Haukur Morthens (1924-92)

Haukur Morthens

Haukur Morthens er einn þeirra sem segja má að sé á heiðursstalli íslenskra tónlistarmanna en hann er margt í senn, einn farsælasti og vinsælasti dægurlagasöngvari Íslands fyrr og síðar, sá fyrsti sem gerði dægurlagasöng að atvinnu og um leið fyrstur slíkra til að reyna fyrir sér á erlendum vettvangi, hann var jafnframt lagahöfundur, hljómsveitarstjóri, skrifaði um tónlist í blöð og tímarit, flutti inn erlent tónlistarfólk og hélt tónleika, var með eigið útgáfufyrirtæki um tíma og lagði allt sitt í tónlistina fram í andlátið. Hann var fagmaður og reglumaður fram í fingurgóma, snerti hvorki áfengi né tóbak en varð að játa sig sigraðan að lokum fyrir krabbameini sem hlýtur að teljast kaldranalegt í því samhengi.

Gustav Haukur Eðvardsson Morthens fæddist í Reykjavík vorið 1924, faðir hans var norskur en móðir hans íslensk og mun hún hafa haft nokkra tónlist í blóðinu, söng t.a.m. með Kantötukór Páls Ísólfssonar og var í hinum svokallaða Alþingishátíðarkór sem var settur saman í tilefni af þeirri hátíð 1930. Sjálfur var Haukur kominn í drengjakór Jóns Ísleifssonar í Miðbæjarskólanum um tólf ára aldur og var í honum um þriggja ára skeið en hann söng einsöng eitt sinn með kórnum og það átti að vissu leyti eftir að hafa áhrif á að hann fékkst síðar við sönginn. Ungur lærði Haukur lítillega á básúnu og lék um hríð með hljómsveit iðnaðarmanna á það hljóðfæri, og hann mun einnig hafa leikið eitthvað á gítar og jafnvel fleiri hljóðfæri.

Það voru ekki uppi neinar áætlanir um það hjá Hauki að gerast söngvari og ungur hóf hann að nema prentiðn sem hann reyndar starfaði við í fjölmörg ár, hins vegar komu tvær stúlkur að máli við hann þegar til stóð að halda einhverja skemmtun meðal prentiðnnema en þær mundu eftir að hann hafði sungið einsöng með drengjakór Jóns Ísleifssonar nokkrum árum fyrr og báðu hann um að troða upp á skemmtuninni með söng. Haukur hafði ekki hug á því enda var hann feiminn en þær töldu hann á það með því að tryggja að hann yrði ekki einn á sviðinu, og svo fór að Haukur söng á skemmtuninni ásamt öðrum manni, Alfreð Clausen sem var nokkrum árum eldri. Þannig hófst söngferill Hauks og þeir Alfreð áttu eftir að skemmta heilmikið tveir saman næstu tvö árin við gítarundirleik Alfreðs – mest í Reykjavík en einnig nokkuð á Suðurnesjunum en einnig fóru þeir eina ferð norður til Akureyrar. Samhliða því starfaði Haukur við Alþýðuprentsmiðjuna þar sem gjarnan var unnið á kvöldin en hann hljóp á milli staða til að syngja þess á milli, þeir Haukur og Alfreð urðu um þetta leyti þekktir sem dægurlagasöngvarar en það hugtak var þá nýtt á nálinni enda höfðu landsmenn fram að því einvörðungu þekkt söng kóra og einsöngvara. Ekki voru allir jafn hrifnir af þessum nýja söng fremur en djasstónlistinni sem einnig var þá að koma fram hér á landi en unga fólkið kunni vel að meta þennan nýja söng, Haukur tileinkaði sér þó strax fágaða framkomu á sviði þótt hann hreyfði sig vissulega (enda var hann dansmaður mikill) en hann tók aldrei upp rokkstæla og -hreyfingar þegar sú tónlist kom til sögunnar.

Haukur Morthens 1948

Alfreð hafði eitthvað sungið með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar (föður Ragnars Bjarnasonar) sem varð vinsæl danshljómsveit um þetta leyti og þegar Bjarni var að leita eftir annars konar söngvara fyrir sveit sína kom Haukur til skjalanna og átti eftir að syngja með sveitinni um tíma, m.a. fór Haukur með henni í stóra og mikla reisu um landsbyggðina sumarið 1946 þar sem stórsveit Bjarna og þrír söngvarar komu við sögu – þeir Haukur, Alfreð og Sigurður Ólafsson. Haukur lærði aldrei söng svo heitið geti en sótti þó einkatíma hjá bæði Sigurði Skagfield og Pétri Á. Jónssyni óperusöngvurum og sá fyrrnefndi mun hafa hvatt Hauk til að nema óperusöng sem Haukur hafði aldrei hug á.

Haukur varð því fljótlega mjög þekktur dægurlagasöngvari og á næstu árum söng hann með fjölda hljómsveita bæði á höfuðborgarsvæðinu (Mjólkurstöðinni, Breiðfirðingabúð, Tjarnarcafé, Sjálfstæðishúsinu og víðar) og úti á landsbyggðinni, á þeim tíma tíðkaðist ekki að söngvarar væru hluti af hljómsveitinni heldur voru þeir lausráðnir, jafnvel eitt eða nokkur kvöld í senn – þeir þurftu því að hafa á takteinum ógrynni laga til að syngja og það var verkefni sem Haukur réði vel við. Hann söng t.a.m. með hljómsveitum Árna Ísleifs og Björns R. Einarssonar árið 1947 og svo með sveitum Aage Lorange, Baldurs Kristjánssonar og Óskars Cortes en með síðast töldu sveitinni fór Haukur norður í land og söng m.a. í síldarbænum Siglufirði og víðar. Þetta ár kom Haukur einnig fram með hljómsveit sem kallaðist Crazy rhythm kvartettinn en hún lék djasstónlist, þá kom hann stundum einnig fram með Hawaii-kvartettnum.

Haustið 1947 söng Haukur líkast til í fyrsta sinn í útvarpinu en þá voru hljóðritaðar nokkrar lakkplötur þar sem hann söng við undirleik hljómsveitar Bjarna Böðvarssonar á vetrardansleik Útvarpsins, einnig eru til varðveittar fjölmargar aðrar upptökur hjá Ríkisútvarpinu frá því um 1950 sem aldrei hafa verið gefnar opinberlega út en plötusafnarinn Sigurjón Samúelsson á Hrafnabjörgum við Ísafjarðardjúp mun þó hafa fengið afrit af þeim upptökum á sínum tíma til að fjöldfalda á geisladiskum og „gaf út“ í nokkrum eintökum.

