Steindór Hjörleifsson (1926-2012)

Steindór Hjörleifsson

Steindór Hjörleifsson var einn af þekktustu leikurum sinnar kynslóðar og var reyndar áberandi sem slíkur allan síðari hluta tuttugustu aldarinnar. Allir þekkja líka lagið Einu sinni á ágústkvöldi sem hann gerði ódauðlegt snemma á sjöunda áratugnum.

Steindór Gísli Hjörleifsson fæddist í Hnífsdal sumarið 1926 og vann ýmis störf áður en hann lauk námi við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar rétt fyrir 1950 og eftir það varð hann þekktur leikari, lék m.a. bæði hjá Þjóðleikhúsinu og Leikfélagi Reykjavíkur en hann mun hafa leikið á annað hundrað hlutverk á sviði, í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi á ferli sínum. Fyrir störf sín í leiklistinni hlaut hann margvíslegar viðurkenningar og verðlaun en hann vann einnig að félagsmálum leikara.

Hlutverk Steindórs voru margs konar og heyra má leik hans og söng á nokkrum plötum sem gefnar hafa verið út, þar má t.a.m. nefna tvær plötur frá Leikfélagi Reykjavíkur, annars vegar Leikfélag Reykjavíkur 75 ára og hins vegar Við byggjum leikhús, en einnig eru hér nefndar plöturnar Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness (fjögurra platna safn með upptöku Ríkisútvarpsins), Mjallhvít og dvergarnir sjö og Jólasveinar ganga um gátt. Síðast en ekki síst er nefnd sú plata sem Steindór var hvað þekktastur fyrir að syngja á – Lögin úr Delerium Bubonis eftir bræðurna Jónas og Jón Múla Árnasyni. Á þeirri plötu söng hann annars vegar lagið Ágústkvöld sem venjulega gengur undir nafninu Einu sinni á ágústkvöldi og er löngu orðið sígilt í meðförum Steindórs og hefur útgáfa hans sjálfsagt átt þátt í því hversu mikilli útbreiðslu lagið hefur náð, hins vegar lagið Ástardúett sem hann söng ásamt Kristínu Önnu Þórarinsdóttur leikkonu en það lag hefur einnig öðlast sígildi í gegnum árin. Bæði hafa lögin margoft komið út á safnplötum, bæði tengdum Jónasi og Jóni Múla en einnig öðrum slíkum.

Steindór Hjörleifsson lést haustið 2012.