Theódór Einarsson (1908-99)

Theódór Einarsson

Laga- og textahöfundurinn Theódór Einarsson er mörgum kunnur fyrir lög sín en margir af þekktustu tónlistarmönnum landsins hafa flutt þau í gegnum tíðina.

Theódór Frímann Einarsson fæddist í Leirársveitinni 1908 og var kominn á fullorðins ár þegar hann flutti inn á Akranes þar sem hann síðan bjó til æviloka, starfaði framan af við verkamannastörf en síðan við verslunarstörf og verslunarrekstur einnig reyndar.

Theódór lærði ungur á orgel og harmonikku og 1936 stofnaði hann hljómsveitina Káta stráka sem starfaði um tíma á Skaganum. Theódór varð þó auðvitað kunnastur fyrir laga- og textasmíðar sína en hann var ekki gamall þegar hann byrjaði að semja, sagt er að hann hafi t.d. einungis verið um sautján ára þegar hann samdi eitt sitt þekktasta lag, Angelíu en hljómsveitin Dúmbó sextett frá Akranesi gerðu það feikilega vinsælt og margir aðrir hafa flutt lagið einnig.

Allra þekktasta lag Theódórs er þó án nokkurs vafa Kata rokkar, sem Erla Þorsteins gerði vinsælt seint á sjötta áratugnum og Björk endurgerði löngu síðar með Tríói Guðmundar Ingólfssonar og gerði ódauðlegt. Meðal annarra þekktra laga hans má nefna Við gluggann, Gleym mér ei, Vinar kveðja og Á hörpunnar óma. Margt af þekktasta tónlistarfólki landsins hefur flutt lög Theódórs og gefið út á plötum og má þeirra á meðal nefna KK & Magga Eiríks, Vilhjálm Vilhjálmsson, Rokklingana, Helga Björns og Reiðmenn vindanna og Lummurnar.

Theódór sendi lög í dægurlagakeppnir síns tíma og vann til verðlauna í einhver skipti, m.a. fyrstu verðlaun í keppni SKT árið 1956. Hann var einnig þekktur revíu- og gamanvísnasöngvari og árið 1973 kom út bókin Gamanvísur sem hafði að geyma vísur hans úr ýmsum áttum. Hann skrifaði einnig stutta gamanþætti sem fluttir voru m.a. í útvarpsþáttum Svavars Gests.

Theódór lést 1999 og fáeinum árum eftir andlát hans gáfu afkomendur hans út safnplötuna Kata rokkar, með styrk frá Akraneskaupstað. Á henni fluttu nokkrir þekktir söngvarar tólf lög eftir Theódór undir stjórn Davíðs Þórs Jónssonar píanóleikara, á þeirri plötu var m.a. að finna söngkonuna Önnu Halldórsdóttur en hún er barnabarn Theódórs. Í því samhengi má einnig nefna að Ólafur Theódórsson sem var um tíma söngvari Dúmbó sextetts, var sonur hans.

Það þarf vart að taka fram að mörg laga Theódórs hafa komið út á safnplötum.

Efni á plötum