Spor [2] [útgáfufyrirtæki] (1993-98)

Logo Spors

Útgáfufyrirtækið Spor – hið síðara undir því nafni starfaði um fimm ára skeið undir lok síðustu aldar og komu fjölmargir titlar út undir því merki.

Spor var stofnað vorið 1993 en það varð með þeim hætti að þegar hljómplötuútgáfan Steinar var komið nánast í þrot leitaði Steinar Berg eigandi þess til aðal samkeppnisaðilans í útgáfubransanum, Jóns Ólafssonar í Skífunni um samstarf sem varð til þess að sá síðarnefndi kom með fjármagn inn í stofnun nýju útgáfunnar sem fékk nafnið Spor og áttu þeir helming hvor um sig í fyrirtækinu, sem yfirtók rekstur útgáfuhluta fyrirtækisins og heild- og smásöluhlutans Steinars Músík og myndir. Steinar varð framkvæmdastjóri Spor en einnig voru þeir Jón og Guðlaugur Bergmann (kenndur við Karnabæ) sem hafði átt hlut í Steinum, í stjórn þess. Skífan var sem fyrr segir í eigu Jóns og um leið aðal samkeppnisaðili Spors en tilfæringarnar fóru í gegn án athugasemda frá Samkeppnisstofnun, og höfðu þá Skífan og Spor um 80% hlutdeild í útgáfu, sölu og dreifingu á tónlist hérlendis.

Útgáfurétturinn af nánast öllu sem komið hafði út á Íslandi hafði á sínum tíma komist í hendur Steinars (frá Íslenzkum tónum, Fálkanum, SG-hljómplötum o.s.frv.) og undir merkjum Spors hófst viðamikil geisladiskaútgáfa á því efni undir stjórn Jónatans Garðarssonar útgáfustjóra en mikil vinna var lögð í að finna upphaflega mastera svo útgáfan væri sem vönduðust. Á næstu árum komu því út afar margar slíkar endurútgáfur, bæði endurútgefnar titlar sem og safnplötur með stökum listamönnum eða blönduðu efni á geisladiskaformi enda var þá megnið af því löngu ófáanlegt því það hafði komið út löngu fyrr á vínylplötuformi.

Samhliða þessu stóð Spor einnig fyrir útgáfu á nýju efni og hér má nefna plötur með hljómsveitum eins og Jet Black Joe, Tweety o.fl. en jafnframt stóð Steinar í að koma þeim og öðrum íslenskum tónlistarmönnum á framfæri erlendis og að kynna íslenska tónlist erlendist undir merkjum Spors enda hafði hann viðamikla reynslu af þess konar starfi. Þá komu einnig út safnplötur með nýju efni undir merkinu og má hér t.d. nefna hinar vinsælu Reif-seríu og svo Pottþétt-seríuna sem Spor gaf út í samstarfi við samkeppnisaðilann Skífuna.

Samhliða plötuútgáfu rak Spor umsvifamikla heild- og smásölu, og í því samhengi rak fyrirtækið lengst af þrjár verslarnir, í Austurstræti, Mjóddinni og Hafnarfirði en einnig um tíma í Borgarkringlunni. Strangt til tekið var Spor beint framhald af starfsemi Steina en bara í nafni Spors. Árið 1997 bættist svo við undirmerki Spors, Sproti sem gaf út efni með ungum og efnilegum tónlistarmönnum.

Haustið 1998 gerðist það svo sem flestir höfðu reiknað með, að Spor og Skífan sameinuðust þegar Skífan keypti allt hlutafé Spors og það varð síðan hluti af Norðurljósa-batteríi Íslenska útvarpsfélagsins. Áfram voru þó gefnar út plötur undir Spor-merkinu og allt til ársins 2002 þó svo að Spor heyrði í raun sögunni til – þar var m.a. um að ræða plötur með listamönnum eins og Selmu Björnsdóttur, Sálinni hans Jóns míns o.fl., flestir titlarnir komu þó út undir merkjum Skífunnar.