Helga Ingólfsdóttir (1942-2009)

Helga Ingólfsdóttir

Helga Ingólfsdóttir var brautryðjandi með ýmsum hætti þegar kemur að flutningi barrokk tónlistar hér á landi, hún var t.a.m. fyrstur Íslendinga til að nema semballeik og átti stóran þátt í að koma tónlistarhátíðinni Sumartónleikar í Skálholti á koppinn en þar hefur barrokk tónlistinni verið gert hátt undir höfði alla tíð. Helga var jafnframt fyrst Íslendinga til að gefa út sembalplötu hérlendis.

Helga Ingólfsdóttir fæddist snemma árs í Reykjavík. Hún hóf ung að læra á píanó og lauk einleikaraprófi í píanóleik vorið 1963 en hún var fyrsti nemandinn í Tónlistarskólanum í Reykjavík til að ljúka þar einleikaraprófi, kennari hennar var Rögnvaldur Sigurjónsson. Hún hafði þá nokkru áður byrjað að koma fram á tónleikum sem píanóleikari, meðal annars sem einleikari með hljómsveit tónlistarskólans.

Að loknu náminu hér heima lá leið Helgu til Þýskalands þar sem hún hóf framhaldsnám í píanóleik með semballeik sem aukagrein en ekki leið á löngu þar til semballinn hafði tekið yfir og vorið 1968 lauk hún námi í semballeik fyrst Íslendinga. Að vonum vakti þetta nokkra athygli hér heima og strax það sama haust kom hún í fyrsta sinn fram sem semballeikari í íslenska Ríkissjónvarpinu og lék í sjónvarpssal og þar með má segja að kynning hennar á hljóðfærinu og barrokk-tónlistinni hafi hafist. Ári síðar hélt hún sína fyrstu einleikstónleika á sembal hér á landi þegar hún lék í Norræna húsinu en það var jafnframt í fyrsta sinn sem slíkir tónleikar höfðu verið haldnir hérlendis, Helga fór einnig norður til Akureyrar í sama tilgangi en hún var alla ævi dugleg við tónleikahald og fór jafnvel víða um lönd til þess.

Helga Ingólfsdóttir

Á næstu árum hélt Helga sínu striki, hélt fjölda tónleika og fór með ýmsum tónlistarhópum um landsbyggðina til að kynna barrokktónlist, hér má t.d. nefna Kammermúsíkklúbbinn, Kammersveit Reykjavíkur, Musica Antiqua og Barrokkkvintettinn (sem hún stofnaði sjálf) auk þess sem hún var lausráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá og með 1977 en samhliða þeirri spilamennsku fékkst hún einnig við tónlistarkennslu, hún kenndi bæði við Tónlistarskóla Kópavogs og síðar Tónlistarskólann í Reykjavík (í 30 ár) á píanó og sembal en meðal nemenda hennar má nefna Guðrúnu Óskarsdóttur og Elínu Guðmundsdóttur semballeikara.

Árið 1975 stofnuðu þær Helga og Manuela Wiesler flautuleikari til Sumartónleika í Skálholti ásamt Þorkeli Helgasyni eiginmanni Helgu og þar með var sett á fót tónlistarhátíð sem hefur haldið velli alla tíð síðan þá, þar var barrokktónlist 17. og 18. aldarinnar áberandi en með tímanum hefur áherslan færst í átt að nýsköpun þar sem íslensk tónskáld hafa látið ljós sitt skína og hafa hundruð tónverka verið frumflutt í Skálholtskirkju og mörg þeirra sérstaklega samin fyrir Sumartónleikana með áherslu á að þau væru lögð út af fornum íslenskum söngarfi. Um leið hefur markmiðið verið að hátíðin sé vettvangur fyrir hljóðfæraleik á upprunaleg hljóðfæri og hefur Bach sveitin svokallaða verið fastur liður í tónleikahaldinu en þá sveit stofnaði Helga árið 1980 og var hún lengi vel eina sérhæfða barrokksveitin hér á landi. Auk þess hefur mikill fjöldi annars tónlistarfólks af íslenskum og erlendum toga komið fram í Skálholti en hátíðin stendur yfir í nokkrar vikur í senn yfir sumartímann og hana sækja á þriðja þúsund gesta ár hvert. Fjölmargar plötur hafa aukinheldur verið gefnar út í tengslum við Sumartónleika í Skálholti en einnig hafa komið út plötur í nafni Helgu, hér má nefna plötur sem hún vann í samstarfi við Manuelu Wiesler og Jaap Schröder barrokfiðluleikara. Þess má geta að síðasta plata Helgu, Frá Strönd til fjarlægra stranda var kjörin besta klassíska plata ársins 2005 á Íslensku tónlistarverðlaununum. Þá er hljóðfæraleik hennar einnig að heyra á plötum með t.d. Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Íslands svo dæmi séu nefnd.

Helga Ingólfsdóttir

Helga gegndi ýmsum trúnaðar- og félagsstörfum í þágu tónlistarmanna í gegnum tíðina, hún var t.a.m. í stjórn kennarafélags Tónlistarskólans í Reykjavík, formaður Félags íslenskra tónlistarmanna, formaður Collegium musicum – samtaka um tónlistarstarf í Skálholtskirkju, var í Skálholtsráði o.fl. Hún var frá upphafi listrænn stjórnandi Sumartónleika í Skálholtskirkju en veiktist árið 2004 og dró hún sig þá í hlé frá utanumhaldi tónlistarhátíðarinnar, hún var þó eitthvað áfram formaður stjórnar hátíðarinnar. Langvinn veikindi Helgu lögðu hana loks að velli haustið 2009 en hún var þá aðeins sextíu og sjö ára gömul, minningu hennar hefur verið haldið á lofti með margvíslegum hætti og t.d. má nefna að í tengslum við tónleikaröð sem haldin var árið 2010 í minningu hennar var stofnaður Minningarsjóður Helgu Ingólfsdóttur. Árið 2016 kom út á vegum bókaútgáfunnar Sæmundar bók Kolbeins Bjarnasonar, Helguleikur: Saga Helgu Ingólfsdóttur og Sumartónleika í Skálholtskirkju, þar sem tvinnað var saman sögu tónlistarhátíðarinnar og Helgu – bókinni fylgdu jafnframt sex geisladiskar sem höfðu að geyma upptökur allt frá útskriftartónleikum Helgu árið 1963 og til Tíbrártónleika í Salnum 2003 en upptökurnar höfðu verið unnar fyrir útgáfuna af Bjarna Rúnari Bjarnasyni. Titill bókarinnar, Helguleikur vísar einmitt til tónverks sem Páll Pampichler Pálsson hafði samið fyrir Helgu – það er þó ekki að finna á plötunum.

Helga hlaut margs konar viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistarinnar, hún var heiðursverðlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2005, hlaut fálkaorðuna 2001, var heiðurssveitungi á Álftanesi þar sem hún var lengi búsett, hlaut Menningarverðlaun Dagblaðsins 1980 (ásamt Manuelu Wiesler), Menningarverðlaun DV 1994 og Bjartsýnisverðlaun Bröstes 1994, svo nokkur þeirra helstu séu hér nefnd.

Efni á plötum