Kór Barnaskóla Akureyrar (1959-96)

Kór Barnaskóla Akureyrar

Kór Barnaskóla Akureyrar starfaði í áratugi undir stjórn Birgis Helgasonar en hann tók við hlutverkinu af Björgvini Jörgenssyni sem hafði stofnað kórinn 1948 og stýrt honum í um tíu ár, í starfstíð Björgvins var gjarnan nefndur Barnakór Akureyrar en Kór Barnaskóla Akureyrar undir stjórn Birgis. Kórinn er klárlega með þekktustu barnakórum sem starfað hafa hér á landi en hann kom við sögu á nokkrum plötum.

Birgir Helgason söngkennari við Barnakóla Akureyrar tók við stjórn kórsins 1959 og stýrði honum allt þar til hann lagði upp laupana en það var líklega vorið 1996. Kórinn var iðulega fjölmennur og stundum voru yfir hundrað börn í honum, flest á aldrinum tíu til þrettán ára.

Söng kórsins má heyra á nokkrum plötum sem fyrr segir en fyrirrennandi hans hafði einnig sent frá sér tvær plötur. En fyrsta platan undir stjórn Birgis kom út 1967 og var lítil jólaplata sem þó hafði að geyma ellefu lög og upplesið efni. Hún hét Jólavaka og lék Birgir sjálfur á orgel Akureyrarkirkju á henni.

Sex ár liðu uns næsta plata leit dagsins ljós (1973) en þá urðu þær reyndar tvær. Annars vegar var það lítil plata á vegum Tónaútgáfunnar sem á voru sjö lög sem sum voru eftir Birgi stjórnanda, meðlimir úr hljómsveit Ingimars Eydal léku undir á þeirri plötu en hún fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu. Svo virðist sem plata hafi einnig átt að koma út árið 1970 og hafði að einhverju leyti sama efni og sú sem kom út 1973 en hún virðist aldrei hafa komið út þótt henni hefði verið úthlutað útgáfunúmer (T 114).

Hin platan árið 1973 var breiðskífa gefin út í tilefni af sjötíu og fimm ára afmæli barnablaðsins Æskunnar en á henni var að finna tvö leikrit með söngvum, Árstíðirnar eftir Jóhannes úr Kötlum við tónlist Birgis Helgasonar og Siggi og Logi eftir Margréti Jónsdóttur við tónlist Sigfúss Halldórssonar. Hljómsveit Ingimars Eydal lék undir á plötunni, kórinn söng og nokkrir meðlimir barnakórsins sungu einsöng á henni. Platan var gefin út af Tónaútgáfunni.

1980 kom fjórða plata Kórs Barnaskóla Akureyrar út en hún var jólaplata og bar titilinn Kom blíða tíð: jólavaka heimilanna, og var gefin út af Æskulýðssambandi kirkjunnar í Hólastifti. Platan fékk ágæta dóma í blaðinu Íslendingi, sem gefið var út á Akureyri.

Þá söng kórinn enn fremur á safnplötunni Unga kirkjan: trúarsöngvar, en hún kom út á Akureyri árið 1968.

Kór Barnaskóla Akureyrar var áberandi í akureysku tónlistarlífi og tók virkan þátt í kirkjustarfinu en söng einnig utan hennar, þá söng kórinn í fjölmörg ár ásamt Karlakór Akureyrar á Lúsíuhátíð sem haldin var í desember ár hvert. Kórinn fór a.m.k. einu sinni utan til tónleikahalds, til Færeyja haustið 1987.

Eins og títt er um barnakóra urðu einhverjir meðlima hans þekktir á söngsviðinu síðar meir, þannig voru bæði Kristján Jóhannsson og Inga Eydal í kórnum og eflaust fleiri þekkt nöfn.

Efni á plötum