Hróður Hauks barst enn víðar og hann var orðinn landsþekktur um 1950 og söngstjarna mikil en árið á undan hafði hann t.d. verið kjörinn besti söngvari ársins af Jazzblaðinu. Hann starfaði um það leyti nokkuð með Bláu stjörnunni sem var skemmtihópur sem setti á svið revíur s.s. Glatt á hjalla o.fl. en þar bæði söng hann og lék í skemmtiatriðum, hann var jafnframt farinn að koma fram á djasskvöldum sem djasssöngvari sem einnig sýndi fjölbreytni hans á söngsviðinu. Þetta ár (1950) fór Haukur í fyrsta sinn utan en hann dvaldi þá í London um nokkurt skeið um haustið og söng þá m.a. í útvarpsþætti hjá BBC við undirleik hljómsveitar Vic Ash og fór þar einnig í viðtal, þetta var fyrsta af fjölmörgum utanlandsferðum Hauks sem söngvari. Enn var nokkuð í að Haukur myndi syngja inn á útgefna plötu enda tók það nokkurn tíma að koma slíkri framleiðslu af stað eftir styrjaldarárin, í byrjun sjötta áratugarins hélt hann áfram að starfa með hinum og þessum hljómsveitum við góðan orðstír, hann söng með sveitum Carls Billich, Stefáns Þorleifssonar, Kristjáns Kristjánssonar (KK) og Braga Hlíðberg auk sveita Bjarna Bö, Óskars Cortes og Aage Lorange.

Haukur í Bláu stjörnunni

Vorið 1952 stofnaði Haukur ásamt Svavari Gests og Baldri Georgs skemmtiklúbbinn Næturgalann sem m.a. setti upp kabarett- og revíusýningar með frumsömdu efni þeirra félaga. Á einni slíkri sýningu – Suður um höfin, frumflutti Haukur eigið lag við texta eftir Vilhjálm frá Skáholti sem hét Ó, borg mín borg. Litlu síðar kom fram annað lag eftir Hauk við ljóð Vilhjálms, Simbi sjómaður. Þarna var það mikið orðið að gera í tónlistinni að Haukur lagði prentlistina á hilluna og helgaði sig eftir það dægurlagasöng og tengdum verkefnum og varð þar með fyrstur dægurlagasöngvara hérlendis til að gerast atvinnumaður í greininni. Hann varð jafnframt þekktur fyrir líflega sviðsframkomu, tók gjarnan dansspor sem ekki var endilega normið á þessum tíma og átti auðvelt með að hrífa salinn með sér í stemmingunni, hann varð öðrum fyrirmynd í þeim efnum því talað hefur t.d. verið um að bæði Ragnar Bjarnason og Óðinn Valdimarsson hafi fylgt í fótspor hans hvað þetta varðar.

Vorið 1954 urðu þau tímamót að hljóðrituð voru sex lög í Ríkisútvarpinu með söng Hauks þar sem tríó undir stjórn Eyþórs Þorlákssonar lék með honum, þessi sex lög komu út um sumarið á þremur 78 snúninga plötum á vegum Fálkans, sem voru um leið fyrstu dægurlagaplöturnar sem Fálkinn gaf út en útgáfan hafði fram að því einvörðungu gefið út söng kóra og einsöngvara. Af lögunum sex varð lagið Bjössi kvennagull (Bjössi á mjólkurbílnum) aðal smellurinn en á hinni hlið þeirrar plötu var lagið Svo ung ert þú. Platan seldist strax upp (þúsund eintaka upplag) og þurfti því að panta viðbótar upplag, hinar plöturnar tvær höfðu að geyma lögin Hvar ertu? / Ó, borg mín borg og Ástin ljúfa / Lítið lag sem nutu ekki eins mikilla vinsælda en Ó, borg mín borg varð síðar eitt einkennislaga Hauks þótt það nyti engrar sérstakrar hylli í upphafi. Þess má geta að um svipað leyti og Bjössi á mjólkurbílnum var að koma út var gerð önnur plata með sama laginu (sem er ítalskt) undir heitinu Indæl er æskutíð, þar sungu þau Ólafur Briem og Adda Örnólfs en sú útgáfa náði ekki nærri eins miklum vinsældum og útgáfan með Bjössa sem ók eins og ljón með aðra hönd á stýri með bensínið í botni í fyrsta gíri.

Haukur og Alfreð Clausen

Um það leyti sem plöturnar voru að koma út fór Haukur í tveggja mánaða tónleikaferð með KK sextettnum til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur auk Hollands og svo í beinu framhaldi til Englands til að leika í djassklúbbum en hann söng í útvarpi bæði í Danmörku og Noregi þeirri ferð. Haukur (og hljómsveitin reyndar einnig) vakti mikla athygli og fljótlega eftir hana bárust þær fréttir heim til Íslands að dönsk útgáfufyrirtæki hefðu áhuga á að gefa út plötur með Hauki en bæði Odeon og HMV (His Master‘s Voice) hefðu sett sig í samband við hann. Í þessari sömu tónleikaferð kom Haukur við hjá HMV í Kaupmannahöfn og söng önnur sex lög undir stjórn danska hljómsveitarstjórans og gítarleikarans Jörn Grauengård og þar með hófst farsælt samstarf sem átti eftir að skila af sér ófáum stórsmellum og fjölmörgum útgefnum plötum á næstu árum. Þrjár tveggja laga plötur komu svo út síðsumars undir merkjum Fálkans og höfðu að geyma lögin Síðasti dansinn / Til eru fræ, Heimkynni bernskunnar / Stína, ó Stína og Brúnaljósin brúnu / Suður um höfin, sem langflest nutu vinsælda einkum þó Til eru fræ og Stína, ó Stína sem eru meðal helstu einkennislaga Hauks.

Eftir utanförina hóf Haukur að starfa með Hljómsveit Árna Ísleifs á Röðli og hann átti eftir að starfa með Árna heilmikið á næstu árum, um þetta leyti var hann kjörinn besti dægurlagasöngvari Íslands af Ríkisútvarpinu sem sýnir á hvað stall Haukur hann þá þegar kominn – um haustið 1954 söng hann svo síðsumars í nokkur skipti með H.B. kvintettnum í Selfossbíói en hann átti eftir að starfa nokkuð með þeirri sveit þar á næstu árum. Um haustið fór Haukur hins vegar aftur utan til Kaupmannahafnar til að hljóðrita sex lög til viðbótar með Jörn Grauengård. Afrakstur þeirrar vinnu kom svo út á þremur plötum fyrir jól og þeirra á meðal var ein tveggja laga jólaplata (Hvít jól (White christmas) / Jólaklukkur (Jingle bells)) – lögin tvö marka tímamót í útgáfu jólalaga hér á landi því þetta var í fyrsta sinn sem lögin tvö komu út hér. Hinar plöturnar tvær höfðu að geyma Á Jónsmiðum / Í kvöld og Istanbul / Too little time en síðarnefnda platan var jafnframt gefin út í Danmörku. Alls var Haukur um mánuð erlendis í þetta sinn því í kjölfar hljóðversvinnunnar í Kaupmannahöfn fór hann til Hamborgar í Þýskalandi þar sem hann kom fram með danskri hljómsveit og fór þaðan til Englands og söng á næturklúbbum í London – þar söng hann einnig í sjónvarpsþætti hjá BBC og varð þar með fyrstur íslenskra dægurlagasöngvara til að koma fram í sjónvarpi, hann hlaut jafnframt einhverja umfjöllun í tónlistartímaritinu Melody maker fyrstur Íslendinga. Í þessari ferð bauðst Hauki að fara um heiminn með sænsku farþegaskipi og syngja um tveggja mánaða skeið en því ágæta tilboði hafnaði hann.

