Steingrímur Eyfjörð Guðmundsson (1960-2009)

Steingrímur Eyfjörð

Steingrímur Eyfjörð Guðmundsson var þekktur tónlistarmaður og hljóðmaður en sérsvið hans var hljóðvinnsla við kvikmyndir og sjónvarp. Hann var einnig titlaður tónskáld, ljóðskáld og kórstjórnandi meðal vina sinna.

Steingrímur fæddist í Reykjavík 1960 en ólst upp erlendis til sjö ára aldurs. Hann hafði alla tíð mikinn áhuga á tónlist og á unglingsárum sínum var hann farinn að leika með hljómsveitum á bassa og gítar en hann lék á ýmist önnur hljóðfæri einnig s.s. hljómborð og ýmis blásturshljóðfæri. Meðal hljómsveit sem hann starfaði með voru Halló og heilasletturnar sem telst til allra fyrstu pönkhljómsveita hérlendis, Skrautreið hemúlanna og Hljómsveit Ellu Magg en síðar komu sveitir eins og Oxsmá, Langi Seli og skuggarnir, Júpiters og Hringir, enn síðar lék hann svo með sveitum eins og kántrísveitinni Magnús Ferguson, Hópreið lemúranna og dúettnum Dívani grimma sem hafði reyndar starfað síðan 1978 en gaf út plötu árið 2009, fleiri sveitir Steingríms gáfu út plötur. Margar sveitir hans voru tilraunakenndar og fylgdu ekki endilega straumum og stefnum tónlistarsamfélagsins.

Aðal starf Steingríms Eyfjörð var við hljóðvinnslu í kvikmyndum, sjónvarpsmyndum, heimildamyndum og auglýsingum og samdi hann einnig tónlist fyrir þann geira, meðal kvikmynda sem hann vann við má nefna Mýrina, Brúðgumann, Dís og Gargandi snilld sem eru reyndar aðeins brotabrot af því sem hann vann við en hann hafði numið hljóðvísindi í Utrecht í Hollandi.

Haustið 2008 greindist Steingrímur með bráðahvítblæði en þau veikindi áttu eftir að draga hann til dauða ári síðar en hann lést haustið 2009. Vinir hans höfðu hrundið af stað söfnun og efnt til styrktartónleika fyrir hann í veikindunum undir yfirskriftinni Fílahjörðin rumskar í kvöld en þeir voru haldnir í Þjóðleikhúskjallaranum. Nokkru eftir andlát hans var síðan haldinn dansleikur í Iðnó til minningar um hann og Bergþóru Jónsdóttur, sem einnig var út þessum sama vinahópi.