Steinar [2] [útgáfufyrirtæki] (1975-93)

Fyrsta platan sem kom út undir Steina-merkinu STLP 001

Hljómplötuútgáfan Steinar var um tíma stærsti útgefandi tónlistar á Íslandi en nokkur hundruð titlar komu út á vegum fyrirtækisins og stóð það einnig í útflutningi á íslenskri tónlist sem til þess tíma hafði varla verið gert að neinu ráði.

Maðurinn á bak við Steina var Steinar Berg Ísleifsson en útgáfusaga hans hófst sumarið 1975 þegar hann tók yfir útgáfu Ámunda Ámundasonar á fyrstu breiðskífu Stuðmanna, Sumar á Sýrlandi sem þá kom út, með aðstoð tengdaföður síns undir útgáfumerkinu EGG. Platan seldist í bílförmum (og var svo síðar endurútgefin undir Steina-merkinu) og varð honum hvatning til að hefja plötuútgáfu en ýmsir möguleikar voru þá að opnast í þeim geira og t.a.m. hafði Hljóðriti í Hafnarfirði þá nýverið opnað.

Um haustið stofnaði Steinar ásamt fjórum öðrum hluthöfum útgáfufyrirtækið Steina hf. en nafn þess var vísun í „rock“ en hafði ekkert með nafn Steinars að gera eins og menn héldu. Fyrirtækið gaf út fáeinar plötur fyrir jólin, Hljómsveit Ingimars Eydal, Þokkabót og Spilverk þjóðanna voru meðal þeirra og seldust þokkalega en eftir áramótin keypti Steinar hina hluthafana út og hélt rekstrinum áfram einn í bili. Fljótlega keypti Karnabær helminginn í fyrirtækinu og Steinar hóf að stýra hljómplötudeildinni þar og byrjaði þá með innflutning á tónlist en hann hafði áður stýrt tónlistardeild hjá Faco. Steinar aflaði viðskiptasambanda og hóf m.a. að flytja inn tónlist frá CBS og Warner og fór þar með í beina samkeppni við Fálkann bæði hvað útgáfu og innflutning á tónlist varðar. Hljómplötuverslanir voru opnaðar í nafni fyrirtækisins og það varð allt í senn, útgefandi, heildsali og smásali og stóð einnig í tónleikahaldi, flutti m.a. inn hljómsveitina Stranglers á sínum tíma og var einnig brautryðjandi hér á landi að halda útgáfutónleika en slíkt hafði ekki tíðkast áður. Þá komu út fjölmargir erlendir titlar á vegum útgáfunnar hérlendis, þekktar plötur pressaðar hér heima.

Plötumiði Steina

Á fáum árum varð Steinar stærsti hljómplötu útgefandinn hérlendis á sama tíma og fyrirtæki eins og SG-hljómplötur og Fálkinn liðu undir lok, fyrirtækið gaf út nokkur hundruð titla næstu átján árin og nöfn eins og Stuðmenn, Spilverk þjóðanna, Bubbi Morthens, Egó og síðar Bítlavinafélagið, Sálin hans Jóns míns og Ríó tríó svo dæmi séu tekin urðu meðal vinsælustu og söluhæstu tónlistarmanna og hljómsveita fyrirtækisins. Þá gáfu Steinar einnig út vinsælar safnplötur á blómaskeiði þeirra og stóð einnig í útflutningi á íslenskri tónlist en Þú og ég varð fyrsta tilraun fyrirtækisins í þá áttina og seldust t.d. nokkrir tugir þúsunda eintaka af plötunni Ljúfa líf í Japan. Í kjölfarið á því tók Steinar Berg að sér hljómsveitina Mezzoforte og reri öllum árum til að koma henni á framfæri í Bretlandi og Evrópu með ágætum árangri en bæði hann og hljómsveitin bjuggu þar um tíma til að sinna því verkefni. Í því samhengi var útflutningsdeildin Steinar Records stofnuð en einnig var undirmerkið Spor stofnað en það merki annaðist aðallega jaðartónlist og útgáfu á safnplötum. Steinar eignaðist um miðjan níunda áratuginn útgáfuréttinn af því sem SG-hljómplötur, Fálkinn, Íslenskir tónar, Tónaútgáfan og fleiri höfðu fyrr gefið út og hafði því alla möguleika á að endurútgefa þá tónlist, það varð þó ekki að veruleika fyrr en síðar.

Með tímanum varð reksturinn erfiðari þrátt fyrir að fyrirtækið væri það stærsta á markaðnum hér heima og einnig stærsti myndbandaútgefandinn en sá geiri hafði orðið til og stækkað verulega á níunda áratugnum, útflutningsdeildin og plötuverslanirnar munu einkum hafa verið fjárfrekar í rekstrinum. Svo fór að lokum að Steinar varð tæknilega gjaldþrota eins og það var orðið, og vorið 1993 stofnuðu Steinar Berg og Jón Ólafsson (aðalkeppinautur Steina  og kenndur við Skífuna) nýtt fyrirtæki – Spor á rústum þess gamla og yfirtók það rekstur Steina, útgáfuna og heild- og smásöluna sömuleiðis. Þar með var sögu Steina lokið, útgáfurétturinn (þ.á.m. þess sem Steinar hafði gefið út) fluttist yfir á hið nýja fyrirtæki (Spor) og fór síðar allur yfir til Skífunnar og er í dag í eigu Öldu music. Steinar Berg starfaði áfram hjá nýja fyrirtækinu um skeið og stofnaði síðar nýja plötuútgáfu.