Haukur Morthens 1954

Á árinu 1954 komu því út tíu 78 snúninga plötur með alls tuttugu og einu lagi með söng Hauks því að enn er ótalin plata sem kom út um sumarið þar sem hann naut undirleik hljómsveitar undir stjórn Ólafs Gauks Þórhallssonar en platan hafði að geyma enn einn stórsmellinn – Ég er kominn heim, hitt lagið hét Abba-lá. Sú plata mun hafa selst upp fjórum sinnum og var endurútgefin jafnharðan, því má með sanni segja að þetta ár hafi markað ákveðin skil á ferli hans.

Árið 1955 var með svipuðum hætti þótt ekki kæmu út alveg jafn margar plötur á því ári. Haukur hélt áfram að koma fram hér heim á dansleikjum með hljómsveitum s.s. hljómsveit Ólafs Gauks og jafnframt var hann að koma fram með sönghópum eins og Öskubuskum, og þar sem hann starfaði nú sem atvinnumaður í tónlist tókst hann á við ýmis fjölbreytileg verkefni s.s. skipulagningu tónleika, umboðsmennsku og innflutning á erlendum skemmtikröfum á næstu árum eins og Delta rhythm boys og síðar hljómsveitum eins og The Swinging blue jeans og Brian Poole and the Tremelos svo dæmi séu nefnd. Haukur fór í enn eina Kaupmannahafnarferðina sumarið 1955 og enn voru hljóðritaðir ódauðlegir slagarar í samstarfi við Jörn Grauengård – Hæ mambó, Kaupakonan hans Gísla í Gröf og Ég er farmaður fæddur á landi voru meðal þeirra sex laga sem nú voru hljóðrituð en alls dvaldist Haukur um þriggja mánaða skeið í Danmörku og söng á skemmtistöðum og næturklúbbum með þarlendum hljómsveitum. Plöturnar komu sem fyrr út undir merkjum Fálkans en sagan segir að lagið um kaupakonuna hans Gísla í Gröf hafi verið bannað í Ríkisútvarpinu vegna texta þess en í því þótti vega að íslensku mál þar sem orðið „þingó“ kom við sögu og útvarpsráð var ekki sátt við – hér er líkast til um að ræða fyrsta „bann“ sinnar tegundar hér á landi en fleiri áttu eftir að fylgja í kjölfarið.

Samhliða því að syngja með ýmsum hljómsveitum hér heima s.s. Baldurs Kristjánssonar, hóf Haukur í samstarfi við Jónas Jónasson að stýra vinsælum útvarpsþætti í Ríkisútvarpinu, um var að ræða óskalagaþátt sem var líklega fyrstur sinnar tegundar en jafnframt var önnur tónlist leikin þar líka – Haukur varð þar svo frægur (reyndar eftir ábendingu ungrar stúlku sem laumaði að honum plötu) að leika Elvis Presley í fyrsta sinn í íslensku útvarpi, það var lagið Heartbreak hotel.

Tvær plötur til viðbótar komu út með Hauki þetta árið og voru þær hljóðritaðar hér heima við undirleik tríós undir stjórn Gunnars Reynis Sveinssonar, á þeim voru lögin Gunnar póstur / Vísan um Jóa og Ég bíð þín, heillin / Hljóðlega gegnum hljómskálagarð en af þeim naut Gunnar póstur klárlega mestra vinsælda enda var sú plata þriðja söluhæsta platan það árið á Íslandi. Eldri plöturnar seldust margar hverjar áfram mjög vel þannig að ekki var um neinar minnkandi vinsældir að ræða en um þetta leyti var rokkið að hefja innreið sína og átti Haukur eftir að taka þátt í þeirri senu einnig og fylgja þeim straumum sem unga fólkið fetaði næstu árin þrátt fyrir að vera orðinn rúmlega þrítugur að aldri.

Haukur Morthens

Enn ein platan leit dagsins ljós í upphafi árs 1957, Nú veit ég / Sextán tonn en þar söng Haukur undir leik KK sextettsins. Um sumarið bárust hins vegar fréttir af því að Haukur og hljómsveit Gunnars Ormslev væru á leið til Sovétríkjanna og myndi leika á heimsmóti æskunnar í Moskvu en um hundrað og áttatíu manna hópur íslenskra ungmenna voru á leið á það sama mót. Upphaflega stóð til að þeir myndu leika á þrennum tónleikum en alls urðu þeir tónleikar sextán talsins og varð mikil frægðarför þar sem hljómsveitin vann til verðlauna á æskumótinu, þar lék sveitin m.a. fyrir 17 þúsund manns í Gorkí garðinum. Upptökur með hljómsveitinni og söng Hauks voru gerðar af hálfu sovéska ríkisútvarpsins og líklega komu einhverjar plötur út með þeim í landinu en upplýsingar um þær eru litlar sem engar, hins vegar bárust einhverjar af þeim upptökum til Ríkisútvarpsins hér heima og hafa varðveist þar. Í Sovétríkjunum 1957 kynntust Haukur og félagar lagi sem síðar var gerður íslenskur texti við og hlaut nafnið Nótt í Moskvu en það kom út í meðförum Ragnars Bjarnasonar síðar, fleiri textar hafa verið gerðir við það lag. Þegar heim var komið söng Haukur með Gunnari og félögum á skemmtistöðunum og um haustið komu út tvær tveggja laga plötur hljóðritaðar hér heima með lögunum P.E.P. / Þér ég ann og Halló… ég skipti… / Lagið hans Guðjóns, lögin sem voru leikin af Orion kvartettnum hlutu þokkalegar viðtökur.

Árið 1958 komu margar plötur út með söng Hauks þótt það væri mjög rólegt framan af. Um sumarið fór Haukur enn og aftur til Kaupmannahafnar til samstarfs við Jörn Grauengård en í þetta sinn voru hljóðrituð níu lög, í kjölfarið fór hann til Svíþjóðar og starfaði þar um tíma með hljómsveit Gunnars Ormslev en alls var Haukur á þriðja mánuð erlendis þetta sumar. Sérstök uppákoma átti sér stað eftir upptökur á lögunum en þá kom í ljós að bæði Haukur og Ragnar Bjarnason höfðu hljóðritað sama lagið Wear my ring around your neck, sem þá hafði notið vinsælda vestur í Bandaríkjunum í flutningi Elvis Presley – Haukur undir nafninu Lóa litla á Brú (við texta Jóns Sigurðssonar) og Ragnar undir Líf og fjör (við texta Ólafs Gauks). Í kjölfarið hófst kapphlaup milli Fálkans og Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur um að koma sinni skífu út á undan í þeirri von um að þeirra framlag yrði ofan á, Lóa litla á Brú vann það kapphlaup og varð afar vinsælt hvort sem það var því að þakka að það kom á undan eða hvort útgáfan höfðaði betur til almennings. Af þessum lögum nutu lög eins og Rock calypso í réttunum, Frostrósir, Lipurtá og Capri Katarina auk Lóu litlu á Brú mestra vinsælda og hafa öll orðið sígild með tímanum rétt eins og svo mörg laga Hauks. Enn ein platan kom svo út fyrir jólin, tveggja laga plata sem Haukur hafði sungið inn á í samstarfi við Erlu Þorsteins úti í Danmörku og þar var lagið Þrek og tár – enn einn stórsmellurinn, sem reyndar fékk ekkert sérlega góða dóma plötugagnrýnenda á þeim tíma en það þótti þunglamalegt, hitt lagið söng Erla ein. Reyndar er upptalningu á útgefnum plötum ársins 1958 ekki lokið því á þessum tíma voru 45 snúninga plötur (7 tommur) að taka við af 78 snúninga plötu (10 tommum) og því komu út slíkar plötur með endurútgáfum af eldri lögum Hauks (og annarra), splitplata Hauks með Erlu var því síðasta 78 snúninga platan með honum. Með tilkomu hins nýja formats á plötunum fækkaði eðlilega útgefnum plötum því nú var orðið svigrúm fyrir fleiri lög á hverri plötu.

