Birgir Gunnlaugsson (1956-)

Birgir Gunnlaugsson

Tónlistarmaðurinn Birgir Gunnlaugsson hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi, m.a. starfrækt hljómsveit í eigin nafni og komið á fót krakkasönghópnum Rokklingunum sem naut mikillar hylli um og upp úr 1990.

(Gunnlaugur) Birgir Gunnlaugsson er fæddur 1956 og var snemma farinn að syngja og spila á gítar. Hann lék með fjölda sveita s.s. Fjörkum, Tríói ´72 og Bítlunum áður en hann stofnaði eigin sveit veturinn 1974-75 sem hann starfrækti í áratugi, stundum sem tríó en oftar sem stærri hljómsveit. Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar lék einkum framan af á dansstöðum borgarinnar en síðan einnig úti á landi, og sendi frá sér tvær plötur á níunda áratugnum.

Birgir hefur komið að ýmsum tónlistartengdum atburðum og uppákomum þar sem aðrir hafa notið sín, þannig stóð hann fyrir hæfileikakeppni Dagblaðsins í kringum 1980 þar sem hann vildi gefa hæfileikafólki á ýmsum sviðum kost á að koma fram. Um það leyti setti hann einnig upp ásamt fleirum söngleikinn Evitu og var þar sjálfur í einu af aðalhlutverkunum en hans verður líklega einna helst minnst fyrir framlag sitt Rokklingana sem hann setti á stofn en sá söngflokkur gaf út nokkrar plötur og naut gríðarlegra hylli á sínum tíma. Þá rak hann ásamt Báru hálfsystur sinni í JSB, Rokklingaskólann sem var eins konar söngskóli fyrir hæfileikabörn.

Samhliða þessu rak Birgir plötuútgáfuna BG-útgáfuna sem gaf m.a. út Rokklingana en einnig safnplöturaðirnar Barnaleikir og Barnasögur, síðar réðist hann til Skífunnar þar sem hann starfaði um tíma.

Birgir hefur minna sinnt tónlistargyðjunni hin síðari ár en hann er menntaður hugbúnaðarsérfræðingur. Hann hefur þó starfað víða að félagsmálum s.s. í tengslum við FÍH.