Blush (1996-98)

Blush

Hljómsveitin Blush birtist á sjónarsviðinu með plötu haustið 1997 en fljótlega eftir það dó sveitin drottni sínum.

Sveitin var stofnuð haustið 1996 og rétt um ári síðar hóf hún að leika á öldurhúsum borgarinnar með það fyrir markmiði að kynna væntanlega plötu sem síðan kom út í nóvember 1997.

Meðlimir Blush voru þá Þór Sigurðsson söngvari og gítarleikari, Magnús Einarsson bassaleikari, Davíð Ólafsson trommuleikari og Margrét Sigurðardóttir hljómborðsleikari og söngkona en hún hafði sigrað Söngkeppni framhaldsskólanna fáeinum árum fyrr.

Platan sem var samnefnd sveitinni var tíu laga og fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu, Þór gítarleikari (sem þá hafði vakið athygli með hljómsveitinni Deep Jimi & the Zep Creams) samdi tónlistina en textarnir voru á ensku. Ari Daníelsson og Hjörtur Svavarsson önnuðust upptökuþáttinn.

Það var ljóst að þegar platan kæmi út, að Margrét söngkona myndi ekki fylgja henni eftir með sveitinni þar eð hún var á leið í söngnám til Austurríkis, það varð því úr að Jóhanna Harðardóttir leysti hana af hólmi en einnig var orgelleikarinn Arnór Vilbergsson þeim innan handar á tónleikum. Sveitin var reyndar ekki langlíf eftir það, hætti störfum 1998.

Efni á plötum