Afmælisbörn 22. júlí 2019

Manuela Wiesler

Þrjú afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar að þessu sinni:

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson tónlistarmaður er sextíu og fjögurra ára gamall í dag. Hann starfrækir útgáfufyrirtækið Dimmu sem hann stofnaði ásamt Önnu Pálínu Árnadóttur eiginkonu sinni (d. 2004), en þau gáfu út fjölda platna saman og í sitt hvoru lagi undir merkinu. Aðalsteinn hefur einnig unnið mikið með fyrrum félögum sínum úr Vísnavinum og Hálfu í hvoru, s.s. Eyjólfi Kristjánssyni, Gísla Helgasyni og Bergþóru Árnadóttur. Aðalsteinn hefur einnig samið fjöldann allan af textum og ljóðum fyrir annað tónlistarfólk.

Birgir Helgason á jafnframt afmæli í dag en þessi kórstjórnandi frá Akureyri er áttatíu og fimm ára gamall. Birgir var allt í öllu sem stjórnandi Kórs Barnaskóla Akureyrar lengi vel en þeim kór stjórnaði hann í nærri fjóra áratugi og gaf út nokkrar plötur með honum. Hann hefur einnig samið fjölda laga sem komið hafa út á plötum og nótnabókum, og árið 1981 kom út plata með lögum hans en hún ber titilinn Í kvöldró.

Þá hefði flautuleikarinn Manuela Wiesler einnig átt afmæli á þessum degi en hún lést árið 2006. Manuela var austurrísk en fæddist í Brasilíu (1955), nam flautuleik í Vín og víðar í Evrópu en fluttist hingað til lands 1973 og starfaði hérlendis í ríflega áratug. Hún sendi frá sér nokkrar plötur meðan hún bjó hér á landi, auk platna ásamt Helgu Ingólfsdóttur, hún lék ennfremur inn á nokkrar plötur með ýmsum listamönnum s.s. Guðmundi Árnasyni, Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar, Sigríði Ellu Magnúsdóttur og Pónik svo dæmi séu nefnd.