Manuela Wiesler (1955-2006)

Manuela Wiesler

Austurríski flautuleikarinn Manuela Wiesler bjó hér á landi um árabil, hún var heimsþekkt í sínum geira tónlistarinnar og átti stóran þátt í útbreiðslu flaututónlistarinnar hér á landi. Fjölmargar plötur komu út með flautuleik hennar.

Manuela fæddist í Brasilíu árið 1955 en foreldrar hennar sem voru austurrískir bjuggu þar og störfuðu um tíma. Hún ólst þó upp í Vín í Austurríki og hóf þar nám í flautuleik um tíu ára aldur, hún kom fyrst fram opinberlega fjórtán ára gömul og lauk einleikaraprófi tveimur árum síðan en nam einnig í Frakklandi. Manuela varð fljótlega þekkt fyrir færni sína á flautuna og hélt víða tónleika áður en hún fluttist hingað til lands árið 1973 en þá hafði hún gifst klarinettuleikaranum Sigurði Ingva Snorrasyni. Reyndar var Íslandstenging hennar einnig með öðrum hætti því í ljós kom að þau Páll Pampichler Pálsson tónlistarmaður voru systkinabörn.

Hér á landi var Manuela fljót að heilla með hæfileikum sínum og framkomu, hélt hér ótal tónleika á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni en fór einnig utan til tónleikaferða. Þá lék hún á flautu í fjölmörg skipti í útvarpssal ýmist ein eða með undir- og meðleikurum s.s. Halldóri Haraldssyni, Julian Dawson Lyell og Snorra Sigfús Birgissyni en ásamt þeim síðast talda sigraði hún norræna kammermúsík-keppni fyrir ungt tónlistarfólk sem haldin var í Helsinki í Finnlandi 1975.

Um það sama leyti setti hún á fót ásamt Helgu Ingólfsdóttur semballeikara tónlistarhátíðina Sumartónleika í Skálholti sem verið hefur árviss viðburður síðan. Manuela kom ennfremur oftsinnis fram í sjónvarpi og varð nokkuð þekkt andlit í tónlistarheiminum hér á landi þrátt fyrir að tónlistin væri ekki beinlínis vinsældapopp. Hún starfaði um tíma með Íslenska blásarakvintettinum og fékkst jafnframt við kennslu, kenndi m.a. flautuleikurum eins og Guðrúnu Birgisdóttur, Áshildi Haraldsdóttur og Kolbeini Bjarnasyni, sem voru lítið yngri en Manuela sjálf.

Manuela Wiesler og Helga Ingólfsdóttir

Auk þess að leika á tónleikum og tónlistarhátíðum s.s. Listahátíð í Reykjavík, Myrkum músíkdögum og Skálholtshátíðinni, lék Manuela einnig inn á plötur, 1977 lék hún inn á jólaplötuna Jólastrengir auk plötu Sigríðar Ellu Magnúsdóttur, Með vísnasöng, og árið 1978 kom hún við sögu á plötum sem hafði að geyma tónlist úr leikritunum Öskubusku og Ævintýri Emils í Kattholti.

Um þetta leyti var farið að spyrjast út að fyrsta plata Manuelu væri væntanleg og árið 1979 komu reyndar tvær slíkar út, annars vegar plata sem kom út sem samstarfsverkefni hljómplötuútgáfunnar Steinars og hljóðversins Hljóðrita undir útgáfumerkinu Steinhljóð, þar sem hún lék ásamt skoska píanóleikaranum Julian Dawson Lyell en á plötunni var að finna íslenska og franska flaututónlist, m.a. eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Atla Heimi Sveinsson. Hins vegar kom út platan Sumartónleikar í Skálholtskirkju í tengslum við samnefnda hátíð, þar sem þær stöllur Manuela og Helga Ingólfsdóttir léku.

Manuela hélt tónleika ekki aðeins hér heima heldur einnig víðs vegar um Norðurlöndin og Evrópu, hún lék t.a.m. einleik með fílharmóníusveitum í Osló og Stokkhólmi, lék í útvarpi víða um lönd en fór einnig í tónleikaferðir ásamt Helgu, þar var oftar en ekki verið að kynna íslenska tónlist og gerðu íslenskir fjölmiðlar mikið úr umfjöllun og lofi skandinavískra tónlistargagnrýnenda.

Plötuútgáfuhjólin voru jafnframt heldur betur farin að snúast og fjölmargar plötur komu út á næstu árum, margar með tónlist sem sérstaklega var samin fyrir Manuelu, Leifur Þórarinsson, Þorkell Sigurbjörnsson, Atli Heimir Sveinsson, Magnús Blöndal Jóhannsson, Hjálmar H. Ragnarsson og Áskell Másson voru meðal þeirra en haustið 1981 höfðu verið skrifuð sautján flautuverk sérstaklega fyrir hana. Manuela samdi einnig tónlist sjálf, t.d. við leikritið Dans á rósum sem sett var á svið Þjóðleikhússins. Þá kom hún að endurreisn tónlistarhópsins Musica nova árið 1981.

