Birgir Marinósson (1939-2019)

Birgir Marinósson

Tónlistarmaðurinn Birgir Marinósson var um tíma nokkuð áberandi í norðlensku tónlistarlífi en hann starfaði þá með hljómsveitum og var þekktur textahöfundur.

Birgir var frá Árskógsströnd í Eyjafirði (fæddur 1939) en bjó lengst af á Akureyri. Hann starfaði fyrst með hljómsveitum við Samvinnuskólann á Bifröst í kringum 1960, lék á gítar og víbrafón og lék þá með sveitum eins og Kóral kvintettnum og síðan með eigin sveit, Hljómsveit Birgis Marinóssonar sem var stofnuð á Bifrastar-árum hans.

Hljómsveit Birgis starfaði í áratugi með einhverjum hléum og einnig starfrækti hann tríó í eigin nafni um tíma. Þá var hann í Nemó.

Birgir starfaði framan af sem kennari á Akureyri en var síðan lengi hjá Sambandinu og virkur í félagslífi þar, hann var vinsæll kynnir og skemmtikraftur, kom oftsinnis fram og söng eigin gamanvísur en hann var öflugur við textagerð um tíma og samdi einnig lög.

Þekktasta lag hans er án nokkurs vafa lagið Glókollur með Póló og Bjarka sem fyrir löngu hefur öðlast sígildi, þá samdi hann nokkra texta sem komu út á plötum á sjöunda og áttunda áratugnum s.s. með Hörpu Gunnarsdóttur, Erlu Stefánsdóttur, Björgvini Halldórssyni og síðast en ekki síst Helenu Eyjólfsdóttur sem söng Bítlalagið Yesterday við texta Birgis undir titlinum Horfðu á en lagið kom út á jólaplötunni Heims um ból sem hafði að geyma efni með Kirkjukór Akureyrar og Hljómsveit Ingimars Eydal.

Birgir var lítt viðloðandi tónlist síðustu árin en hann lést síðla árs 2019.