Haukur o.fl. ásamt Helgu Marteinsdóttur á Röðli

Framan af árinu 1959 söng Haukur með hljómsveit Árna Elfar á Röðli en var einnig að syngja á svokölluðum SKT kvöldum en það hafði hann gert reglulega í mörg ár á undan, bæði á almennum dansleikjum og í danslagakeppnum SKT (templara), þar fyrir utan söng hann einnig á stórum tónleikum t.d. í Austurbæjarbíói en oft voru haldnir þar miðnæturtónleikar með vinsælasta tónlistarfólki landsins. Um vorið fór Haukur svo eins og svo oft áður til Kaupmannahafnar og þar voru hljóðrituð sex lög með Jörn Grauengård og félögum en þau lög komu út á tveimu smáskífum um sumarið, önnur þeirra var fjögurra laga og bar nokkurn keim af landhelgismálinu svokallaða en Íslendingar áttu þá í harðvítugri landhelgisdeilu við Breta, þar voru lögin Í landhelginni (12 mílur), Heima, Landleguvalsinn (sem kom úr SKT-danslagakeppni) og Simbi sjómaður en síðast talda lagið var samið af Hauki sjálfum eins og fyrr hefur verið nefnt og kom nú loks út á plötu. Öll lögin nutu nokkurra vinsælda en einnig kom út önnur smáskífa – tveggja laga með lögunum Við fljúgum (Loftleiðavals) og Ciao, ciao bambina. Utanlandsferðum Hauks var ekki lokið þetta árið því hann fór ásamt hljómsveit sem sett var sérstaklega saman undir nafninu Heklukvartettinn, til Vínar og lék þar á heimsmóti æskunnar líkt og í Moskvu tveimur árum fyrr.

Haukur starfaði áfram með hljómsveit Árna Elfar árið 1960 og um það leyti var hann einnig að ritstýra og skrifa Laugardagssíðuna svokölluðu í Alþýðublaðinu, hann hafði þá eitthvað verið að gefa út texta- og nótnahefti með tónlist og síðar átti hann eftir að gefa út unglingatímaritið Húrra. Samstarfið við Jörn Grauengård hélt áfram og um sumarið voru enn hljóðrituð sex lög í Kaupmannahöfn en Haukur tók jafnframt lagið með hljómsveit Danans á skemmtistöðum í borginni, hann fór einnig til Noregs og Englands þetta sumar og skemmti þarlendum auk þess að fara í nokkur útvarpsviðtöl. Hauki hafði þarna boðist að flytja út bæði til Danmerkur og Noregs til að sinna tónlistinni þaðan en hann hafði ekki áhuga á því, hann leit miklu fremur til Englands en þar var torsótt að fá atvinnuleyfi svo úr því varð ekki.

Haukur Morthens

Afraksturinn af upptökunum leit dagsins ljós síðsumars og þeirra á meðal var tveggja laga plata á ensku, gefin út fyrir Evrópumarkað og Norðurlöndin. Sú plata hafði að geyma enska útgáfu af Simba sjómanni sem nú hafði hlotið titilinn Lonesome sailor boy – hitt lagið var Black angel. Þýski söngvarinn Otto Brandenburg hafði svo gefið lagið svo út í Þýskalandi 1959 undir nafninu Simbi Sölvarson við nokkrar vinsældar þar en sagan segir að sú skífa hafi selst í um 80 þúsund eintökum – hvernig sem á því stendur hlaut Haukur aldrei krónu fyrir þá útgáfu. Til stóð að Brandenburg myndi einnig gefa lagið út á dönsku í Danmörku en ekki finnast heimildir um það, hún virðist hafa komið þar út á þýsku. Hin lögin fjögur komu út á tveggja laga plötum, annars vegar Gústi í Hruna / Fyrir átta árum og Með blik í auga / Síldarstúlkan, og enn bættist í hóp stórsmella af hálfu Hauks. Að þessu sinni komu plöturnar út undir merkjum Faxafóns, útgáfufyrirtækis sem Haukur stofnaði sjálfur til að gefa plöturnar út en Fálkinn hafði þá snúið sér að klassíska geiranum og hætt að gefa út dægurlagatónlist (í bili).

Segja má að hlutirnir hafi verið í nokkuð föstum skorðum þarna, Haukur starfaði með hljómsveit Árna Ísleifs á Röðli yfir vetrartímann en á sumrin fór hann utan til að sinna upptökum og öðrum málum. Þannig fór hann enn til Danmerkur og Noregs sumarið 1961, dvaldi þar um tveggja mánaða skeið og söng þá bæði á tónleikum og dansleikjum auk þess að mæta í útvarpsviðtöl og slíkt enda var Haukur orðinn nokkuð þekktur í löndunum tveimur, einkum í Danmörku.

Um áramótin 1961-62 bar svo við að Haukur hætti samstarfinu við Árna Elfar þegar honum bauðst að vera með eigin hljómsveit í Klúbbnum, þar með varð Hljómsveit Hauks Morthens að veruleika og hann gat bætt titlinum hljómsveitarstjóri við ferilskrána. Hljómsveit Hauks var húshljómsveit í Klúbbnum lengi vel en hann átti eftir að starfrækja hana með ýmsum mannabreytingum næstu árin, miklar breytingar voru um þetta leyti að verða á íslensku skemmtanalífi, KK-sextettinn var að hætta um þetta leyti og kynslóðabil hafði myndast þar sem 68‘ kynslóðin var að koma til sögunnar með gítar-, bítla- og svo hippatónlist sem reyndar var ekki orðið að veruleika ennþá en blikur voru á lofti.

