Söngkeppni framhaldsskólanna [tónlistarviðburður] (1990-)

Lárus Ingi Magnússon fyrsti sigurvegari Söngkeppni framhaldsskólanna

Söngkeppni framhaldsskólanna er sér íslenskur viðburður sem haldin hefur verið síðan árið 1990. Keppnin hefur síðan þá einungis fallið niður í eitt skipti.

Fyrsta söngkeppnin var haldin vorið 1990 en hugmyndin var ekki alveg ný af nálinni, undirbúningur hafði þá staðið yfir frá því haustið á undan en keppnin átti sér lengri aðdraganda. Fjórtán skólar voru meðal keppenda í fyrstu keppninni sem var haldin til styrktar verkefnis innan Rauða krossins en síðan þá hafa keppnisatriðin verið vel á þriðja tug. Söngkeppnin hefur yfirleitt verið haldin í mars eða apríl en henni var þó frestað fram á sumar þegar Covid-faraldurinn stóð sem hæst, aðeins einu sinni hefur keppnin fallið niður en það var árið 2017 – ástæðan var eitthvert áhugaleysi en menn voru fljótir að átta sig á mikilvægi hennar enda hefur hún svipuðu mikilvægi að gegna í félagslífi framhaldsskólanema eins og Gettu betur spurningakeppnin og Morfís ræðukeppnin.

Fyrirkomulag söngkeppninnar hefur almennt verið með þeim hætti að fyrst eru haldnar undankeppnir innan skólanna (það er þó ekki alveg algilt) og síðan hefur úrslitakeppnin verið haldin sem fyrr segir í mars eða apríl, þar hefur verið skilyrði að syngja á íslensku – fyrstu árin var keppnin haldin á Hótel Íslandi en síðan þá hefur hún farið víðs vegar fram bæði á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og Akranesi. Fyrirkomulag úrslitanna hefur ekki alltaf verið með sama hætti og síðustu ár hafa verið gerðar tilraunir með undankeppnir, netkosningu o.fl.

Sviðsmynd keppninnar 1992

Margir þekktir söngvarar (og leikarar) hafa stigið sín fyrstu skref í Söngkeppni framhaldsskólanna og þó svo að þeir hafi ekki sigrað í keppninni hafa þessi skref reynst dýrmæt í reynslubankann, hér má nefna Eurovisionfara eins og Pál Óskar, Birgittu Haukdal, Jónsa Í svörtum fötum, Diljá, Magna Ásgeirsson, Heru Björk Þórhallsdóttur, Hreim Örn Heimisson, Elísabetu Eyþórsdóttur, Regínu Ósk og Ágústu Evu Erlendsdóttur en einnig þekkt tónlistarfólk úr öllum geirum tónlistarinnar s.s. Móu, Nönnu Bryndísi úr OMAM, Söru í Lhooq, Edgar Smára Atlason, Val í Buttercup, Stefán Jak., Stefaníu Svavars, Rósu í Sometime, Guðlaugu Dröfn Ólafsdóttur, GDRN, Svavar Knút, Ardísi Ólöfu Víkingsdóttur, Aron Hannes, Sögu Matthildi, Pál Ivan og Einar Bárðarson svo aðeins nokkuð nöfn séu nefnd. En fjölmargir sigurvegarar Söngkeppni framhaldsskólanna hafa nýtt sér keppnina sem stökkpall út í tónlistarsenuna og margir þeirra hafa gert það gott í tónlistinni, hér eru sigurvegarar keppninnar frá upphafi:

1990 – Lárus Ingi Magnússon (FSu)
1991 – Margrét Eir Hjartardóttir (Flensborgarskóli)
1992 – Margrét Sigurðardóttir (MR)
1993 – Þóranna Jónbjörnsdóttir (MR)
1994 – Emilíana Torrini (MK)
1995 – Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir (FNV)
1996 – Þórey Heiðdal Vilhjálmsdóttir (MK)
1997 – Limo: Björn Thors, Stefán Hallur Stefánsson, Haukur Halldórsson og Flóki Guðmundsson (MH)
1998 – Brooklyn fæv: Aðalsteinn Bergdal, Davíð Olgeirsson, Kristbjörn Helgason, Orri Páll Jóhannsson og Viktor Már Bjarnason) (MH)
1999 – Guðrún Árný Karlsdóttir (Flensborgarskóli)
2000 – Sverrir Bergmann (FNV)
2001 – Arnar Þór Viðarsson (Flensborgarskóli)
2002 – Eva Karlotta Einarsdóttir & the Sheep river hooks (FNV)
2003 – Anna Katrín Guðbrandsdóttir (MA)
2004 – Sunna Ingólfsdóttir og Sigurlaug Gísladóttir (Mr. Silla) (MH)
2005 – Hrund Ósk Árnadóttir (MR)
2006 – Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir (FVA)
2007 – Eyþór Ingi Gunnlaugsson (VMA)
2008 – Sigurður Þór Óskarsson (VÍ)
2009 – Kristín Þóra Jóhannsdóttir (FVA)
2010 – Kristmundur Axel Kristmundsson, Júlí Heiðar og Guðni Matthíasson (Borgarholtsskóli)
2011 – Dagur Sigurðsson (Tækniskólinn)
2012 – Karlakór Sjómannaskólans (Tækniskólinn)
2013 – Ásdís María Ingvarsdóttir og Oddur Ingi Kristjánsson (MH)
2014 – Sara Pétursdóttir (Glowie) (Tækniskólinn)
2015 – Karólína Jóhannsdóttir (MR)
2016 – Náttsól: Elín Sif Halldórsdóttir, Guðrún Ólafsdóttir og Hrafnhildur Magnea Ingólfsdóttir (MH)
2017 – keppnin féll niður
2018 – Birkir Blær Óðinsson (MA)
2019 – Aaron Ísak Berry (Tækniskólinn)
2020 – Hörður Ingi Kristjánsson, Júlíus Þorvaldsson, Mikael Sigurðsson og Tryggvi Þorvaldsson (MTR)
2021 – Jóhanna Björk Snorradóttir (MR)
2022 – Emilía Hugrún Lárusdóttir (FSu)
2023 – Sesselja Ósk Stefánsdóttir (FG)

 

Efni á plötum