Spaugstofan (1985-)

Spaugstofan – Sama og þegið

Grínhópinn Spaugstofuna þekkja flestir Íslendingar enda hafa þeir skemmt landsmönnum með einum eða öðrum hætti í gegnum miðla eins og sjónvarp, útvarp og Internetið ásamt því að hafa sett leiksýningar og skemmtidagskrár á svið og gefið út plötur.

Upphaf Spaugstofunnar má rekja til sumarsins 1985 þegar Karl Ágúst Úlfsson og Sigurður Sigurjónsson voru fengnir til að vinna að Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins en þeir fengu þá til liðs við sig Örn Árnason, Randver Þorláksson, Pálma Gestsson og Þórhall Sigurðsson (Ladda), hópurinn vann svo að tveimur eftirminnilegum áramótaskaupum í kjölfarið (1985 og 86). Hópurinn var ekki alveg fastmótaður í upphafi og í upphafi árs 1986 hófu þeir Karl Ágúst, Sigurður og Örn gerð útvarpsþátta undir nafninu Sama og þegið á Rás 1 en þeir þættir nutu mikilla vinsælda og voru á dagskrá þar til um sumarið en í þeim var keyrt á stuttum „sketsum“ með útúrsnúningabröndurum sem féllu í góðan jarðveg í bland við tónlistaratriði – í þeim þáttum varð persónan Jón Bergsson úr Suður-Landeyjum til.

Um haustið settu þremenningarnir skemmtidagskrá á svið í Þórscafe undir nafninu Sama og þegið en hún var byggð á grunni útvarpsþáttanna og um svipað leyti kom út plata með hópnum undir því sama nafni – Sama og þegið, þar var um hreina grínplötu að ræða með stuttum sketsum og tónlist en útprentað grínleyfi fylgdi plötunni, númerað og vottað af þeim félögum. Platan fékk ágæta dóma í Helgarpóstinum og Morgunblaðinu.

 

Spaugstofan 1987

Á þessum tímapunkti var augljóslega kominn vettvangur fyrir grín af þessu tagi og í febrúar 1987 voru sýndir fjórir 15 mínútna þættir með Spaugstofunni í Ríkissjónvarpinu (á mánudagskvöldum) og má segja að þar hafi verið kominn vísir að hinum eiginlegu Spaugstofuþáttum sem síðar komu til sögunnar, í þessum þáttum voru þeir Randver og Laddi með þremenningunum.

Karl Ágúst, Sigurður og Örn störfuðu enn sem komið var mest þrír saman og í upphafi árs 1988 urðu til afar vinsæl útvarpsinnslög með þeim félögum undir nafninu Harrý og Heimir en þau innslög voru framlag útvarpsstöðvarinnar Bylgjunnar til grínsins en sú stöð var þá nýstofnuð, þættirnir voru kynntir sem svakamálaleikritið Með öðrum morðum. Harrý og Heimir, sem eru tveir vitgrannir spæjarar nutu gríðarmikilla vinsælda en einnig kemur þar við sögu sögumaður sem blandar sér inn í atburðarásina. Harrý og Heimir voru síðar settir á svið Borgarleikhússins en einnig var gerð kvikmynd með þeim félögum auk þess sem efnið úr útvarpsþáttunum hefur komið út á plötum. Það var svo þetta ár, 1988 að Spaugstofan varð til sem fyrirtæki en þá höfðu þremenningarnir skemmt víða um land með skemmtidagskrá sína auk ofangreindra atriða.

Árið 1989 urðu tímamót í sögu Spaugstofunnar og reyndar má segja að þá hafi orðið til hálfgert batterí sem átti eftir að móta og þróa íslenskan húmor næstu árin og áratugina en það voru sjónvarpsþættirnir Spaugstofan sem sýndir voru í Ríkissjónvarpinu. Þá komu þeir Pálmi og Randver aftur inn en Laddi hvarf á braut en einnig komu síðar til sögunnar ýmsir aukaleikarar s.s. Linda Ásgeirsdóttir og Erla Ruth Harðardóttir.

 

Spaugstofan við upphaf sjónvarpsþáttanna 1989

Ekki var tjaldað til margra nótta í byrjun, þegar þættirnir fóru af stað snemma árs (1989) var reiknað með þeim í dagskránni í mesta lagi fram á vorið enda báru þeir nafnið ´89 á stöðinni sem gefur varla til kynna langtímastefnu – titill þáttanna er augljóslega sótt til kvikmyndarinnar 79 á stöðinni. Raunin varð þó sú að þættirnir nutu gríðarmikilla vinsælda og héldu áfram á dagskrá Ríkissjónvarpsins um haustið og svo næstu árin, fyrst undir nafninu ´90 á stöðinni, svo ´91, ´92 og ´93 á stöðinni og síðar undir nöfnunum Enn ein stöðin (og um tíma Stöðvarvík) og Spaugstofan en þættirnir voru nokkuð samfellt á vetrardagskrá Ríkissjónvarpsins (og Stöðvar 2 um fjögurra ára skeið) fram til 2016. Þættirnir voru byggðir upp eins og um fréttaskýringaþátt væri að ræða þar sem málefni líðandi stundar voru sett fram í grínbúning þeirra félaga með eftirhermum, söngatriðum og almennu spaugi, stundum þurfti að hafa hraðar hendur með fréttatengda efnið, vinna handrit, taka upp og klippa svo það yrði tilbúið til sýningar á réttum tíma í dagskránni.

Ýmsar persónur urðu til í meðförum þeirra félaga og má þar m.a. nefna Kristján Ólafsson, Ragnar Reykás, rónana Boga og Örvar, lögregluþjónana Geir og Grana, og þannig mætti áfram telja. Þættirnir (alls voru framleiddir vel á fimmta hundrað þátta) nutu mikilla vinsælda en ekki féll þó alltaf allt í kramið hjá öllum áhorfendum og tvívegis voru þeir Spaugstofumenn kærðir fyrir atriði sem birtust í þáttunum, annars vegar fyrir klám og hins vegar fyrir guðlast í frægum páskaþætti – í hvorugt skiptið var þeim gerð refsing. Samhliða Spaugstofuþáttunum voru einhverjar sýningar settar á svið leikhúsanna og skemmtistaðanna auk þess sem þeir félagar skemmtu víða um land á sumrin með dagskrá sína og karaktera.

Spaugstofan

Þótt Spaugstofuþættirnir hafi ekki verið á dagskrá sjónvarpsstöðvanna síðustu árin hafa þeir félagar stundum birst á annars konar vettvangi og t.d. voru þeir með hlaðvarpsþætti í Covid-faraldrinum svo ekki er hægt að segja að Spaugstofan sé endanlega hætt störfum.

Efni á plötum