Birgir Helgason (1934-2019)

Birgir Helgason

Birgir Helgason gegndi stóru hlutverki í akureysku tónlistarlífi lengi vel en hann stjórnaði m.a. Kór Barnaskóla Akureyrar í áratugi.

Birgir Hólm Helgason fæddist 1934 á Akureyri, lærði ungur á orgel, fyrst hjá Þorsteini Jónssyni og síðan Jóni Áskelssyni og fleirum áður en hann gekk í Tónlistarskólanna á Akureyri, þar sem hann nam einnig fiðluleik. Hann fór síðan suður til söngkennaranáms en kom strax norður og hóf kennslu við Barnaskólann á Akureyri að loknu námi 1959.

Strax haustið 1959 tók hann við Kór Barnaskóla Akureyrar (áður Barnakór Akureyrar) og stjórnaði honum fram yfir miðjan tíunda áratuginn við miklar vinsældir norðan heiða. Á þeim tíma fóru hundruð barna í gegnum kórinn og var hann jafnvel skipaður yfir hundrað börnum í einu, kórinn sendi jafnframt frá sér nokkrar plötur undir stjórn Birgis og samdi Birgir nokkurn hluta þess efnis sem á plötunum var, ýmist við ljóð Tryggva Þorsteinssonar, Jóhannesar úr Kötlum og fleiri en hann samdi einnig ljóð sjálfur. Lög eftir hann voru t.a.m. á plötu með kórnum sem innihélt tvo stutta söngleiki. Þá átti Birgir lög á nokkrum öðrum plötum og þá má geta þess að nokkrar nótnabækur hafa komið út með lögum hans.

Platan Í kvöldró: 14 sönglög eftir Birgi Helgason kom út á vegum Stúdíó Bimbó árið 1981 en á þeirri plötu sungu Jóhann Daníelsson, Eiríkur Stefánsson Kirkjukór Akuryrar og Karlakór Akureyrar lög Birgis við ljóð ýmissa ljóðskálda.

Auk þess að vera tónskáld og kórstjórnandi, var hann tónmenntakennari við Barnaskóla Akureyrar og kennari við Tónlistarskólann á Akureyri, samhliða því að gegna stöðu organista víða s.s. við Glæsibæjarkirkju, Möðruvallakirkju í Hörgárdal, hjá kaþólska söfnuðinum á Akureyri og við sunnudagaskóla Akureyrarkirkju.

Birgir lést haustið 2019.

Efni á plötum