Vígspá (1999-2003)

Vígspá árið 2001

Hljómsveitin Vígspá var meðal þeirra fremstu í harðkjarnasenunni sem braust fram með látum í kringum síðustu aldamót, sveitin sendi frá sér fjórar skífur.

Stofnun Vígspár átti sér nokkurn aðdraganda en Rúnar Ólafsson trommuleikari, Freyr [?] gítarleikari, Valdi [?] Olsen gítarleikari og Árni Jóhannsson bassaleikari ásamt söngvara höfðu starfað saman frá upphafi árs 1998 undir nafninu Teib. Þegar söngvarinn hætti í sveitinni um áramótin 1998-99 kom Bóas Hallgrímsson (Spitsign) inn í hana og við það tækifæri tóku þeir félagar upp nafnið Vígspá, líkt og fleiri sveitir í svipuðum geira sóttu þeir nafngiftina í norrænu goðafræðina en nafnið kemur beint úr Völuspá.

Sveitin kom fyrst fram vorið 1999 og þá var tónlist hennar skilgreind í fjölmiðlum sem hardcore pönk metall. Þeir félagar komu fram í nokkur skipti opinberlega það ár og sendu þá frá sér þriggja laga demóplötuna Lík 1228, sú plata fór ekki hátt enda hafði það líklega ekki verið ætlun þeirra. Valdi gítarleikari hætti fljótlega eftir útgáfu hennar.

Önnur plata kom út um haustið 1999 og bar hún heitið Upphaf heimsendis, hún var tekin upp í æfingahúsnæði Vígspár. Á henni voru átta lög, þrjú laganna sem komið höfðu út fyrr á árinu og fimm lög að auki, í einu þeirra söng Björn Stefánsson (Bjössi í Mínus) með þeim félögum. Einnig kom Smári Tarfur Jósepsson líklega við sögu á plötunni en hann hafði eitthvað verið viðloðandi sveitina. Ennfremur hefur nafn Vilhelms Vilhelmssonar verið nefnt í þessu sama samhengi.

Vígspá var miklu duglegri að koma sér á framfæri árið 2000 og lék þá í fjölmörg skipti ásamt öðrum sveitum en tónleikahald tengt harðkjarnavakningunni var þó nokkuð. Þá um haustið tóku þeir upp næstu plötu, …Neðan úr níunda heimi! sem var átta laga plata eins og sú á undan, og kom hún út í nóvember. Um svipað leyti hætti Árni bassaleikari og tók Jakob [?] við bassaleikarahlutverkinu en hann hafði eitthvað komið við sögu á fyrri plötum sveitarinnar, sem og þessari nýju. Jákvæður dómur um plötuna birtist í Morgunblaðinu.

Sveitin var ekki eins áberandi næstu árin, þeir komu þó fram á Iceland Airwaves-hátíðinni 2001 en árið 2002 virðist sem Vígspá væri löngum stundum í pásu. Það var ekki fyrr en milli jóla og nýárs að eitthvað kvað að sveitinni sem og í upphafi árs 2003, þá var Haukur Viðar Alfreðsson orðinn bassaleikari hennar og hann lék á plötu sem kom út það ár (2003). Um var að ræða fimm laga plötu, Misery index image, sem vakti litla athygli en fékk þó nokkuð góða dóma í Morgunblaðinu. Platan varð svanasöngur Vígspár og sveitin virðist hafa hætt störfum um svipað leyti og hún kom út.

Meðlimir sveitarinnar áttu síðar eftir að leika með sveitum eins og Vargöld, Trössunum og Reykjavík!

Efni á plötum