Heimavarnarliðið [1] (1979-82)

Heimavarnarliðið

Heimavarnarliðið var ekki eiginleg hljómsveit heldur eins konar tónlistarhópur sem kom að tveimur plötum sem komu út í kringum 1980, hópurinn var ekki nema að litlu leyti skipaður sama fólkinu á plötunum tveimur en laut tónlistarstjórn Sigurðar Rúnars Jónssonar á þeim báðum.

Upphaf Heimavarnarliðsins má líklega rekja til baráttufundar í Háskólabíói þann 31. mars 1979 en þá var þess minnst að þrjátíu ár væru liðin frá inngöngu Íslands í NATO. Á þeim fundi voru nokkur tónlistaratriði og m.a. hafði Sigurður Rúnar Jónsson fengið sönghópinn Kjarabót og nokkra vini sína úr poppinu og Sinfóníuhljómsveit Íslands til að koma fram með tónlistaratriði sem hann útsetti og stjórnaði. Tiltækið þótti vel heppnað og í kjölfarið var farið í hljóðver og efni á heila plötu tekið upp um vorið, og gefið út af miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga undir nafninu Heimavarnarliðið en platan bar heitið Eitt verð ég að segja þér… sem var upphafslína Völuvísu, ljóðs Guðmundar Böðvarssonar sem sungið var af Ragnhildi Gísladóttur. Völuvísa naut mikilla vinsælda og það gerði einnig lagið Fylgd (einnig við ljóð Guðmundar) sem Pálmi Gunnarsson söng en bæði lögin voru samin af Sigurði Rúnari (sem samdi fyrrnefnda lagið ásamt Auði Haraldsdóttur). Þá voru tvö lög sem sönghópurinn Kjarabót söng, Ísland úr NATO og Þú veist í hjarta þér, einnig nokkuð vinsæl en margir muna sjálfsagt einnig eftir útgáfu hljómsveitarinnar Hjálma af síðarnefnda laginu, og hér má einnig nefna lagið Blátt svo blátt sungið af Bergþóru Árnadóttur.

Alls komu um fjörutíu manns við sögu á plötunni, sönghópurinn Kjarabót eins og fyrr er nefndur og svo þekkt tónlistarfólk eins og Ragnhildur, Pálmi, Björgvin Gíslason, Sigurður Karlsson, Jón Ólafsson, Pétur Hjaltested, Karl J. Sighvatsson og sautján manna hópur úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Platan hlaut ágæta dóma í Lesbók Morgunblaðsins og Tímanum, og þokkalega í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar.

Hluti hópsins sem kom að síðari plötunni

Ekki voru þó allir sáttir við vinsældir Heimavarnarliðsins og þegar lesendabréf birtist í Dagblaðinu þess efnis að allt of mikið væri spilað af plötunni í Ríkisútvarpinu (á þeim tíma var enn bara ein útvarpsstöð), lét útvarpsráð í kjölfarið gera könnun á spiluninni og þá kom reyndar í ljós að þarna um haustið voru lög af plötunni mest spiluð af öllum, og þurftu flytjendur eins og Skrýplarnir og Brunaliðið að lúta fyrir vinsældum Heimavarnarliðsins. Lesendabréfið snerist þó mestmegnis um þau pólítísku skilaboð sem fólgin voru í textum sumra laganna. Heimavarnarliðið sem var auðvitað ekki starfandi hljómsveit, kom þó eitthvað fram í kjölfar útgáfu plötunnar en þar voru þá þá ferð Kjarabótar-sönghópurinn og nokkrir hljóðfæraleikarar.

Nokkur tími leið þar til aftur heyrðist til Heimavarnarliðsins, um vorið 1981 bárust fréttir að því að Sigurður Rúnar væri að vinna að annarri plötu í nafni sveitarinnar og á hinum árlega fundi Samtaka herstöðvaandstæðinga fékk hann gesti fundarins (um 1000 manns) til að syngja tvö viðlög við lög sem áttu að vera á plötunni en hann var þá með upptökutæki í Háskólabíói þar sem fundurinn fór fram. Umrædd plata kom þó ekki út fyrr en eftir áramótin 1981-82 eftir einhverjar tafir í framleiðslu en hún bar nafnið Hvað tefur þig bróðir? Hún kom út í fremur takmörkuðu upplagi en á henni var ekki að finna nema lítinn hluta þeirra sem komu við sögu fyrri plötunnar, Sigurð Rúnar sjálfan og Bergþóru Árnadóttur en aðrir liðsmenn Heimavarnarliðsins voru allt aðrir, hljómsveitin Amon Ra lék á plötunni og svo nokkrir söngvarar, Kjartan Ragnarsson, Sverrir Guðjónsson, Guðmundur Hermannsson, Jónína Jörgensen, Jóhanna Linnet, Ingvi Þór Kormáksson og Silja Aðalsteinsdóttir en hún söng þarna inn á sína fyrstu og einu plötuupptöku – lagið Vögguvísa róttækrar móður. Lög og ljóð komu úr ýmsum áttum eins og á fyrri plötunni og hún hlaut ágæta dóma í Þjóðviljanum og Poppbók Jens Kr.

Þar með lýkur sögu Heimavarnarliðsins, lög af plötunum tveimur komu út árið 1999 (ásamt lögum af plötu Böðvars Guðmundssonar – Það er engin þörf að kvarta) á safnplötu sem bar yfirskriftina Baráttusöngvar fyrir friði og þjóðfrelsi, og þau lög voru jafnframt sett á tónlistarvefinn Tónlist.is. Þegar hann leið undir lok hafa aðeins örfá laga Heimavarnarliðsins verið aðgengileg á streymisveitum en plöturnar tvær hafa aldrei konið út á geisladiskum.

Efni á plötum