Hljómsveit Hauks Morthens

Sumarið 1962 fór Haukur með hljómsveit sína á sitt þriðja heimsmót æskunnar sem að þessu sinni fór fram í Helsinki í Finnlandi en að því loknu fóru þeir félagar yfir til Sovétríkjanna til tónleikahalds og þaðan til Póllands og Ungverjalands (af því er áætlanir gerðu ráð fyrir þótt óljóst sé hvort þau plön gengju eftir). Tveggja laga plata kom út um mitt ár með Hauki en litlar upplýsingar er að finna um hana, hún kom út undir merkjum Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur og var hljóðrituð í Noregi undir hljómsveitarstjórn Sigurd Jansen og hefur hún því hugsanlega verið hljóðrituð sumarið 1961. Á plötunni er að finna lögin Áður oft ég hef arkað þennan veg og Hulda en síðarnefnda lagið er lagið Walk the line (e. Johnny Cash) sungið með norskum bakraddasöngkonum, hitt lagið var úr söngleiknum My fair lady. Um haustið komu svo út tvær plötur á vegum Fálkans sem þá hafði líklega endurskoðað hugmyndir sínar um útgáfu klassíkur eingöngu, þær plötur höfðu að geyma lögin Vorið er komið / Smalastúlkan og Í hjarta þér / Í faðmi dalsins og höfðu líklega verið hljóðritaðar um sumarið hér heima á Íslandi en náðu ekki að heilla almenning með eins afgerandi hætti og flestar plötur Hauks þar á undan. Það sama má segja um tvær plötur sem komu út í upphafi árs 1963 með lögunum Blátt lítið blóm eitt er / Vinarkveðja og Vorið er komið / Blátt lítið blóm eitt er (reyndar er óvissa um hvort síðarnefnda platan kom út) en það var Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur sem annaðist útgáfu þeirra.

Hljómsveit Hauks starfaði áfram í Klúbbnum um veturinn 1962-63 og um sumarið 1963 fóru þeir félagar til Noregs þar sem tvö lög, Tóta litla tindilfætt og Hlíðin mín fríða voru hljóðrituð en í beinu framhaldi af því héldu þeir til Danmerkur þar sem þeir léku á dansleikjum um sumarið en einnig eitthvað í Svíþjóð og Noregi, en komu heim um miðjan september. Fljótlega eftir að þeir komu heim kom út eins konar safnplata með lögum Hauks, fyrsta breiðskífa í hans nafni sem Fálkinn gaf út undir nafninu Haukur Morthens syngur. Á þeirri plötu gat að líta sextán lög – tíu þeirra höfðu áður komið út á 78 snúninga plötum á sjötta áratugnum og verið ófáanleg um nokkurra ára skeið en hin sex höfðu verið hljóðrituð í Landsímahúsinu undir stjórn dansks upptökustjóra en hljómsveit Hauks leikið undir söng hans, sum þeirra höfðu komið út áður í öðrum útgáfum á 78 snúninga plötum. Um svipað leyti kom svo út smáskífan sem hljóðrituð hafði verið um sumarið, undir merkjum Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur.

Haukur og hljómsveit hans tóku til við að leika í Glaumbæ þegar þeir komu heim um haustið og störfuðu þar um veturinn 1963-64 en fóru svo í mars enn utan til Kaupmannahafnar þar sem þeir léku á skemmtistaðnum Exalon um tveggja mánaða skeið, sveitin hafði aðlagað sig nokkuð að því sem þá var að gerast í tónlistarheiminum og var t.d. með Bítlalög á prógrammi sínu en Haukur varð um þetta leyti fertugur og því ekki beinlínis unglamb í augum yngri kynslóða á þeim tímum. Að þessari ferð lokinni var ferðinni heitið til Færeyja þar sem sveitin lék um tveggja vikna skeið en hjónin Ólafur Gaukur og Svanhildur Jakobsdóttir slógust í þá för með Hauki og félögum. Um það leyti sem þau komu aftur heim til Íslands um sumarið kom tveggja laga plata (Amorella / Hafið bláa) út og í kjölfarið lék sveitin og Haukur á héraðsmótum víðs vegar um landið um sumarið, Haukur hafði þá ekki sungið á landsbyggðinni í háa herrans tíð en sumarið náði svo hámarki um verslunarmannahelgina þar sem sveitin skemmti í Sjallanum á Akureyri. Síðla sumars kom út önnur smáskífa (Kvöldið er fagurt / Lífsgleði njóttu) en báðar þær smáskífur voru gefnar út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur.

Haukur árið 1962

Um haustið 1964 fór Haukur utan til Finnlands til að syngja og í kjölfarið til Kaupmannahafnar til að hljóðrita tveggja laga jólasmáskífu sem ráðgert var að kæmi út fyrir jólin, þeim fyrirætlunum var hins vegar snarlega breytt í tuttugu laga breiðskífu sem hljóðrituð var í fljótheitum undir hljómsveitarstjórn Ólafs Gauks sem jafnframt lék á gítar en félagar úr hljómsveit Jörn Grauengård léku með honum á plötunni. Menn voru ekkert að tvínóna við hlutina og aðeins fimm vikum eftir upptökurnar kom platan út á Íslandi á vegum Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur undir titlinum Hátíð í bæ: 20 jóla- og barnasöngvar. Skýringuna á hraðanum má líklega finna í því að á sama tíma voru SG-hljómplötur undir stjórn Svavars Gests að gefa út fjögurra laga jólasmáskífu með Ragnari Bjarnasyni og Elly Vilhjálms sem vitað var að myndi slá í gegn, og að það yrði sterkur leikur að mæta því með útgáfu jólabreiðskífu sem var þá um leið fyrsta „létta“ jólaplatan (breiðskífan) sem komið hefði út á Íslandi en Þuríður Pálsdóttir hafði sent frá sér Jólasálma nokkrum árum fyrr. Tiltækið heppnaðist prýðilega því jólaplata Hauks sló í gegn, seldist fljótlega upp og þótt smáskífa þeirra Ragnars og Ellyjar hefði vissulega gert það líka er ekki víst að tveggja laga jólaplata með Hauki hefði getað keppt við hana, skífan hlaut ennfremur ágæta dóma í Tímanum og Alþýðublaðinu og þess má einnig geta að Haukur Morthens – sonur Hauks og alnafni prýðir myndina framan á umslagi plötunnar – á því sama umslagi gat reyndar að líta meinlega villu þar sem stóð „Útsetning: Ólafur Haukur“ en snarlega hafði verið bætt úr þeim mistökum þegar platan var endurútgefin og þá stóð „Útsetning Ólafur Gaukur“.

Haukur söng með hljómsveit Guðjóns Pálssonar um veturinn en þegar nær dró vori 1965 endurreisti hann sína hljómsveit með nýjum mannskap og fór þá um sumarið m.a. vestur til Bandaríkjanna í sína fyrstu ferð þangað, hann söng m.a. fyrir landa sína í Íslendingafélaginu í Los Angeles og var einnig í New York um tíma. Um haustið stóð til að út kæmi smáskífa með lögunum Nótt í Nauthólsvík og Fitlað við strengi en af einhverjum ástæðum varð ekki af útgáfu þeirrar plötu. Hljómsveit Hauks starfaði hins vegar áfram næsta vetur og lék mest þá í Sigtúni en einnig í Klúbbnum og líklega fleiri stöðum. Nú var svo komið að Haukur gerði sér ljóst að aðrir höfðu tekið við keflinu og því voru ekki fleiri smáskífur gefnar út í hans nafni að sinni – hann vék því fyrir bítla- og blómasveitum á borð við Hljóma, Dáta o.fl. á útgáfumarkaðnum og færði sig smám saman yfir í skuggann þar sem hann hafði þó nokkuð að gera á dansstöðum eldri kynslóðanna.

