ára gamall í dag, hann gaf út plötuna Barcelona árið 2012 en hann hefur einnig starfað með rapptengdum sveitum eins og Original melody.

Theódór Einarsson dægurlaga- og textahöfundur frá Akranesi (fæddur 1908) átti líka afmæli á þessum degi en hann lést 1999. Hann samdi lög eins og Angelía og Kata rokkar, sem allir þekkja. Theódór var ennfremur í hljómsveitinni Kátum strákum sem starfaði á fjórða áratug síðustu aldar á Skaganum.