Steingrímur Stefánsson (1946-2002)

Steingrímur Stefánsson

Steingrímur Stefánsson starfaði með fjölmörgum hljómsveitum fyrir norðan og rak um margra ára skeið hljómsveit í eigin nafni, hann lék jafnframt inn á nokkrar hljómplötur.

Steingrímur Eyfjörð Stefánsson fæddist vorið 1946 á Árskógsströnd en bjó lengst af inni á Akureyri. Hann var afar sjónskertur en það háði honum ekki þegar kom að tónlistinni og var hann farinn að leika tólf ára gamall á harmonikku í hljómsveitum m.a. með systkinum sínum Pálma og Rósu en þeir Pálmi áttu síðar eftir að leika lengi saman í hljómsveitum, einnig áttu þeir Birgir Marinósson eftir að eiga mikið samstarf.

Heimild hermir að Steingrímur hafi leikið með hljómsveit á Stöðvarfirði sem bar nafnið Esco en það hlýtur að teljast ólíklegt, hins vegar hóf hann að leika á trommur með hljómsveitinni Póló sem var stofnuð 1964 og naut síðar mikilla vinsælda en sú sveit átti eftir að senda frá sér nokkrar smáskífur og varð lag sveitarinnar Lóan er komin afar vinsælt. Það var Erla Stefánsdóttir sem söng það lag en hún var lengi söngkona sveitarinnar og voru þau Steingrímur gift um hríð. Einnig má nefna lagið Glókollur sem Bjarki Tryggvason söng eftirminnilega með sveitinni.

Eftir að Póló hætti störfum 1969 lék Steingrímur með Hljómsveit Pálma Stefánssonar og Tríói Birgis Marinóssonar áður en hann sjálfur stofnaði sveit árið 1978 en hún átti eftir að starfa nokkuð samfleytt fram undir lok níunda áratugarins. Sú sveit var húshljómsveit m.a. í Sjallanum á Akureyri og Alþýðuhúsinu en lék einnig á almennum dansleikjum víða um norðan- og austanvert landið. Þá lék hann með hljómsveitinni Fjórum félögum og Tríói Birgis sem var endurvakið á tíunda áratugnum. Með flestum framangreindum sveitum lék Steingrímur á trommur en hann var jafnframt lunkinn á harmonikku og skemmti oft með nikkuna að vopni eins síns liðs.

Steingrímur lék inn á nokkrar hljómplötur og má nefna plötur með harmonikkuleikurunum Aðalsteini Ísfjörð, Jóni Hrólfssyni og Örvari Kristjánssyni en einnig Þorvaldi Halldórssyni. Flestar eða allar þær plötur voru gefnar út af Tónaútgáfunni, útgáfufyrirtæki Pálma bróður hans.

Steingrímur lést sumarið 2002 en hann var þá aðeins fimmtíu og sex ára gamall.