Haukur Morthens

Það fór því nokkuð lítið fyrir Hauki Morthens á síðari hluta sjöunda áratugarins og fram á þann áttunda miðað við áratuginn á undan, hann var þó iðulega með eigin sveit sem lék t.d. á Hótel Sögu og Borginni en söng einnig með hljómsveit Elfars Berg og e.t.v. fleiri sveitum. Mitt í þessum rólegheitum sendi hann svo óvænt frá sér fjórtán laga breiðskífu sem bar nafnið Með beztu kveðju sem hann gaf út árið 1968 undir eigin útgáfumerki Faxafón, skífan var hljóðrituð í Kaupmannahöfn og á henni lék hljómsveit undir stjórn Eyþórs Þorlákssonar. Platan hlaut ágætar viðtökur gagnrýnenda Tímans og Morgunblaðsins en að öðru leyti fór lítið fyrir henni og hún virðist hafa verið gefin út í fremur litlu upplagi, hún hefur verið illfáanleg síðustu áratugina en hún kom einnig út á kassettuformi löngu síðar (1977) sem er alveg ófáanleg. Titillag plötunnar var eftir Hauk sjálfan. Haukur hafði nú lagt atvinnumennsku í tónlist á hilluna þótt hann starfaði alltaf við hana aukreitis, en hann varð nú stefnuvottur að aðalstarfi. Það starf hentaði prýðilega hvað vinnutíma snertir en Haukur þurfti sem tónlistarmaður að fást við óreglulegan vinnutíma og reyndar kom einnig fyrir að hann fór erlendis til að leika fyrir Íslendingafélög t.d. í New York.

Árið 1974 gerðu Haukur og SG-hljómplötur með sér samning um útgáfu plötu í tilefni af þrjátíu ára söngafmælis Hauks en þá voru jafnframt tuttugu ár síðan fyrsta plata hans kom út. Haukur fór til Kaupmannahafnar í því skyni að hljóðrita plötuna þar undir hljómsveitarstjórn Ólafs Gauks, á þeirri plötu var svo að finna lög sem Haukur hafði áður sent frá sér en í syrpuformi svo úr varð átta syrpu plata með titilinn 24 metsölulög í nýjum útsetningum Ólafs Gauks. Lögin voru því kunnugleg flestum sem komnir voru til vits og ára og platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og Tímanum.

Haukur hætti aldrei í tónlistinni þótt lítið færi fyrir honum, hann var alla tíð með eigin hljómsveit og tryggan aðdáendahóp sem hann skemmti m.a. á Hótel Sögu yfir sumartímann en þar var húshljómsveitin, Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar í pásu meðan hún flæktist um landsbyggðina um sumarið undir nafninu Sumargleðin. Á þessum árum sneri Haukur sér í auknum mæli að félagsmálum tónlistarmanna og hann var um tíma t.a.m. formaður Félags íslenskra dægurlagahöfunda auk þess að gegna nefndar- og trúnaðarstörfum fyrir Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), hann starfaði einnig fyrir alþýðuflokkinn lengi vel.

Haukur um 1980

En svo kom að því að Haukur lét til sín taka á nýjan leik á útgáfusviðinu, fjórtán laga plata með honum var hljóðrituð í Kaupmannahöfn í nóvember 1978 undir upptökustjórn Birger Svan, þar sem Paul Godske píanóleikari úr hljómsveit Jörn Grauengård stjórnaði hljómsveitarleik undir söng Hauks. Fáein laganna hafði Haukur áður gefið út í öðrum útsetningum en flest þeirra höfðu ekki komið út í flutningi hans áður, þeirra á meðal má nefna titillagið Nú er Gyða á gulum kjól en það var eftir Hafnfirðinginn Friðrik Bjarnason og hafði verið á lagaprógrammi drengjakórsins sem Haukur söng með á barnsaldri undir stjórn Jóns Ísleifssonar. Platan náði að koma út fáeinum dögum fyrir jólin en ekki nógu snemma til að taka að neinu leyti þátt í jólaplötuflóðinu, og fór hún því fyrir ofan garð og neðan en Faxafón gaf hana út. Haukur var þó ekki af baki dottinn, hann hélt sínu striki í söngnum og nú tók við tímabil sem kenna mætti við Skálafell á Hótel Esju þar sem hann skemmti – stundum með Eyþóri Þorlákssyni eða Jónasi Þóri en einnig hinum og þessum.

Menn voru nú smám saman farnir að vakna til lífsins og átta sig á framlagi Hauks til íslenskrar tónlistar og árið 1979 hlaut hann listmannalaun fyrstur dægurlagasöngvara, í upphafi árs var hann jafnframt gerður að heiðursgesti á Stjörnumessu Dagblaðsins og Vikunnar og þar tók hann lagið með Mezzoforte sem var ung og efnileg bræðingssveit sem síðar átti eftir að gera það gott. Sú uppákoma varð kveikja að frekari samstarfi þeirra í milli, söngvarans sem þarna var kominn vel á sextugs aldur og hinna ungu tónlistarmanna í Mezzoforte en þetta var í fyrsta sinn sem Mezzoforte kom fram með söngvara, og svo fór að um haustið kom út breiðskífa sem var afrakstur þessa samstarfs undir nafninu Lítið brölt. Öll lög plötunnar voru eftir Jóhann Helgason (og flestir textanna) og nokkur þeirra náðu vinsældum eins og Ég hugsa heim, Sveitin mín, Vorið kom og Við freistingum gæt þín, en platan fékk mjög misjafna dóma, t.d. mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Tímanum en slakari í Dagblaðinu og Stúdentablaðinu. Á plötunni söng 11 ára gömul söngkona Nini de Jesus með Hauki í einu laganna og vakti töluverða athygli. Haukur og Mezzoforte komu eitthvað fram saman til að kynna plötuna, m.a. í Hollywood og einnig var gerður sjónvarpsþáttur með þeim. Platan var svo endurútgefin á geisladisk árið 1996, aukin að efni.

Á nýju ári (1981) var Haukur meðal söngvara sem sungu í Söngvakeppni Sjónvarpsins, dægurlagakeppni sem haldin var á vegum Ríkissjónvarpsins en þá keppni sigraði lagið Af litlum neista sem Pálmi Gunnarsson söng. Samstarfið við Mezzoforte hélt hins vegar áfram og um sumarið var tveggja laga smáskífa hljóðrituð sem kom svo út um haustið, hún hafði að geyma lögin Tilhugalíf / Hvert liggur leið en vakti ekki mikla athygli. Haukur túraði hins vegar með hljómsveitinni Aríu um sumarið og skemmti fólki um allt land.