Manuela sem plöturnar sínar fjórar

Haustið 1980 kom út plata með tónlist eftir Áskel Másson þar sem Manuela var í aðalhlutverki og ári síðar kom út önnur plata með þeim Manuelu og Helgu Ingólfsdóttur í tengslum við Skálholtshátíðina þeirra, það var platan Bach í Skálholti. Þess utan fékkst hún við fjölmörg aukaverkefni, lék t.d. inn á plötur Guðmundar Árnasonar, Hljómsveitar Magnúsar Kjartanssonar og hljómsveitarinnar Pónik, auk plötu með tónlist úr leikritinu um spýtudrenginn Gosa.

Það var svo árið 1982 sem Manuela Wiesler braut blað í íslenskri tónlistarsögu en þá sendi hún frá sér samtímis hvorki fleiri né færri en fjórar plötur með flaututónlist. Plöturnar fjórar höfðu að geyma barokktónlist frá 17. öld, franska flaututónlist, norræna flaututónlist og íhugunartónlist, þær gaf Manuela út sjálf en þær höfðu verið teknar upp af Bjarna Braga Bjarnasyni í Háteigskirkju á þremur nóttum haustið 1982. Slík fjögurra platna útgáfa var einstök í íslenskri útgáfusögu og fengu þær frábæra gagnrýni.

Í kjölfarið á útgáfu platnanna hvarf Manuela smám saman frá sviðsljósinu á Íslandi, hún var nú skilin við eiginmann sinn en einnig tóku við stórar tónleikaferðir um Evrópu og Bandaríkin, alls lék hún á um hundrað og fimmtíu tónleikum á um einu ári.

Árið 1983 var hún flutt til Svíþjóðar og þar átti hún eftir að starfa næstu árin sem og í Austurríki en hún var sem fyrr segir mikið á ferð og flugi. Hún átti þó eftir að koma mjög reglulega „heim“ til Íslands til tónleikahalds þótt þeim ferðum fækkaði eftir því sem árin liðu, segja má að hún hafi verið mest áberandi í dagskrá Ríkisútvarpsins enda var heilmikið til af efni með henni á þeirri stofnun. Á þessum tíma hafði hún gifst Einari G. Sveinbjörnssyni fiðluleikara.

Manuela Wiesler blæs í flautu sína

Fjölmargar plötur komu út með Manuelu eftir að hún flutti frá Íslandi, nokkrar í samstarfi við sænska slagverkshópinn Kroumata en einnig með ýmsum strengja- og kammersveitum. Árið 1989 kom út plata sem bar titilinn To Manuela en þar lék hún flautuverk eftir íslensk tónskáld, og sex árum síðar platan Liongate: Manuela plays flute concertos by Þorkell Sigurbjörnsson en mestmegnis voru plötur hennar með tónlist úr ýmsum áttum og frá ýmsum tímum.

Manuela lék einnig á fjölda platna erlendis með öðrum listamönnum s.s. Lasse Thoresen, Hans-Ola Ericsson, Ketil Hvoslef og Åke Hermanson, auk þess sem tónlist hennar er að finna á fjölmörgum safnplötum, Nordiske musikkdager Oslo 1982, Your favourite classics, Bridges to Japan, Frank Martin: Vocal and chamber music eru dæmi um slíkar plötur.

Manuela lést í desember 2006 en hún hafði þá átt í veikindum, hún varð rétt rúmlega fimmtug. Hennar var minnst með ýmsum hætti hér á landi, minningartónleikar voru haldnar um hana á Myrkum músíkdögum í janúar 2007 og um sumarið var hennar einnig minnst í Skálholti en hún hafði sem fyrr segir komið þeirri tónlistarhátíð á koppinn ásamt Helgu Ingólfsdóttur.

Árið 2015 voru plöturnar hennar fjórar endurútgefnar á geislaplötum en þær höfðu þá aðeins komið út á vínylplötuformi, tilefnið var að þá hefði hún orðið sextug.

Maneulu Wiesler hefur alls staðar verið minnst sem hæfileikaríkrar manneskju sem heillaði ekki síður með framkomu sinni á sviði fremur en tónlistinni, hún hafði þau einkenni að leika oftast nótnalaust á tónleikum og lærði því tónlistina utan að. Hún á líka stóran þátt í útbreiðslu flaututónlistarinnar hér á landi, fyrir það verður ekki þrætt. Hún hafði hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir starf sitt, hlotið t.d. menningarverðlaun DV, listamannalaus, Sonningstyrk (alþjóðleg verðlaun) o.fl.

Efni á plötum