Bergur Þórðarson (1951-)

Bergur Þórðarson

Bergur (Jón) Þórðarson er öllu þekktari myndlistamaður en tónlistarmaður en hann á sér þó nokkra sögu í íslensku tónlistarlífi.

Bergur er fæddur (1951) og uppalinn á Skagaströnd og þar var hann á unglingsárum sínum söngvari og gítarleikari í hljómsveitinni Tíglum, og hugsanlega fleiri sveitum. Það var svo á menntaskólaárunum á Akureyri sem hann var meðal leikenda og tónlistarflytjenda í uppfærslu MA á söngleiknum Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason og þegar sýningum lauk fór hópurinn í reisu um landið og flutti tónlistardagskrá undir nafninu Landreisutríóið. Einnig var hann í hljómsveitinni O’hara um svipað leyti.

Í framhaldi af stúdentsprófi starfaði Bergur nokkuð við kennslu víða um land og var iðulega áberandi í leiklistar- og tónlistarlífinu á hverjum stað en megnið af áttunda og níunda áratugnum bjó hann þó og starfaði mikið erlendis, mest í Svíþjóð og Noregi, á þeim árum starfaði hann m.a. sem trúbabor en hann hafði þá þegar samið fjölmörg lög. Hluti þeirra kom síðar út á plötunni Metsöluplata ásamt nýrri lögum árið 1989 en á þeirri plötu naut Bergur aðstoðar fjölmargra þekktra tónlistarmanna s.s. Friðriks Sturlusonar, Ingólfs Steinssonar, Andreu Gylfadóttur og Sigurðar Rúnars Jónssonar (Didda fiðlu), sá síðast nefndi annaðist ennfremur upptökur sem fram fóru í Stúdíó Stemmu.

Bergur gaf plötuna út sjálfur og hlaut hún þokkalega dóma í DV en fór ekki hátt að öðru leyti. Eitt laganna á plötunni rataði á safnplötuna Lagasafnið 2 (1992) og einnig kom Bergur við sögu á plötunni Birtir af degi (1991) en sú plata hafði að geyma lög og ljóð eftir Björn Stefán Guðmundsson frá Reynikeldu.

Að öðru leyti hefur Bergur lítið komið við tónlistarsögu síðustu áratugina en helgað sig myndlistinni en hann er hvað þekktastur fyrir kaffimálverk sín sem hafa hlotið mikla athygli.

Efni á plötum