Haukur og hluti hljómsveitarinnar Mezzoforte

Þetta sumar var Hauki boðið að koma fram á Íslendingahátíð í Los Angeles sem staðgengill fyrir Egil Ólafsson Stuðmann en sú sveit var þá stödd í Englaborginni hjá Jakobi Frímanni Magnússyni (sem þar var búsettur) til að vinna að undirbúningi Stuðmannamyndarinnar Með allt á hreinu. Þessi Ameríkuför varð að sumu leyti sneypuför hjá Hauki fyrir einskæra óheppni, og ekki er laust við að sú ímynd sem fólk hafði af þessum fágaða séntilmanni hefði beðið nokkuð hnekki hefði hún farið hærra en hún gerði. Haukur var svo óheppinn að kvefast illilega í fluginu vestur um haf og þegar hann sté á svið með Stuðmönnum var hann raddlaus og kom ekki upp orði, hafi það ekki verið nógu slæmt fyrir hann þá sólbrann hann einnig illa daginn eftir meðan hann jafnaði sig eftir áfallið. Í sárabætur buðu Stuðmenn honum að koma fram í myndinni og syngja lagið Örlög mín en Haukur afþakkaði það, og Jakob Frímann hafði það á tilfinningunni að Haukur héldi að þeir væru að gera gys að sér – eins og hann lýsti því í bók sinni Með sumt á hreinu. Þar fyrir utan hafði Jakob Frímann beðið Hauk að kippa með sér nokkur hundruð SS-pylsum með sér yfir hafið fyrir Íslendingahátíðina og það eitt og sér passar illa við ímynd Hauks. Þess má geta tengt þessu að þótt Haukur kæmi ekki fram í Stuðmannamyndinni þá nefndu Stuðmenn hann síðar í eina laga sinna – Búkalú, þar sem segir: Það sem Bubba Morthens þykir gott og gilt / þykir Hauki frænda vera heldur tryllt.

Um haustið 1981 bárust þær fregnir að Haukur og Mezzoforte væru enn í samstarfi, plata væri í bígerð og sá afrakstur leit svo dagsins ljós á jólaplötunni Jólaboð sem kom út í nóvember. Það var þá önnur jólabreiðskífa Hauks en sú fyrri frá 1964 var þá auðvitað löngu uppseld þótt hún hefði í nokkur skipti verið endurútgefin. Jólaboð fékk góða dóma í Degi og Morgunblaðinu.

Í febrúar 1982 var haldin vegleg afmælishátíð í tilefni af 50 ára afmæli FÍH og meðal annars voru haldnir afmælistónleikar sem voru hljóðritaðir og gefnir út á tvöfaldri plötu, Haukur var meðal flytjenda á þeirri plötu en þar lék hann við undirleik hljómsveitar. Hann var sem fyrr mikið að syngja á Skálafelli á Hótel Esju og reyndar einnig Broadway en hélt einnig sjálfur feriltónleika í Austurbæjarbíói um vorið, þá var jafnframt heilmikið að gera í „útrásinni“ hjá Hauki en hann fór um svipað leyti til Kaupmannahafnar til að syngja þar í klúbbi og um sumarið hélt hann á Íslendingaslóðir í Winnipeg í Kanada þar sem hann var óvænt gerður að heiðursborgara þar. Um haustið tóku við nýjar áskoranir hjá Hauki, annars vegar kom hann fram í leiksýningu og hins vegar söng hann einsöng á tónleikum með karlakórnum Stefni í Mosfellssveit en hann hafði þá aldrei gert slíkt áður.

Haukur árið 1988

Næstu árin voru með svipuðum hætti og utanferðunum fækkaði ekki þótt Haukur væri kominn að og yfir sextugt, hann söng sem oft áður í Kaupmannahöfn, fór í tónleikaferð um Færeyjar, söng á þorrablóti Íslendinga í Chicago í Bandaríkjunum og síðar í Los Angeles, kom fram með hljómsveit á Íslandskynningu í Luxemborg og fór með tríói Guðmundar Ingólfssonar til Austur-Þýskalands, Danmerkur og Færeyja svo það var ærið nóg að gera hjá honum. Skálafell, Hótel Ísland, Naustið og Skíðaskálinn í Hveradölum voru staðirnir hér heima en einnig tóku málin stundum óvænta stefnu eins og þegar hann tók lagið (Lóu litlu á Brú) með Bubba frænda sínum og Megasi á djasskvöldi á Hótel Borg, og svo aftur síðar.

Árið 1984 var blásið til viðburða af ýmsu tagi í tilefni af 60 ára afmælis Hauks. Stórir afmælistónleikar voru haldnir í Háskólabíói þar sem fjöldi tónlistarfólks kom fram, þeirra á meðal má nefna stórsveit undir stjórn Paul Godske píanóleikara, Bubba Morthens bróðurson Hauks o.fl. Og af sama tilefni kom út safnplata því ekki aðeins var um 60 ára afmæli Hauks að ræða heldur einnig 40 ára söngafmæli, platan bar nafnið Melódíur minninganna og á henni söng Haukur úrval laga sem sum hver höfðu áður komið út með honum í öðrum útsetningum en einnig voru fáeinar gamlar upptökur á plötunni.

Hljómplötuútgáfan Taktur hafði eignast útgáfuréttinn af katalóg Fálkans og hóf að gefa út safnplötur undir heitinu Gullnar glæður og var Haukur fyrstur í röð þeirra, sú plata kom út 1988 og hafði að geyma tutttugu og sex lög frá ferli Hauks, þetta var síðasta platan sem kom út meðan Haukur lifði.

Haukur hafði haldið sínu striki og var nú auðvitað löngu kominn í hóp klassískra dægurlagasöngvara og á stall með Ragnari Bjarnasyni, Erlu Þorsteins, Vilhjálmi og Elly Vilhjálms og fáeinum öðrum, og var af þeim ástæðum eftirsóttur skemmtikraftur þótt hann væri kominn á sjötugs aldur, hann var t.a.m. fenginn ásamt Erlu til að vígja nýjan sal á Hótel Íslandi, Ásbyrgi og sem dæmi um þá virðingu sem hann naut má nefna að Sykurmolarnir gerðu sér ferð upp í Skíðaskálann i Hveradölum til að hlýða á söngvarann og sú sveit lék lög hans af bandi fyrir tónleika sína erlendis. Þá er vert að nefna að innan Sykurmolanna (og fleiri sveita) var stofnuð hljómsveit sem gekk undir nafninu Jazzhljómsveit Konráðs Bé en hún kom fram í fáein skipti og lék fimmta og sjötta áratugs standarda í anda Hauks (og fleiri söngvara), og í kjölfarið varð karakterinn Bogomil Font til – afsprengi Hauks Morthens og annarra ef svo mætti segja. Og menn voru á þessum tíma duglegir að heiðra Hauk, áður hafa verið nefndar fáeinar slíkar viðurkenningar en nú bættust við heiðursverðlaun Landslagsins, heiðursverðlaun STEF og fálkaorðan sem öll voru fyrir framlag hans til tónlistarinnar og útbreiðslu hennar en einnig var hann heiðraður fyrir aðkomu sína að bindindismálum af Stórstúku Íslands – IOGT en hann var sem fyrr segir mikill bindindismaður á vín og tóbak.

