Spor [1] [útgáfufyrirtæki] (1981-87)

Merki Spors

Útgáfufyrirtækið Spor (hið fyrra) var starfrækt í nokkur ár á níunda áratug síðustu aldar og var undirmerki á vegum hljómplötuútgáfunnar Steina í eigu Steinars Berg en var stýrt af Jónatani Garðarssyni .

Spori var ætlað að sinna ýmis konar útgáfu innan Steina og meðal fyrstu platnanna voru erlendir titlar með hljómsveitum eins og Matchbox, Bad manners og Depeche mode en þær plötur voru jafnframt pressaðar hér heima í plötupressun sem þá var nýtekin til starfa í Hafnarfirði undir nafninu Alfa.

Fyrstu plöturnar komu út haustið 1981 og sú fyrsta íslenska leit þá einnig dagsins ljós, það var fjögurra laga tólf tomma Grýlanna og í kjölfarið komu út nokkrar slíkar stuttskífur árið 1982 með Bodies, Tappa tíkarrass og Úlvunum. Árið 1983 kom svo út platan Mávastellið með Grýlunum og virðist það hafa verið eina breiðskífan með íslenskum flytjanda sem kom út undir merkjum Spors.

Eftir 1983 virðist sem einvörðungu hafi komið út safnplötur undir Spor-merkinu en þetta var einmitt á blómaskeiði safnplatnanna, það voru plötur eins og Ertu með, Rás 3, Á rás, Á rás 2, Dínamít, Sumarstuð, Endurfundir, Perlur, Stanslaust fjör, Dúndur og Þetta er náttúrulega bilun. Síðasta platan kom svo út vorið 1987, það var safnplatan Lífið er lag.