Spitsign (1997-98)

Spitsign 1997

Hljómsveitin Spitsign gegnir stærra hlutverki en margir gera sér grein fyrir í þeirri harðkjarnasenu sem myndaðist hér á landi í kringum aldamótin 2000 en segja má að sveitin hafi að nokkru leyti mótað og rutt brautina fyrir þær harðkjarnasveitir sem á eftir komu, m.a. með þátttöku sinni í Músíktilraunum – hljómsveitin Mínus varð eins konar afsprengi Spitsign.

Spitsign var líklega stofnuð snemma árs 1997 fremur en haustið 1996 og keppti svo í Músíktilraunum um vorið 1996. Meðlimir sveitarinnar voru Bóas Hallgrímsson söngvari, Björn Stefánsson trommuleikari, Bjarni M. Sigurðsson gítarleikari og Þórður Illugi Bjarnason bassaleikari. Þó svo að sveitin kæmist áfram í úrslit keppninnar komst hún ekki í verðlaunasæti, vakti í raun ekki mikla athygli þar og hlaut ekki náð fyrir augum dómnefndar e.t.v. vegna þess að lög hennar voru á ensku en Spitsign var eina sveitin sem fór þá leið. Hins vegar varð Spitsign einna fyrst svokallaðra hardcore rokksveita hér á landi en tónlistin var blanda pönks og þungs rokks sem átti rætur sínar að rekja vestur um haf og í kjölfarið voru fleiri slíkar sveitir stofnaðar, Bisund var ein þeirra en sveitirnar tvær léku heilmikið síðar saman á tónleikum, sú sveit varð í öðru sæti Músíktilraun 1998.

Spitsign

Fyrst eftir Músíktilraunirnar fór fremur lítið fyrir Spitsign til að byrja með enda var lítill markaður fyrir tónleikahald til að byrja með en eftir að hljómsveitum fjölgaði og sérstaklega á nýju ári, 1998 urðu verkefnin fleiri og sveitin lék heilmikið á tónleikum tengum Hinu húsinu, í Tunglinu, Rósenberg, Skemmunni, Félagsstofnun stúdenta, Héðinshúsinu og víðar, Spitsign varð jafnframt ein þeirra sveita sem fékk pláss í kvikmyndinni Popp í Reykjavík og það átti eftir að gera heilmikið fyrir hana. Internetið varð sterkur miðill í þessari harðkjarnasenu sem að miklu leyti var neðanjarðarsena sem höfðaði miklu fremur til áhugafólks á unglingsaldri enda var sá hópur fljótur að tileinka sér möguleika netsins, sveitin varð þannig ein þeirra fyrstu sem fékk eigin heimasíðu en hún var smíðuð af Sigvalda Jónssyni (Valla Dordingli) sem fljótlega opnaði einnig harðkjarnavefsíðuna dordingull.com til að miðla upplýsingum og fréttum í bransanum.

Um haustið 1998 var harðkjarnasenan orðin allstór og fjölmargar sveitir höfðu orðið til í henni, þeirra á meðal var hljómsveitin Ungblóð sem deildi æfingahúsnæði með Spitsign og reyndar einnig bassaleikara sem var Ívar Snorrason en hann hafði tekið við bassanum af Herði Inga Stefánssyni sem hafði leyst Þórð fyrsta bassaleikarann af hólmi fljótlega eftir Músíktilraunirnar – reyndar var sveitin tríó um hríð áður en Hörður Ingi kom inn. Fleiri mannabreytingar höfðu reyndar orðið á sveitinni, Smári Tarfur Jósepsson gítarleikari hafði einnig bæst í sveitina í millitíðinni.

Spitsign í Popp í Reykjavík

Það varð úr að þeir félagar Bjarni gítarleikari, Björn trommuleikari og Ívar bassaleikari rugluðu saman reytum við Hrafn Björgvinsson söngvara og Frosta Logason gítarleikara úr Ungblóði og mynduðu nýja sveit sem hlaut nafnið Mínus, sveitirnar þrjár störfuðu samtímis um skamma hríð en fljótlega tók Mínus alveg yfir og Spitsign og Ungblóð lognuðust útaf, áður höfðu Smári Tarfur og Bóas hætt í Spitsign. Mínus varð síðar eins konar flaggskip harðkjarnasenunnar, sigraði Músíktilraunirnar 1999 og segja má að hlutverk Spitsign sem brautryðjandi og upphafssveit senunnar hafi að nokkru leyti fallið í skuggann.

Ekkert efni kom út með Spitsign meðan hún starfaði en eitt lag með henni fór í útvarpsspilun, reyndar hafði staðið til að sveitin yrði með tvö lög á safnplötunni Rock from the cold seas um haustið 1998 en svo fór að Mínus fékk plássið á plötunni, hins vegar komu út tvö lög með sveitinni á safnplötunni Pönkið er dautt en þau höfðu verið hljóðrituð á tónleikum í Norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð á tónlistarhátíðinni Pönk ´98.