Haukur Morthens

En hlutirnir gerðust nú hratt, þegar hér var komið sögu hafði Haukur veikst af lungnakrabba sem var eflaust afleiðing þess að syngja fyrir fullum sölum af reykjandi fólki í marga áratugi, kaldhæðni örlaganna fyrir mann sem aldrei hafði reykt. Þau veikindi lögðu Hauk að lokum að velli haustið 1992 en hann var þá 68 ára gamall, hann hafði síðast sungið opinberlega á veitingastaðnum Naustinu á nýársdag í upphafi þess árs. Þar með var genginn einn fremsti dægurlagasöngvari íslenskrar tónlistarsögu og það eru víst varla ýkjur þegar sagt er að Haukur sent frá sér á þriðja tug klassískra dægurlagaperla sem allar kynslóðir þekkja enn í dag og munu sjálfsagt gera um aldur og ævi – mér má nefna Ó, borg mín borg, Lóa litla á Brú, Þrek og tár, Hæ mambó, Kaupakonan hans Gísla í Gröf, Simbi sjómaður og Til eru fræ svo aðeins fáeinar slíkar perlur séu nefndar, enda hafa fjölmargar safnplötur verið gefnar út í nafni Hauks eftir andlát hans og þau lög skipta sjálfsagt tugum eða jafnvel hundruðum sem ratað hafa á aðrar safnplötur. Haukur var ekki aðeins fyrsta flokks söngvari heldur var hann fagmaður fram í fingurgóma varðandi allt sem viðkom tónlistinni, hann var alltaf vel undirbúinn, gerði gæðakröfur um textana sem hann söng – að þeir væru vel ortir og á góðri íslensku, og bar auk þess með sér góðan þokka, var snyrtilegur séntilmaður og fágaður í allri framkomu sem fyrr segir.

Skipta má ferli Hauks í tvennt – annars vegar mætti tala um fyrra tímaskeiðið á árunum 1950 til 64 þegar hann var vinsæll dægurlagasöngvari og söng á ótal skemmtunum samhliða því að gefa út fjölda vinsælla platna, því skeiði lauk þegar bítlar og blómabörn tóku við keflinu og Haukur dró sig í hlé en hætti þó aldrei að syngja. Síðara skeiðið hófst á öndverðum áttunda áratugnum og hélst fram í andlátið þar sem hann var orðinn einn af þeim „gömlu“ sem yngri kynslóðirnar báru virðingu fyrir enda hafði þá orðið eins konar nostalgíuvakning hér á landi, á því skeiði var hann ekki að senda frá sér neina stórsmelli en hélt sinni reisn sem söngvari á sviði alla tíð.

Minningu Hauks hefur allt frá árinu 1992 verið haldið hátt á lofti og með margs konar hætti, minningarkvöld var haldið um hann í Jónshúsi í Kaupmannahöfn fljótlega eftir andlát hans og haustið 1993 kom út bókin Til eru fræ: Haukur Morthens – saga söngvara og séntilmanns, skráð af Jónasi Jónassyni en sú bók hafði verið í vinnslu þegar Haukur lést. Vorið 1994 voru haldnir minningartónleikar um hann á Hótel Sögu en hann hefði um það leyti orðið sjötugur, þar kom fram fjöldi þekkts tónlistarfólks s.s. Páll Óskar, Björgvin Halldórsson, Skapti Ólafsson, Hjördís Geirs og Stefán Heilmarsson en flestir fjölmiðlar gerðu þeim tónleikum og ferli Hauks góð skil, í kjölfarið var stofnaður menningar- og styrktarsjóður í minningu Hauks. Um svipað leyti setti Leikfélag Fljótsdalshéraðs söngleik á svið byggðan á lögum Hauks undir nafninu Hér stóð bær. Þá má geta þess að þegar Jón Kr. Ólafsson opnaði tónlistarsafn sitt á Bíldudal nefndi hann það Melódíur minninganna, rétt eins og titill einnar plötu Hauks.

Haukur Morthens

Haustið 1995 kom út plata með Bubba Morthens þar sem hann söng lög sem Haukur frændi hans hafði gert vinsæl, platan bar titilinn Í skugga Morthens og á henni var m.a. að finna samsöng þeirra á laginu Ó borg, mín borg sem unnin var með nútímatækni þess tíma. Aldamótaárið 2000 kom út vegleg tvöföld safnplata á vegum Íslenskra tóna sem var undirútgáfa Skífunnar (síðar Senu) en fyrirtækið hafði þá eignast útgáfuréttinn sem Taktur (og áður Fálkinn) hafði haft undir höndum, sú útgáfa innihélt fjörutíu og sex lög Hauks. Ári síðar gaf Ríkisútvarpið út plötuna Haukur Morthsn og hljómsveit hans úr útvarpsþáttum 1966-68 en sú plata var hluti af útgáfuröðinni Útvarpsperlur og hafði að geyma eins og titillinn gefur til kynna úrval úr upptökum Ríkisútvarpsins. Og víst er að nóg er til af slíkum upptökum hjá Ríkisútvarpinu eins og nefnt er hér ofar enda mun „sjóræningjaútgáfa“ Sigurjóns Samúelssonar á Hrafnabjörgum hafa að geyma vel á annað hundrað laga úr fórum RÚV. Íslenskir tónar gáfu út aðra safnplötu með Hauki Morthens árið 2005 í safnseríunni Brot af því besta en sú plata inniheldur tólf lög og sama ár gaf djasstríóið Flís út plötuna Vottur, þar sem það flytur fimmtán lög úr ranni Hauks og heiðrar söngvarann þar, reyndar með ósungnum útgáfum laganna. Íslenskir tónar héldu áfram að heiðra minningu Hauks með útgáfu safnplatna því árið 2008 kom út þreföld plata með alls sextíu og sex lögu undir nafninu Með blik í auga, og árið 2011 var jólaplata hans frá 1964 Hátíð í bæ endurútgefin bæði á geisladisk og á vínylplötuformi, hún hafði verið endurútgefin árið 1994 á geisladisk af Faxafóns-útgáfunni en nú var það útgáfufyrirtækið Frost ehf sem gaf hana út með nýju útliti (sem skiptar skoðanir voru um), og Alda music átti svo eftir að gefa hana út í enn eitt skiptið árið 2019 á vínyl. Helgi Björnsson heiðraði minningu Hauks Morthens með plötu árið 2015 sem kallaðist Helgi syngur Hauk en á henni naut hann aðstoðar þýskrar stórsveitar, The Capital dance orchestra en platan var tileinkuð minningu Hauks. Og enn kom út veglegt safn árið 2016, gefið út af Öldu music (sem hafði nú eignast útgáfuréttinn) undir nafninu Bestu lögin, annars vegar sem tvöföld vínylútgáfa með þrjátíu laga safni og hins vegar sem tvöföld geisladiskaútgáfa með fjörutíu og tveimur lögum. Það er allt eins víst að fleiri slíkar safnútgáfur og minningarplötur um Hauk eigi eftir að líta dagsins ljós hvort sem það verður í efnislegu formi eða stafrænu eingöngu.

Af framangreindu er ljós að nafni Hauks Morthens verður áfram haldið á lofti og víst er að tónlist hans lifir um ókomna tíð þótt hann sé sjálfur horfinn af sjónarsviðinu.

Efni á plötum